Þarf "málsfarslögreglu" ?

Þegar Emil Björnsson var fréttastjóri og dagskárstjóri Frétta- og fræðsludeildar Sjónvarpsins hér um árið gerði hann þá kröfu, að engin málvilla heyrðist í Sjónvarpinu.

Þetta kostaði það að hann las sjálfur yfir allt sem sagt var í fréttatímanum, leiðrétti og færði til betri vegar. Ef einhver Íslendingur hefur verið uppi með óbrigðult málskyn, var það hann.

En hann gerði enn meiri kröfur. Hann krafðist þess að allur texti væri á lipru og auðskildu máli.

Þegar ég var nýbyrjaður á fréttastofunni fékk ég þá bestu kennslu í þessum efnum sem ég hef fengið.

Eftir að handrit að frétt hafði legið inni hjá honum í meira en klukkustund, kallaði hann á mig inn til sín.

Hann veifaði handritinu framan í mig og benti á það með fingrinum um leið og hann sagði með bylmingshárri röddu:

"Ég er fréttastjóri hér og hef nóg annað við tímann að gera en það sem ég er búinn að vera að strita við í langan tíma, að reyna að koma þessu bulli þínu á mannamál!  Þetta gengur ekki! Sérðu, hver afraksturinn er: Krafs með leiðréttingum mínum út um allt blað! Þetta er ónýtt! Ég hef unnið til einskis og geri þá kröfu að ég þurfi ekki að eyða dýrmætum tíma mínum í svona vitleysu!"  

Hann hækkaði róminn enn frekar og sagði með miklu þunga:

" Þetta má aldrei koma fyrir aftur! Farðu og skrifaðu þetta allt saman aftur á máli sem fólkið skilur! "

Á hverjum degi vaða málvillur, hugtakavillur, rökleysur og bull uppi í fjölmiðlum landsins.

Í gærkvöldi heyrði ég þetta á ljósvakanum:

"Aukning er á mönnum sem hjóla á reiðhjólum. "

Átta orð. Hvernig aukning á mönnum? Þyngdaraukning? Bólgur?  

Séra Emil hefði orðað þetta með því að nota tvö orð í stað átta:  

"Hjólreiðamönnum fjölgar."  

Ég er sammála séra Emil um það að íslenskir fjölmiðlar eigi að gera sömu kröfur um málfar og erlendir fjölmiðlar gera.

Til þess þyrfti að efla starf málfarsráðunauta sem væru ekki aðeins að benda eftir á á það sem betur mætti fara, heldur læsu yfir og leiðréttu texta, áður en hann er gerður opinber.  


mbl.is Málvillur í hverjum fréttatíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hef ekki séð nýlega "bílvelta varð."

Þorsteinn Briem, 20.9.2014 kl. 15:39

3 identicon

Séra Emil, hvað kemur það málinu við að hann hafi verið menntaður töfralæknir? Og afhverju í ósköpunum var verið að ráða prest sem frétta og dagskrárstjóra? Minnir pínulítið á þegar Heimir Steinsson var ráðin sjónvarpsstjóri, algjörlega óhæfur til starfa og eyðilagði nánast RÚV meðan hann réð ríkjum þar.

David Bjarnason (IP-tala skráð) 20.9.2014 kl. 19:47

4 identicon

Málvillur eru nógu slæmar og hvimleiðar, en hvað með hugsunarvillur?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.9.2014 kl. 19:56

5 Smámynd: Már Elíson

Þú ert einn um þær, Haukur....Við hinir sjáum um málvillurnar, engar áhuggjur....

Már Elíson, 20.9.2014 kl. 20:23

6 Smámynd: Már Elíson

EDIT ;...og innsláttarvillurnar líka..

Már Elíson, 20.9.2014 kl. 20:24

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Séra Emil hafði að baki 25 ár starfsferil sem fréttamaður á RÚV þegar hann var ráðinn fréttastjóri Sjónvarpsins. Enginn annar fréttamaður skákaði honum þá hvað reynslu snerti og enginn fréttamaður, sem til greina kom, var betur menntaður á sviði fjölmiðlunar. Fyrsta áratug hans á fréttastofunni var það starf eina starf hans, og þegar hann tók til starfa sem prestur, var það innan við hálft starf.

Ómar Ragnarsson, 20.9.2014 kl. 21:36

8 identicon

Það eru málfarslöggur í báðum „liðum" og ótrúlegasta fólk ver subbuskap í málfari.

Aðalsteinn Geirsson (IP-tala skráð) 20.9.2014 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband