24.9.2014 | 20:02
Nauðsynleg sérstaða hvarf.
Til að vörur seljist vel verða þær ekki aðeins að vera betri en vörur keppinautanna heldur er ekki síður nauðsynlegt að sérstaðan byggist á fleiri atriðum en verðinu og að þannig sé hægt að hörfa til traustra og stórra markhópa.
Sænsku bílaverksmiðjurnar Volvo og Saab hösluðu sér völl á ólíkum forsendum og bættu hvor aðra upp að því leyti að skörun markhópanna var litiil.
Volvo höfðaði meira til yfirvegaðra kaupenda með því að bjóða vel smiðaða, vandaða og trausta en næsta venjulega bíla með vél frammi í og drif á afturhjólum, þar sem gæði og öryggi voru sett ofar nýjungum í hönnun og útliti.
Eina atriðið sem minnisstætt er að væri öðruvísi en venja var á þessum tíma, var gormafjöðrunin að aftan. Og Volvo bauð um 1960 uppá kraftmiklar vélar sem valkost til að þjóna þeim sem vildu meira afl og hraða.
Útlitið speglaði íhaldssemi og tregðu tll að stunda ævintýramennsku.
Saab fór gerólíka leið þótt vöruvöndun og traust smíð væri líka í hávegum höfð. Saab 92 / 96 var framhjóladrifinn og með meira straumlínulagi og minni loftmótstöðu en aðrir smábílar á þeim tíma.
Útlitið var framúrstefnulegt en skapaði þó furðu mikið innanrými.
Svo vel var hönnunin heppnuð að hún entist að mestu óbreytt í 33 ár. Helstu breytingar voru fólgnar í því að skipta úr tvígengisvél yfir í fjörgengisvél.
Akstureiginleikarnir voru mjög góðir og skópu sigurgöngu Saab í bílaíþróttum.
Arftakinn, Saab 99 / 9000, var einstaklega vel heppnaður bíll, með hagkvæma og fallega hönnun sem skóp mikið rými og þægindi miðað við stærð og þyngd.
Bíllinn var með sérstæðan svip og auðþekkjanlegur. Þessi arftaki og afbrigði af honum entust í meira en tvo áratugi, allt fram á níuunda áratug síðustu aldar.
Á þeim tíma hefði verið lífsnauðsynlegt fyrir Saab að bjóða upp á nýja kynslóð bíla sem hefði sömu sérstöðu og Saab bílar höfðu haft fram að því.
En nú voru komin til sögunnar erfiðari skilyrði til nýsköpunar en áður höfðu verið. Framleiðendur neyttust til að einfalda framleiðsluna með því að smíða sameiginlega undirvagna, vélar og driflínur.
Saab hafði að vísu strax á sjöunda áratugnum leitað samvinnu við erlendar bílaverksmiðjur varðandi bílvélar, samvinnu við Ford í Þýskalandi með vélar í Saab 96 og í fyrstu var Saab 35 með vél frá Triumph.
En samvinnan 20 árum síðar við Fiat um sameiginlega undirvagna og meginlínur í yfirbyggingu í nýjum Saab, Fiat Chroma og Lancia Thema eyðilagði sérstöðu Saab.
Af þessum þremur bílum var Lancia Thema best heppnaður og allt í einu virtist Saab ekki lengur verið Saab.
Einhvern veginn heppnaðist samvinna Volvo við stórar erlendar bílaverksmiðjur betur en hjá Saab þegar kom að því verða óhjákvæmlega að beygja sig fyrir grimmum kröfum um samhæfingu og samvinnu í bílaframleiðslunni.
Nú var Volvo orðinn framhjóladrifinn eins og Saab og flestir aðrir bílar, þar með var sérstaða Saab að því leyti úr sögunni.
Og raunar blasir við að jafn fámennt land og Svíþjóð ber ekki tvær bílaverksmiðjur á okkar tímum, og raunar kraftaverk að ein bílaverksmiðja af nægilegri stærð þrífist þar.
Önnur hvor verksmiðjan að minnsta kosti, Volvo eða Saab, hlaut að lúta í gras, og hins sérstæða Saab fortíðarinnar er sárt saknað.
Þetta er gömul saga og ný. Sem dæmi má nefna þegar AMC naut mikillar velgengni í kringum 1960 í Bandaríkjunum í krafti yfirburða stöðu á markaði fyrir minnstu amerísku bílana, þá gerði AMC þau mistök að ætla að sækja fram á öllum markaðnum, allt frá minnstu til stærstu bílanna.
Það dreifði kröftunum, risarnir þrír svöruðu á öllum vígstöðvum og sérstaða AMC var eyðilögð.
Saab höfðaði
Saab segir upp þriðjungi starfsfólks | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er möguleiki að gengið sænsku krónunnar sé um of miðað við neytendur en framleiðendur? Að smátt og smátt hverfi lífið úr innlendri framleiðslu og þar allt selt burt sem hægt er?
Er möguleiki að hið sama hafi gerst á 9. áratugnum í Bretlandi, að hugsunin hafi orðið sú að gera Bretland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð en láta Asíubúana um "skítverkin"? Af hverju hefur iðnaði t.d. bílaiðnaði hnignað svo mjög í þessari vöggu iðnmenningarinnar.
Hér gekk allt hraðar fyrir sig en í Svíþjóð og Bretlandi, Ísland er á sinn hátt páfagaukurinn í námunni. Hér varð neyslusprenging og fjármálabylting byggð á of hátt stilltu gengi gjaldmiðilsins og menn rugluðu saman framleiðslu verðmæta og framleiðslu peninga. Þetta gerðist allt svo hratt að vel sást hvað var að gerast.
Spurning hvort Svíar hafi á einhverjum tímapunkti lent í sama, kanski þegar þessi guðsvolaða 68 kynslóð komst til áhrifa!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.9.2014 kl. 22:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.