27.9.2014 | 20:38
Eindæma snjór í Snæfelli.
Svæðið norðan Vatnajökuls, nokkurn veginn milli Snæfells í austri og Trölladyngju í vestri, hefur verið sá hluti Íslands, sem er með minnsta úrkomu, svo litla, að jaðrar við þurrt meginlandsloftslag.
Á síðustu árum hefur þetta breyst nokkuð, einkum hvað varðar svæðið í kringum Snæfell frvá Vestur-Öræfum vestur í Krepputungu.
Elstu menn muna ekki eftir eins miklum snjó á þessum slóðum og hlóðst niður síðasta vor og í sumar hefur verið meiri snjór í Snæfelli en menn minnast.
Þótt það kunni að virðast skrýtið, eru þessi miklu snjóalög að hluta til fylgifiskar hlýrra og úrkomusamara veðurfari en fyrir aldamótin.
Áberandi hafa verið öflugar lægðir og úrkomusvæði, sem hafa komið upp að Suðausturlandi með svo miklu vatnsveðri, að það hefur komist vestur yfir Austfjarðafjallgarðinn og Snæfell, og vegna þess að þetta hefur gerst að vetrarlagi, hefur úrkoman fallið sem snjór á fjöllum.
Meiri snjór hefur verið í Kverkfjöllum en oftast áður.
Þrátt fyrir þetta virðist Brúarjökull, stærsti skriðjökull landsins, halda áfram að minnka, bæði með því að lækka og dragast saman.
Hlýnun veðurfars gerist ekki jafnt og þétt, heldur eru algengar sams konar sveiflur á mili ára og árattuga og ævinlega hafa verið.
Frá lokum 19. aldarinnar hefur hins vegar verið áberandi, að hver hlýindatoppur er ögn hærri en næsti á undan, og hver lægðirnar hafa einnig farið smám saman hækkandi.
Síðan hafa ýmis tölvumódel leitt í ljós, að á afmörkuðum svæðum getur orðið kólnun og sýndu sum líkön það í lok síðustu aldar, að orðið gæti svalara í norðvesturhluta Evrópu og einnig úrkomusamara.
Vísbending um kólnandi veður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.