28.9.2014 | 15:30
Ný umgjörð og ný upplifun.
Svartur litur hefur verið yfirþyrmandi á gosstöðvunum í Holuhrauni að undanförnu að undanskildum hinum eldrauðu tungum, sem hafa staðið upp úr gígunum og sindrað í hraunsttaumum þar að næturlagi og í rökkri, sem verður æ lengri hluti sólarhringsins þegar haustar.
Raunar eru dökkir svartir og dökkgráir litir yfirgnæfandi á þessu svæði þegar það er autt, en fyrir bragðið skera aðrir litir, svo sem grænir litir gróðurvinja og bláir litir vatna, sig enn betur úr en ella.
Nú bætist hvítur litur vetrarsnævarins við auk þess sem miklar hvítar gufur standa upp úr þeirri hrauntungu, sem hefur teygt sig lengst í norðaustur og er í mikilli glímu við vatnið í Jökulsá svo að sýður hressilega upp úr.
Það var ný lífsreynsla að eiga svefnstað á Sauðárflugvelli í fyrrinótt vegna þess að þá stóð mökkurinn beint í áttina þangað, og þessi staður var miklu nær gosinu en í byggð.
Það var sérkennileg tilhugsun að geta átt von á þvi að ósýnilegt brennisteinsloftið sigi niður af lágum hæðum fyrir vestan völlunn og safnaðist fyrir á þessum stóra slétta fleti, en í slíkum tilfellum getur eitrunin orðið afar lúmsk.
Ráðið við þessu var að aka upp á hæð og vera þar yfir nóttina.
Þegar ég kem suður úr Akureyrarferð á afmælisskemmtun Ragga Bjarna í Hofi ætla ég að huga að því að velja fleiri myndir úr þessari ferð en hafa birst fram að þessu á facebook síðu minni.
Snjóar í Holuhrauni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
er hægt að koma akandi að sauðárflugvelli eða er lokað fyrir alla umferð frá kárahnjúkastíflu?
Lalli (IP-tala skráð) 28.9.2014 kl. 19:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.