Ekkert jafnast á við leikhúsið. "Aftur til upphafsins."

Nútíma menning og fjölmiðlun býr yfir stórkostlegum tæknilegum möguleikum ljósavakamiðla, kvikmynda stórsýninga og bóka til þess að færa áhorfendum listir, sögur og skáldskap. 

Ég hef fengið nasasjón af túlkunarmöguleikum þessara tækja og miðla, allt frá sjónvarpi til bókaskrifa, en niðurstaðan er samt sú að hin beinu milliliðalausu tengsl milli túlkanda og áhorfanda í leikhúsi eða útileiksviði taki öllu fram. 

Það eitt að horfst er í augu og jafnvel möguleiki á beinum snertingum sem og gagnkvæmum samskiptum og tjáskiptum á jafnréttisgrundvelli, sjá og finna viðbrögð og viðtökur, tekur öllu öðru fram.

Ég kynntist leiksviðinu fyrst á sjötta áratug síðustu aldar á afar mótandi hátt en síðar komu sjónvarp og bókaskrif til sögunnar.  

Bókin hefur þann kost fram yfir aðrar aðferðir til miðlunar, að hún rúmar mun meira magn en kvikmynd eða leiksýning.

En það hefur áreiðanlega verið mikils virði fyrir ritun Íslendingasagnanna að fyrst voru sögurnar mæltar af munni fram fyrir áheyrendur og meitiluðust og mótuðust áreiðanlega mjög af því.

Þess vegna ákvað ég fyrir nokkrum áratugum að fara þá leið varðandi það ef ég setti niður ýmislegt það sem ég hef upplifað og á dagana hefur drifið á ævinni, að fara það sem kalla má á enskunni "back to basics", afturhvarf til upprunans, með því að færa þett fyrst fram á leiksviði.

Var í dag uppi í Landnámssetrinu í Borgarnesi að æfa flutning áframhalds sögunnar, sem ég hóf að segja þar fyrir réttu ári, af fólki og fyrirbærum sem á dagana hafa drifið og mótað líf mitt og starf.

Í fyrra voru það árin 1940-53 sem fjallað var um em meginstef ásamt fjölskrúðugum frændgarði, sem tók mikið rými, en á frumsýningu næstkomandi föstudagskvöld verða árin 1953 til 1960 undirliggjandi tímalína.

Skólaárin, unglingsárin í borg og sveit með kynnum af stórbrotnu fólki, leiklistin og upphaf skemmtikraftsferilsins verða meginviðfangsefnið.

Þrátt fyrir að vera barn og unglingur fékk ég strax þá að kynnast ótrúlegu fjölbreyttu úrvali afk stórkostlegu fólki, allt frá aumustu vesalingum og niðursetningum til helstu ráðamanna og leikara þjóðarinnar og vonast til að geta skilað því sem best á sýningunum, sem framundan eru.    

  

 


mbl.is „Versti óvinur leikarans“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 identicon

„En það hefur áreiðanlega verið mikils virði fyrir ritun Íslendingasagnanna að fyrst voru sögurnar mæltar af munni fram fyrir áheyrendur og meitiluðust og mótuðust áreiðanlega mjög af því.“

Gaman að sjá þessa ævagömlu söguskoðun endurvakta.  Hún á þó ekki marga talsmenn meðal nútímabókmenntafræðinga.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 09:45

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég leyfi mér samt að hallast að þessari "ævagömlu" söguskoðun. Ég viðurkenni að vönduð, öguð og markviss vinnubrögð við ritun sagna skapi mikinn árangur, en eftir sem áður vantar alveg þann mikla kost, sem felst í viðbrögðum áhorfenda við flutningi sagna og efnis.

Þessa skoðun byggi ég á 55 ára gamalli reynslu af margítrekuðum flutningi efnis á sviði, þar sem áhorfendur hafa með viðbrögðum sínum laðað fram breytingar og endurbætur, sem annars hefði verið erfiðara að framkvæma.

Ómar Ragnarsson, 1.10.2014 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband