Áhugaverð og harðnandi viðureign elds og vatns.

Ísland er land átaka elds og íss eða öllu heldur elds og vatns, því að ís er aðeins vatn í föstu formi.

Best sjást þessi átök í Kverkfjöllum og í Grímsvötnum og eru Grímsvötn fyrir bragðið talin ein af sjö merkustu eldstöðvum jarðar.

Í ótal jökulhlaupum og flóðum, svo sem Skaftárhlaupum og Grímsvatnahlaupum sem voru kölluð

Skeiðarárhlaup meðan sú á var enn til, hefur mátt sjá þessar afleiðingar eldvirkninnar, sem brætt hefur ís undir jökli.

Nú bregður hins vegar svo við að jökull kemur hvergi beint við sögu í nýjustu rimmunni milli elds og vatns þar sem hið glóandi nýja Holuhraun þrengir að Jökulsá á Fjöllum á söndunum suðvestur af Vaðöldu.

Þaðan eru nefnilega meira en 20 kílómetrar suður að rönd Dyngjujökuls.

Á mynd á facebooksíðu minni má sjá norðausturenda hins nýja Holuhrauns eins og hann hefur verið síðan fyrir viku þegar myndin var tekin.  

Þessi langi rani hefur stöðvast vegna þess að hann er lengst frá eldstöðvunum, sem sjást í baksýn en einnig vegna kælingar af völdum Jökulsár, því að talsverð hitaorka fer úr glóandi hrauninu í það að sjóða árvatnið, sem stígur í gufuformi til lofts í miklum og mörgum gufustrókum.

En nýjustu fréttir herma að sunnar hafi nú önnur glóandi hrauntunga komist að ánni og sé búin að þrengja svo að henni, að hún renni í aðeins 5 metra breiðum stokki og haldi honum opnum með því að grafa sig inn í árbakka utan í hærra landi, sem er fyrir austan ána.

Fróðlegt verður að vita hvernig þessari viðureign á eftir að vinda fram, hve lengi áin getur haldið hrauninu frá sér og hve lengi hún getur grafið farveg sinn inn í bakkann.

Verða það nokkkur dægur, dagar eða vikur? 

Myndast lón? Það verður varla stórt til að byrja með en hver veit hvað gerist síðar? 

Framundan er slæmt veður á þessum slóðum svo að erfitt verður að fylgjast með þessari viðureign næstu daga nema að koma að ánni á landi úr austri.

Þetta verður í fyrsta skiptið síðan í Skaftáreldunum sem eldhraun gerir atlögu að stórri á. Þá voru engir áhorfendur til að fylgjast með átökunum, því að eldhraunið var likast til allt að 50 sinnum stærra en nú og fyllti Skaftárgljúfur á undraskömmum tíma.  

 


mbl.is Brennisteinsgas til norðvesturs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband