6.10.2014 | 15:44
Draumur, - enn bara draumur um svipað hús hér.
Allt frá því er kynni mín af íslenskum skemmtanahúsum hófust og ekki síður eftir að hægt var að bera þau þau saman við erlend hús af svipuðum toga, var það draumur minn að í Reykjavík risi slíkt hús sem ekki væri með stóran galla þáverandi húsa: Stór hluti samkomugesta sneri hlið eða jafnvel baki að hálfu leyti í sviðið.
Blómatími revíanna og kabarettsýninganna í Reykjavík var ár fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Þegar Sjálfstæðishúsið reis við Austurvöll var Bláa stjarnan blómstraði.
Húsið var full lítið og sitt hvorum megin á "vængjum" salarins var sjónlína gesta til sviðsins ekki nóg.
Síðan kom Lídó og var að vísu skárra en Súlnasalurinn á Hótel Sögu markaði tímamót hvað stærð, íburð og aðstöðu snerti.
Stór galli við hann var þó mikil fjarlægð gesta í norðurálmu og suðurálmu salarins frá sviðinu og skakkt sjónarhorn frá þeim á hlið og jafnvel á ská aftan á þann, sem á sviðinu var.
Ólafur Laufdal vann stórvirki síðustu tvo áratugi aldarinnar með Broadway í Mjódd og síðar í húsakynnum Hótels Íslands.
En báðir staðirnar voru þó með sama galla og Súlnasalurinn, að mikill meirihluti samkomugesta horfðu á hlið eða á ská aftan á þá, sem voru á sviðinu.
Á sama tíma voru risin á Snæfellsnesi félagsheimili á Ólafsvík og í Stykkishólmi sem voru algerlega rét hugsuð sem skemmtihús þar sem möguleiki var fyrir að hafa veislur og veitingar jafnframt skemmtidagskrám.
Allir horfa framan á þann sem á sviðinu er og með því að fólk sitji á stöllum eða pöllum er góð sjónlína frá öllum.
Ég talaði talsvert um þetta við veitingamenn á sínum tíma og sagði að draumur minn væri að skemmtanahús með svipuðu fyrirkomulagi og húsin á Snæfellsnesi eða í París risi í Reykjavík og að mikilvægt væri að hafa barinn ekki inni í salnum sjálfum til þess að minnka ónæði og hávaða frá honum.
Meðal veitingamannanna var Lúðvík Halldórsson í Gullhömrum, sem reyndi að útfæra þetta í Gullhömrum í Grafarholtshverfi eftir því sem kostur var á.
Þó komst hann ekki framhjá því að salurinn er full breiður miðað við dýpt, en hin æskilega lögun er að salurinn víkki út frá sviðinu líkt og blævængur.
Með tilkomu Hörpu hafa fjölmargar sýningar og tónleikar flust þangað, sem áður voru í skemmtanasölum borgarinnar og tími hinna glæsilegu sýninga og kabarettsýninga á vegum Ólafs Laufdal á Broadway er liðinn.
Þetta er að því leyti til framför, að minna er um ölvun og óróa á sýningunum í Hörpu og Salnum í Kópavogi en er, þar sem vínveitingar eru í fullum gangi eins og í skemmtanahúsunum.
En draumurinn um svipað hús og sýningar og í Rauðu Myllunni í París er enn bara draumur, sem rætist varla úr þessu hjá mér.
Uppselt nánast hvert kvöld alla daga ársins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Frá vígslu Sjálfstæðishússins í Reykjavík árið 1946 (síðar skemmtistaðurinn NASA frá 2001) en Halldór Laxness var fastagestur í vinsælu síðdegiskaffi í Sjálfstæðishúsinu:
Þorsteinn Briem, 6.10.2014 kl. 16:24
Eins og sést hægra megin á myndinni þá skyggðu súlur á sviðið fyrir mörgum gestum. Og þeir, sem sátu allra fremst á hliðarsvölunum sáu illa til sviðsins.
Ómar Ragnarsson, 7.10.2014 kl. 20:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.