14.3.2007 | 01:21
ALDARLJÓMI ÍR
Ég hef verið Framari lengur en ég hef lifað því foreldrar mínir skráðu mig í félagið nokkrum mánuðum fyrir fæðingu. En ég er líka ÍR-ingur og keppti fyrir það félag í frjálsíþróttum. Í umfjöllun eins blaðsins um aldar afmæli félagsins er að vísu minnst á afrek Vilhjálms Einarssonar og Völu Flosadóttur en gleymist alveg að minnast á stjörnurnar um miðja síðustu öld sem vörpuðu ljóma á landi á fyrstu árum lýðveldisins.
Þar má meðal annarra nefna Clausenbræður, Finnbjörn Þorvaldsson og Jón Þ. Ólafsson. Örn Clausen var þrjú ár í röð þriðji besti tugþrautarmaður heims og Haukur tvíburabróðir hans átti Norðurlandamet í 200 metra hlaupi í 13 ár.
Það er eitt mesta slys íslenskrar íþróttasögu að Hauki skyldi bægt frá keppni í 200 metra hlaupi á EM í Brussel 1950 sama sumarið og hann náði besta tímanum í Evrópu í þeirri grein.
Ekki var það minna slys að þeir skyldu þurfa að hætta keppni aðeins 22ja ára gamlir. Á þeim aldri eru tugþrautarmenn rétt að byrja að klífa upp afrekastigann. Það kom í ljós í Bandaríkjadvöl Hauks að hann hefði getað orðið geysigóður tugþrautarmaður.
Ekki er út í hött að ætla, að hefðu þeir bræður haldið áfram og fengið þjálfun í Bandaríkjunum hefði alveg verið í myndinni að sjá þá báða á verðlaunapallinum í Melbourne.
Jón Þ. Ólafsson stökk 2,11 metra með þriggja skrefa atrennu í litla ÍR-húsinu sem var eitt besta innanhúshástökkið í heimi þann veturinn. Lengi mætti telja afrek ÍR-inga í gegnum tíðina.
ÍR-taugarnar eru sterkar og ég vona að félagið dafni og afreksfólk þess blómstri á annarri öld sögu þess.
Athugasemdir
Ekki gleyma mínum yndislega frænda, Kristjáni Jóhannssyni skáldi frá Hlíð í Skíðadal, sem keppti oft erlendis í hlaupum fyrir Íslands hönd. Nú er hún Snorrabúð stekkur og Klakverjar hlaupa bara á sig þessa dagana.
Steini Briem (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 07:03
...og ekki má heldur gleyma Valbirni Þorlákssyni sem hljóp 100m á 14.2 sekúndum aftur á bak, að eigin sögn
Sigurjón Guðjónsson, 18.3.2007 kl. 06:20
Ég er aðeins 69 ára og ég man vel þegar bræðurnir voru að gera garðinn frægann erlendis og heima ásamt mörgum fleiri á þessum tíma sem ekki voru endilega ÍR ingar.
Þess vegna hef ég alltaf verið mjög ósáttur við að sjá þessa menn hætta áður en þeir náðu á tindinn því að ég hef alltaf staðið í þeirri trú að þeir hafi átt mikið inni. Af hverju hættu mennirnir svona snemma.???
Baldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 15:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.