12.10.2014 | 08:42
Fyrir hverja er þjónusta og reglur um hana?
Tilgangur opinberrar þjónustu og eðli ættu að liggja í augum uppi en vilja oft gleymast.
Opinberir starfsmenn eru í vinnu hjá almenningi en ekki öfugt. Það virðist oft gleymast. Umfang og vöxtur opinberrar þjónustu á ekki að vera takmark í sjálfu sér, heldur þörfin á henni.
Reglur eru settar af nauðsyn til þess að gera ferli viðkomandi þjónustu eða starfsemi skýrt, skilvirkt, öruggt og hagkvæmt.
Oft liggur mikil vinna að baki reglum, sem reynt er að hafa þannig úr garði gerðar, að þær gildi um öll afbrigði sem upp kunna að koma.
Eðlilegt er að þeir, sem hafa búið til regluverk og lagt í það mikla vinnu, hugkvæmni og útsjónarsemi séu stoltir af þeim.
Í gerð slíkra reglna gleymist það hins vegar oft, að það er ekki alltaf hægt að sjá allt það fyrir, sem kann að koma upp og að ævinlega má búast við því að mannanna verk séu ekki gallalaus.
Í slíkum tilfellum ætti að vera ljós nauðsyn þess að beita almennri skynsemi til að gera undantekningar, veita afbrigði eða breyta reglunum.
En þá er oft eins og óbreyttar reglur séu orðnar að óumbreytanlegum helgidómum eða náttúrulögmálum.
Ástæðan er mannleg: Það getur verið erfitt að viðurkenna galla á regluverki, sem gríðarleg vinna, metnaður og stolt hafa verið lögð í og, -
- það er svo þægilegt fyrir þá, sem hafa samið reglurnar og nota þær, - einfaldast að beita valdi sínu og gleyma því um leið fyrir hverja er verið að vinna og fyrir hverja reglurnar eru samdar.
Stundum getur verið álitamál um galla á regluverki og takmörk fyrir því hve langt eigi að ganga í að flækja málin með endalausum þrætum um einstök atriði þess.
En þegar gallar liggja í augum uppi og skera í augu, eru til trafala og gera mál erfiðari og flóknari, verður stolt hins opinbera að víkja fyrir þeirri staðreynd, að starfsmenn stofnana ríkis og sveitarfélaga eru í vinnu hjá almenningi en ekki öfugt.
Tölvan segir nei! | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta ættu að vera augljós sannindi hverjum hugsandi manni. Losa þarf hratt og vel um óþarfan þvergirðing - Koma svo!!!
Þorkell Guðnason, 12.10.2014 kl. 11:11
Þjóðskrá verður að fara að lögum eins og aðrir í landinu og ef hún hefur búið til reglur um afhendingu vegabréfa sem ekki eru samkvæmt lögum og reglugerðum eru reglurnar lögbrot.
Samkvæmt 14. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs er almennt gjald fyrir útgáfu vegabréfa til útlanda fyrir 18-66 ára 10.250 krónur, skyndiútgáfu 20.250 krónur og neyðarvegabréf 5.150 krónur.
Lög um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991
Og samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 560/2009 um útgáfu íslenskra vegabréfa skal umsækjandi taka fram hvort óskað er forgangs vegna skyndiútgáfu.
"13. gr. Almennur frestur til útgáfu vegabréfs er þrír til fjórtán virkir dagar frá móttöku umsóknar. Heimilt er að veita forgang til skyndiútgáfu vegabréfs innan þriggja virkra daga.
Þegar Þjóðskrá hefur gefið út vegabréf skal það sent umsækjanda, eða til lögreglustjóra, sýslumanns, sendiráða, fastanefnda eða ræðisskrifstofa, þar sem umsækjandi getur fengið það afhent."
Reglugerð nr. 560/2009 um íslensk vegabréf
Þorsteinn Briem, 12.10.2014 kl. 12:50
Fæ því ekki betur séð en að samkvæmt þessari "frétt" hafi kona þessi, sem væntanlega hefur ekki vit á að setja x á réttan stað og því í Framsóknarflokknum, fengið góða þjónustu hjá Þjóðskrá.
Fallegar og brosmildar stelpurnar á Þjóðskrá og í flottum stígvélum.
Þorsteinn Briem, 12.10.2014 kl. 14:05
Það er gaman að sjá þegar fólk ruglar saman huglægum tengingum og innantómum slagorðum um starfsmannahald og eignarrétt við raunveruleikann án þess að sjá muninn. Merkingarlaus hugtök sem nothæf eru eingöngu við hátíðleg tækifæri til að upphefja okkur sjálf og gera merkilegri en við erum verða að kröfu um að raunveruleikinn endurspegli þær. Þannig verða opinberir starfsmenn að þjónum og starfsmönnum almennings og eignir ríkis og bæja að eignum almennings.
Opinberir starfsmenn eru ekki í vinnu hjá almenningi, starfsmenn stofnana ríkis og sveitarfélaga eru ekki í vinnu hjá almenningi. Það hljómar vel í 1. maí ræðum en er algert bull. Opinberir starfsmenn veita almenningi þjónustu samkvæmt þeim reglum sem vinnuveitandi setur og lögum sem gilda. Sá almenningur ósáttur við þjónustuna á hann kost á því að kvarta við raunverulega vinnuveitandann. Það er óréttmæt krafa að heimta að starfsmaðurinn víki frá lögum eða skyldum sínum við vinnuveitanda sinn.
Espolin (IP-tala skráð) 12.10.2014 kl. 15:03
Svona er þetta líka með B póstinn hjá Póstinum, hann er bara látinn sitja í bakka þangað til komin er tími til að bera hann út. Erlendis hefur A póstur forgang en B póstur er tekinn með ef það er laust pláss.
Karl J. (IP-tala skráð) 12.10.2014 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.