13.10.2014 | 21:26
Smávægileg mistök geta verið dýrkeypt.
Á Vestfjörðum eru þrjú stærstu fuglabjörg Evrópu, Látrabjarg, Hælavíkurbjarg og Hornbjarg. Enn höfum við Íslendingar ekki áttað okkur á því hve mikils virði þessi björg eru.
Sjálfum varð mér það ekki ljóst fyrr en í Írlandsferð 1993 þar sem í ljós kom að Írar stórgræða á því að beina erlendum ferðamönnum að fuglabjargi einu, sem er aðeins brot af vestfirsku björgunum, en þeir auglýsa samt sem stærsta fuglabjarg Evrópu.
Þegar ég benti þeim á að þrjú björg væru stærri á Íslandi svöruðu þeir því til að Ísland væri eyja langt frá Evrópu. Ég benti þeim þá á það að Írland væri líka eyja.
Hvað um það, - af íslensku björgunum er Hornbjarg magnaðast og stærst en Látrabjarg er lang ferðamannavænast og með mestu möguleikana.
Vegur liggur alveg að bjarginu, fyrrum var skráð og viðurkennd flugbraut í fjörunni við Hvallátur og sigling þaðan undir bjargið er aldeilis óviðjafnanlegt ævintýri og upplifun.
En helsta ástæða yfirburða aðgengis að bjarginu er sú að það er svo auðvelt uppgöngu fyrir ferðafólk.
Það getur valið um það hvort það gengur smá spöl út úr bílnum fram á um 30 metra háa bjargbrún úti undir Bjargtöngum, gengur aflíðandi brekku upp í 60 metra hæð að Ritugjá og sjái hana og Barðið, eða haldi áfram til austurs á bjargbrúninni sem smá hækkar þangað til hún er orðin 440 metra há og hægt fyrir þá hörðustu að fara niður Saxagjá og út á hinar einstæðu Saxagjárvöllur.
Það er auðvelt að gleyma sér á Látrabjargi, og geta þá átt á hættu að aðeins augnabliks vangá valdi slysi.
Það getur líka verið varasamt að vera orðinn svo vanur bjarginu og hengifluginu að nauðsynleg varkárni dofni.
Þetta kom fyrir mig 1976 þegar ég sá, hvað elstu börnin mín Ninna, Ragnar og Þorfinnur, stóðu á skemmtilegum stað til myndatöku. Ég gekk afturábak til að ná besta sjónarhorninu en fölnaði upp þegar ég varð þess skyndilega var að ég var kominn svo nálægt bjargbrúninni sem var á ská aftan við mig, að aðeins ég var aðeins örfá fet frá henni, án þess að hafa tekið eftir því.
Þarna hefði getað farið illa.
Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær slík slys verða. Bjargið er og mun verða lúmskt hættulegur staður fyrir alla sem þangað koma.
Um bjargið gildir svipað og um mörg önnur einstaklega mögnuð ferðamannasvæði á Íslandi, að þau eru svo víðfeðm að engin leið er að setja upp girðingar eða gæslu sem geta komið í veg fyrir það að slys verði. Því miður.
Ferðamaðurinn finnst ekki enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Rétt hjá þér Ómar. Það mætti segja það sama um gosið í Holuhrauni. Ákveðin hugsanavilla í gangi þar, hvað varðar lokunasvæðið. Að reyna að verjast almenningi, sem vill sjá gosið, er dæmt til að mistakast.
Stefán Þórsson (IP-tala skráð) 14.10.2014 kl. 17:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.