18.10.2014 | 10:29
Stefnir í hrun. Þarf langtímasamning.
"Mene, mene, tekel", skriftin á vegg heilbrigðiskerfisins á Íslandi, blasir við. Sérfræðingum fækkar jafnt og þétt og í raun hraðar en sýnist á yfirborðinu, því að þeir sem hanga hér enn, verða sífellt eldri. Sama er að segja um heimilislækna.
Hrunið í fjármálakerfinu 2008 var slæmt en snerist þó að mestu um efnisleg gæði. Hrunið, sem nú er í gangi í heilbrigðiskerfinu, er allt annað og verra, því að þar er um að ræða líf og heilsu þjóðarinnar.
Þegar horft er á ástandið sést, að smíði risavaxins hátæknisjúkrahúss fyrir tugi eða jafnvel hundruð milljarða króna verður gagnslaus ef engir fást til að vinna þar.
Spurningin er einföld: Ætlum við að vera samkeppnisfær við nágrannalöndin varðandi lífsnauðsynlegan starfskraft eða ætlum við að láta heilbrigðiskerfi okkar drabbast niður í það að hér verði senn svipað ástand og í vanþróuðu löndunum með þjónustuskorti af áður óþekktri stærð.
Fram að þessu hafa fjármálaráðherrar mismunandi flokka staðið einir í slagsmálum stund og stund í einu um kjör heilbrigðisséttanna án nokkurrar framtíðarsýnar eða lausnar, sem breytir einu eða neinu.
Slík stefna skammsýni, ófriðar og óánægju mun óhjákvæmilega stefna heilbrigðiskerfinu í hrun.
Við vitum að það er erfitt að bæta þannig kjör heilbrigðisstéttanna í einu vetfangi að hruninu verði aftrað og það hefur verið meinið, - enginn einn fjármálaráðherra hefur megnað þetta.
Nú þarf að koma til langtímaáætlun, studd af þverpólitískri samstöðu, þar sem læknum og hjúkrunarleiði verði tryggð nógu kjör til frambúðar til að stöðva landflóttann og komast hjá hruni.
Rétt eins og menn sáu á sínum tíma að gera þyrfti vegaáætlanir til allt að tíu ára, þarf að gera hið sama í heilbrigðiskerfinu. Annar blasir við hrun þess, sem ekkert þjóðfélag getur verið án á okkar tímum: Hrun heilsunnar.
Afleiðing þess eru ótímabær veikindi og dauði þúsunda manna og landflótti þeirra sem til þess hafa heilsu og atgerfi.
Liðlega 110 færri læknar en 2009 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þorsteinn Briem, 18.10.2014 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.