Það fyrsta sem er drepið í stríði er sannleikurinn.

Oft hefur verið rætt um hina brýnu skyldu hjá vestrænum lýðræðisþjóðum að tryggja að aðeins sé sagt satt og rétt frá í fjölmiðlum og að sú skylda hvíli þyngst á stjórnvöldum og valdsherrum. 

En dæmin sanna að engu máli virðist skipta hverjir stjórna eða hvernig þeir hafa verið kosnir; - hvenær, sem færi gefst er sannleikanum hagrætt, þrætt fyrir hann eða beinlínis logið að almenningi.

Vitað er að grimmir og ósvífnir valdhafar eins og Adolf Hitler svifust einskis í því að setja á svið atvik eða stunda beinar blekkingar þegar þeir réttlættu árásir sínar á aðrar þjóðir, svo sem í innrásinni í Pólland 1939.

Hitt er dapurlegra þegar leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja hafa gert svipað og sannað með því hið nöturlega orðtak að það fyrsta, sem drepið sé í stríði, sé sannleikurinn, og raunar sé sannleikurinn strax drepinn áður en stríðið hefst. 

Dæmin eru mýmörg. Þegar Gary Powers var skotinn niður skömmu fyrir boðaðan fund æðstu manna risaveldanna 1960 harðneitaði Eisenhower Bandaríkjaforseti því að stunduð hefðu verið njósnaflug á U-2 njósnaþotum yfir Sovétríkjunum.

Eftir því sem Sovétmenn hröktu þessar lygar lið fyrir lið streittist Eisenhower þó við að spinna upp nýjar og nýjar lygar og undanbrögð.

Powers hafði fyrir flug sitt eins og aðrir njósnaflugmenn Kananna svarið að því eið að taka eigið líf frekar en að falla í hendur Rússa.

Það gerði hann ekki og þegar hann var um síðir laus úr prísund Rússa átti að refsa honum harðlega þegar hann kom til Bandaríkjanna.

Svona rétt eins og að Rússinn, sem stöðvaði kjarnorkustríð upp á eigin spýtur 1983 með því að taka ekki mark á röngum upplýsingum um kjarnorkuárás Bandaríkjamanna í biluðu tölvuknúnu aðvörunarkerfi var refsað harðlega fyrir tiltækið.

Lygar og undanfærslur Eisenhowers urðu til þess að Rússar, sem fram að því höfðu metið hann að verðleikum sem góðgjarnan yfirhershöfðingja Vesturveldanna í Seinni heimsstyrjöldinni, misstu allt traust til hans og hættu því við að fara á fyrirhugaðan leiðtogafund.

Fyrir það var Krústjoff gagnrýndur á Vesturlöndum en spurning er hvort hægt sé að lá honum það.  

Færð hafa verið að því rök að frásagnir Bandaríkjamanna af árás Norður-Vietnama á Tonkinflóa í Víetnamstríðinu hafi að mestu leyti verið uppspuni til þess að réttlæta stigmögnun stríðsins.

Saddam Hussein sagði eftir að Bandaríkjamenn náðu honum, að hann hefði ekki getað ímyndað sér að ráðist yrði á landið á þeim forsendum að þar væru gereyðingarvopn vegna þess að bandaríska leyniþjónustan hlyti að vita að engin slík vopn væru til.

Saddam drap sennilega mun fleiri Kúrda en Írana með efnavopnum, sem Bandaríkjamenn létu hann hafa meðan hann var þeim þóknanlegur. Þá höfðu Kanar ekki hátt um "gereyðingarvopn" hins spillta harðstjóra, því að hann var bandamaður þeirra. 

Ömurlegastur fyrir okkur Íslendinga er hlutur þáverandi forsætisráðherra okkar og þó enn frekar utanríkisráðherra okkar, sem einir og sér gerðu Íslendinga 2003 að einni af hinum "viljugu þjóðum" til þess að fara í ólöglegt stríð gegn fjarlægri þjóð á upplognum forsendum.

Hlutskipti utanríkisráðherrans var verra vegna þess að hann bætti um betur og trúði því að Íslendingar hefðu fundið gereyðingarvopnin sem áttu að réttlæta stríð, sem kostaði hundruð þúsunda manna lífið með afleiðingum sem enn eru að koma í ljós og sér ekki fyrir endann á.   


mbl.is Líklega sinnepsgas í vopnum sem Íslendingar fundu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband