15.3.2007 | 19:22
ÁFRAM HEILSUVERNDARSTÖÐ - FRÁBÆRT
Það eru góðar fréttir að Heilsuverndarstöðin verði ekki að hóteli heldur áfram notuð í lækningastarfsemi. Stöðin var sérhönnuð sem heilsuverndarstöð á sínum tíma, merk bygging og fögur. Of margar merkar byggingar eru ýmist rifnar, þeim breytt eða þær fluttar í annað umhverfi.
Manni verður hugsað til Fjalakattarins og fleiri húsa í þessu sambandi. Meðan Heilsuverndarstöðin var í byggingu var hún eitt ævintýralegasta leiksvæðið á bernskuárum mínum með koldimmum ófullgerðum rangölum sínum í kjallaranum sem voru kjörnir fyrir æsilega leiki.
Athugasemdir
Mamma fór nánast daglega með mig í heimsókn til Barónsins, því hurðir allar og ofnar réðust á kollinn á mér við hvert tækifæri og ber ég enn ummerki um þennan stöðuga hernað, þó frekar innan höfuðs en utan. Sjallarnir stóðu fyrir því að rífa Fjalaköttinn, elsta kvikmyndahús í Evrópu, og loka Baróninum, einu sérhönnuðu heilsuverndarstöðinni í Reykjavík, og flytja starfsemina annað fyrir stórfé og í mikilli óþökk starfsfólksins í þokkabót. Þetta fannst Sjöllum alveg stórsniðugt.
Steini Briem (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 19:56
Ég hef gaman af því, Ómar minn, að þú skulir leika á sviði þessa dagana. Ég hef alltaf litið upp til þín og þinnar orku, sem er á við fimm Kárahnjúka, en hef áhyggjur af því að þú sért að færast of mikið í fang þessa dagana, þó alltaf sértu ungur í anda sem betur fer. Sonur minn, Alexander, nú 17 ára, er líka ofvirkur og ég hef oft hugsað um að hann verði líklegast eins og þú, leikari frá fjögurra ára aldri, þar á meðal í Þjóðleikhúsinu, kvikmyndarýnir í útvarpi og sjónvarpi, textasmiður og söngvari í þokkabót, þó ekki í Þokkabót. Mér þykir mjög miður hvað sumir eru illskeyttir gagnvart þér, því þú átt allt gott skilið að mínu mati. Vér grænir af öllum ættum, Verdi, munum sigra í kosningunum í vor en ég held að ykkar framboð komi of seint fram á leiksviðið. Sú feita búin að syngja sitt síðasta og leiktjöldin fallin. Ég óska ykkur þó alls hins besta í ykkar skæruhernaði gegn Íhaldinu. Maginot-lína þeirra er nú þegar fallin de facto í Blitzkrieg hinna grænu en fróðlegt verður að sjá hversu langt til hægri hin nýju landamæri munu liggja eftir kosningarnar í vor. Farðu vel með þig ævinlega á öllum sviðum. Viva Verdi!
Steini Briem (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 21:10
Jamm, öll erum við syndug, Ómar minn góður, nema Árni Johnsen. Hann keypti sér syndaaflausn í fiskbúðinni í Eyjum og er í Frelsisbandalaginu:
Árni John-seninn slyngi,
já, hver er betri í faginu
hjá Frelsisbandalaginu?
Þó Árni sitt síðasta syngi
hann heldur alltaf laginu.
Og brátt hann verður á þingi
með hinum Sjallaskjóðunum,
sameinuðum öllum sóðunum
í stjórnarandstöðu á Alþingi.
Frelsið er í vogarskálalóðunum
léttvægt á móti krónum á þingi,
kostað hefur lítið sem ekki neitt.
Komast þar Sjallarnir í ansi feitt,
þó frelsinu æ lofgjörð þeir syngi.
Hrópum húrra fyrir amlóðunum!
Steini Briem (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 06:23
Ég tek undir þetta heils hugar Ómar. Hvílíkt menningarslys yrði ef húsið yrði notað í allt aðra starfsemi. Þetta hús er eitt af fáum "merkisberum" íslenskrar heilbrigðisþjónustu og sögu hennar og arkitektúr í landinu. Líkt og með náttúruna verðum við að vernda þessar gersemar og virða. Hrá hagkvæmni á ekki alltaf við.
Svanur Sigurbjörnsson, 16.3.2007 kl. 14:59
Ég sé nú ekki hversu gríðarleg björgun þetta er að húsið verði áfram í heilsuvernd frekar en að hýsa gesti sem verða nú af því að fá að gista í þessu fallega húsi? Fáar bygginar eru jafn ósjarmerandi og heilsuverndarstofnanir, en hótel geta verið mjög kósí. Ég reikna með að þetta "verndunarsyndrom" þýði að ekki megi hrófla við neinum húsum eða landssvæðum því að það sé svo neikvætt að breyta til? Samkvæmt því hefði t.d. alls ekki mátt opna veitingastaðinn Apótek, né sjávarkjallarann, Eimskipshúsið hefði ekki breyst í veitingahúsið og hótel, og ekki væri hægt að fá sér kaffi á Kaffi París því þar var seldur herrafatnaður svo lengi að það væri eiginlega orðið "fast" sem herrafataverslun? Ekki væri Listasafn Reykjavíkur né Listasafn Íslands á sínum stöðum, Iðu húsið væri ennþá tómt, og ekki mætti rífa strætóhúsið á Lækjartorgi því það er jú "merkisberi íslenskrar samgöngusögu og arkitektúrs í landinu" eða hvað? Ég er umhverfis-sinni. Ég er hinsvegar ekki alltaf umhverfis-VERNDAR sinni, því stundum þýðir VERND því miður STÖÐNUN. Það er verður að vera hægt að breyta og bæta of framþróa þó við viljum ekki ganga óþarflega á náttúrufegurð og gæði! Að lokum auglýsi ég eftir sjónarmiðum þínum og framboðsins Ómar varðandi lausagöngu búfjárs, sem er einhver stærsti umhverfisvandi þjóðarinnar. Kveðja, Rúnar
Rúnar (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 16:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.