23.10.2014 | 21:18
5-15 ferkílómetra lón við Lönguhlíð? Varla.
Af því að aðeins rúm vika er síðan ég var á sveimi yfir gosstöðvunum í Holuhrauni er ég spurður, hvað líði átökum Jökulsár og nýja hraunsins, hvort lón sé að myndast.
Einnig er spurt um það hvort Svartá geti stíflast.
Ég ætla að setja mynd og kort á facebook sem útskýrir ástandið en vísir að mjóu lóni sást á myndum, sem voru sýndar í fréttum Sjónvarpsins.
Á ljósmynd af norðausturenda hraunsins má sjá, að enda þótt hraunið sé búið að ýta ánni upp í hallann á vesturhlið Lönguhlíðar, er áin furðu dugleg að sverfa sig niður inn í hallann.
Þótt lítið vatn sé í ánni á þessum tíma árs tekst henni halda enn í horfinu og nýtur þess, að hraunið kólnar í snertingunni við hana og storknar fyrr en ella. Það leitast því við að flæða frekar í aðrar áttir.
Enn er á annan kílómetra að Svartá neðst til hægri á myndinni, svo að varla er hún í bráðri hættu.
Vinur minn sendi mér kort sem hann gerði af mögulegu lóni, sem gæti myndast milli hrauns og hlíðar ef hraunflæðið heldur áfram af óbreyttum krafti og þrengir Jökulsá upp í meiri hæð utan í halla Lönguhlíðar.
Kortið sýnir 19 ferkílómetra lón hið stærsta (merkt með rauðum lit).
Það myndi teljst talsverð frétt en þess ber samt að gæta, að yfirleitt eiga íslensku árnar síðasta orðið í baráttu af þessu tagi.
Þegar mun meira vatn verður í Jökulsá næsta sumar en nú, mun hún verða dugleg við að grafa sig niður og hún á tímann frekar fyrir sér en hraunflæði í gosi, sem Haraldur Sigurðsson giskar á að muni verða hætt fyrir næsta vor.
Skjálftavirkni mikil í Bárðarbungu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.