ÁHÆTTA Á KOSTNAÐ ÞJÓÐARINNAR

Í frétt í Blaðinu í dag sést  að nú er að koma í ljós hluti af því sem ég benti á í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti", og fyrir hálfu ári í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár". Þar var eftirtalin tilvitnun í álit lögfræðings Landsvirkjunar:

"...virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu, tæknilegu, umhverfislegu og markaðslegu tilliti, - er í raun eyland í raforkukerfinu og rýrir það gildi vatnsréttinda. Ekki er hægt að útiloka að stofnkostnaður fari fram úr áætlunum vegna tæknilegra örðugleika á byggingartíma og rekstrarkostnaður Hálslóns geti orðið umtalsverður ef beita þurfi ítrustu mótvægisaðgerðum vegna skilyrða um umhverfisþætti."

Á sínum tíma sagði Halldór Ásgrímsson að Impregilo hefði bjargað virkjuninni með lágu tilboði sínu því hin tilboðin hefðu verið svo há að útilokað hefði verið að taka þeim, - virkjunin hefði þá ekki skilað arði. Raunar er arðurinn sem virkjunin átti að skila svo lítill að ekkert einkafyrirtæki, stórt eða smátt, hefði lagt í þessa framkvæmd með svo lágri arðprósentu.

Einn af talsmönnum NCC sagði mér að tilboðið hjá þeim hefði verið jafn hátt og raun bar vitni vegna þess að auðséð var að mikil áhætta fylgdi verkefninu og það væri mjög flókið. Mikil hætta væri á að forsendur sem Landsvirkjun setti fram í útboðsgögnum stæðust ekki og ekki væri ráðlegt að standa í þrefi um kröfur á hendur Landsvirkjun vegna þess.

Ég benti NCC-manninum á að Impregilo hefði ekki látið þetta aftra sér. Hann sagði þá að öðru máli gilti um Impregilo, - þeir hefðu á sínum snærum einhverja bestu og hörðustu lögfræðinga Evrópu. Nú hefur komið í ljós að gangagerðin er langt á eftir áætlun og stefnir í háar sektagreiðslur Landvirkjunar til Impregilo.  

Impregilo-menn geta verið rólegir, - þeir vita að verkið er ríkistryggt. Íslenskir ráðamenn geta líka verið rólegir, - þeir vita að dæmið verður ekki allt gert upp fyrr en eftir kosningar og að þá muni kjósendur borga milljarða umframkostnað og vera búnir að gleyma öllu eftir fjögur ár þegar bygging nýrra álvera og virkjana verður á fullri ferð.

Nú kemur það enn og aftur í ljós að 3-5 kílómetra misgengisbelti við Þrælaháls verður mönnum þungt í skauti fyrir austan. Í sjónvarpsfréttum í fyrra sýndi ég kvikmynd þar sem þetta misgengisbelti sést vel úr lofti og spurði yfirmann jarðfræðirannsókna hvort þeir hefðu ekki séð það líka og hvers vegna ekkert hefði verið borað í það til að rannsaka það.

Hann sagði svo vera en tíminn hefði verið naumur, aðgengi erfitt og óvíst um árangur. Þegar ég innti talsmann Landsvirkjunar eftir áliti hans á því að ekki voru boraðar rannsóknarholur í misgengissvæðið sagði hann þessi orð, sem lýsa þessari framkvæmd í hnotskurn: "...og það hefði engu breytt - við hefðum þurft að fara þarna í gegn hvort eð var."

Þessi orð hefði átt að letra í hornstein Kárahnjúkavirkjunar.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eigum við bara ekki að reisa kjarnorkuver í staðinn?  Þau eru reyndar umhverfisvæn, engin losun gróðurhúsalofttegunda, ekkert land fer undir vatn, það skapast mörg hátæknistörf við það og hægt er að reisa það hvars sem er, t.d. nálægt Höfuðborgarsvæðinu.

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 12:01

2 identicon

Alcoa mun fyrirsjáanlega tapa hundruðum milljóna vegna þess að Landsvirkjun nær ekki að afhenda nægilega orku á tilsettum tíma. En hafa stjórnvöld ekki þegar borgað hluta skaðabótanna með viljayfirlýsingu um álbræðslu á Húsavík 17. maí sl.?

"Alcoa, ríkisstjórnin og Húsavíkurbær hafa undirritað viljayfirlýsingu um áframhaldandi rannsóknir á fjárhagslegri hagkvæmni nýs álvers á Norðurlandi [...]"

Svo er hárrétt hjá þér, Ómar, að dæmið verður gert upp EFTIR kosningar og gleymt þegar kemur að þarnæstukosningum.

Sami leikur var leikinn með eftirlaunalögunum frá í desember 2003. Sérstaða þess máls er þó sú að ALLIR stjórnmálaflokkar á Alþingi áttu hlut að spillingunni og ALLIR leggjast þeir á eitt nú um að þegja málið í hel og skjóta sér undan ábyrgð. Í þeim efnum er engin munur á grænum og bláum.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 12:58

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fyrir nokkrum vikum sá ég þessi rök, að kostnaður vegna Kárahnjúka væri þegar kominn langt yfir áætlun. Þetta var hrakið af Landsvirkjun, allt er innan áætlaðra marka. Gert var ráð fyrir frávikum og arðsemisútreikningar miðaðir við þau.

 Einnig að Landsvirkjun þyrfti að borga háar sektir til Alcoa vegna seinkunnar á afhendingu orkunnar. Einnig hrakið, því þó Fljótsdalsvirkjun byrji ekki að afhenda rafmagn á réttum tíma þá mun landskerfið geta annað þeirri raforku sem þörf er á fyrstu 3-4 mán að mig minnir.

The Show Must Go On er það ekki? Ekki búið fyr en feita kerlingin syngur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.3.2007 kl. 13:28

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það hljóp ansi vel á snærið hjá ykkur þegar tókst að gera alla skjálfandi og skíthrædda (ekki Landsvirkjunarmenn reyndar) vegna sprungna undir stýflustæðinu. Hafið þið ekki eitthvað annað tromp í erminni?

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.3.2007 kl. 13:31

5 identicon

 Sæll Ómar, Skemmtilegar pælingar hjá þér.

Þú talar mikið um þessa frægu stóriðjustefnu þannig ég fór aðeins að hugsa um hana.Kryfjum aðeins þessa stóriðjustefnu. Ég viðurkenni vel að Kárahnjúkar voru rammpólítískir og þar fóru stjórnvöld fram að krafti áður og voru hugsanlega með puttana of mikið í spilinu. Ég vona bara allra vegna að þetta hafi ekki truflað arðsemisreikninga Landvirkjunar of mikið. (Þetta VAR sannarlega stóruiðjustefna)

Núna er hins vegar ENGIN stóriðjustefna í gangi. . Í raun og veru er bara EIN stóriðjustefna í gangi og það er hjá VG. Þeirra stefna er að Stoppa stóriðju. Það er auðvitað stefna sem slík.

Á hinum endanum er ekki LENGUR nein stóriðjustefna. Á mjög stuttum tíma hefur landslagið í álmálum gjörbreyst. Núna er staðan einfaldlega sú að álverð er hátt spár um álnotkun er samstíga upp á við, orkuverð fer hækkandi, umhverfiskrafa er meiri, Allt hefur þetta rokið upp eftir að Byrjað var á Kárahnjúkum. Nú LEITA álfyrirtæki hingað Þeirra er EKKI leitað. Nú kemur aðalatriðið og skoðum Húsavíkurdæmið. Staðan er svona:

Fyrirtæki hefur áhuga á að fjárfesta á Húsavík. Þeir leita eftir því að fyrra bragði, Þarna eru enginn stjórnvöld að troða inn álveri til að redda landsbyggðinni. Hver er þá stóriðjustefnan????

Jú hún er vinstri grænna "Að stoppa þetta stefnan". Þeir vilja kannski frekar stjórna heimamönnum og ákveða með alræði hvað eigi að gera þar. Stóriðjustefnan er vinstri grænna og hún gengur út á það að hindra eitt fyrirtæki í að fjárfesta á Húsavík.

Ég er miklu hrifnari af frjálsu viðskiptaumhverfi í þéttum ramma. Ef ramminn er góður þá verður ekki úr þessari framkvæmd EF A) hún stenst ekki umhverfismat, EF B) orkufyrirtækin og álverið ná ekki samningum þar sem báðir hagnast með nægjanlegri arðsemi. En að vera með einhverja ríkiskló sem segir bara stopp það er algert RUGL

Ég skil vel að almenningur sé ruglaðir í ríminu enda eru á teikniborðinu 3 álversverkefni á sama tíma og menn halda auðvitað að þar sé einhver álstefna í gangi. Sannleikurinn er sá að þrjú ólík fyrirtæki koma sjálfviljug með viðskiptahugmynd, hún er auðvitað rædd af orkufyrirtækjum sem hafa það að markmiði að virkja og selja orku. Það er svo afar hentugt að koma með barnalega umræðu taka þetta alltsaman í einn Ægilegan pakka og bjóðast til að vera riddarinn sem drepur þríhöfða risann í einu höggi.

Hér er bara ein stóriðjustefna í gangi og það er stefna vinstri grænna og hugsanlega þín.

Sko ég er alveg tilbúinn að fallast á að eitt eða öll þessi álverkefni falli niður. Ég vil bara það verði gert innan RAMMA og þeirra leikreglna sem settar eru. Ef VG og þið eruð ekki sátt við Rammann eða reglurnar þá eiga þeir að koma með tillögur um breytt lög um umhverfismat eða skipulagsmál eða auknar arðsemiskröfur á verkefni orkufyrirtækja í ríkiseigu. ÉG get bara ekki sætt mig við svona barnalega framsetningu um stóriðjustopp, menn leggjast hreinlega lágt með svona tali.

Lifið heil

SIF (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 14:21

6 identicon

Gunnar Theodór. Þú ferð með rangt mál.

 Lestu Blaðið í dag. Þar segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar: "Ef göngin tefjast lengur munum við tapa sölu á raforku og þeir [Alcoa] sölu á áli [...]"

Í sömu frétt er haft eftir upplýsingafulltrúa Alcoa, Ernu Indriðadóttur, að ekki verði "hjá því komist að velta fyrir sér því fjárhagslega tjóni sem kunni að verða bregðist forsendur samningsins. Hún vill ekki gefa upp hversu háar bætur eru tilgreindar í samkomulagi milli fyrirtækjanna."

Tilefni þessara orða Ernu og Þorsteins er í sömu frétt; að "gerð aðrennslisganga Kárahnjúkavirkjunar sé fimm mánuðum á eftir áætlun [...]".

Svipaða sögu er að segja um stíflustæðið; þar var mjög kastað til höndum við rannsóknir og farið fram af óafsakanlegu gáleysi. Magnús Tumi jarðeðlisfræðingur orðaði það svo að ef "vinnubrögð Landsvirkjunar eru ekki talin aðfinnsluverð þá er það hliðstætt því að segja að ofsaakstur sé í lagi svo fremi sem að ekki verði stórslys." Sjá í mbl.: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1106571

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 14:23

7 identicon

Sammála Gunnari hér að ofan. Hversu lengi á þessi málflutningur að halda áfram. Ef ICC menn segja þetta um Impregilo þá væru ICC bara að viðurkenna að Impregilo standa sig betur á útboðsmarkaði. En ætli ICC hafi ekki valda lögræðinga líka. Svona er bara útboðsmarkaður.

En það er eins og það hlakki í sumum (þó líklega ekki Ómari) ef þeir telja sig finna einhverja vankanta sem hægt er að benda á eða þeir telja að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Ég nefni sérstaklega suma þingmenn VG frá því síðastliðið sumar. Eru mótmælendur kannski enn á því að rétt hefði verið að fylla ekki í Hálslón og láta þetta standa án orkuframleiðslu "um heimsku mannsins" eins og formaður VG orðaði það.

Annars skil ég ekki suma umhverfismenn að þeir vilja amast við nýtingu hreinna orkulinda. Finnst fólki ekki Svartsengi, Nesjavellir, Sogið, Laxársvæði, Mývatn (Bjarnaflag) ekki hinir bestu staðir til útivistar og mannræktar. Þar fer saman orkuvinnsla og ferðamannaiðnaður (þ.m.t. stangveiði). Svo ég tala nú ekki um Elliðaárnar og vatnið eða Skorradalsvatn (uppistöðulón) eða Stífluvatn í Fljótum. Einstök paradís með vatni (uppistöðulóni frá því 1940).

Með kveðju, Gísli

Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 14:35

8 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Mér finnst þetta alltaf jafn takmörkuð sýn þegar menn tala um "nýtingu hreinna orkulinda" og skoða raforkuframleiðsluna sem einangrað fyrirbæri. Hversu hrein eru olíubrennandi eiturspúandi flutningaskipin þegar þau flytja hráefnið og málmana fram og til baka um heiminn, bara af því að hér er "ódýr" raforka? Að maður tali ekki um óafturkræf spjöll á landi. Neinei, setjum blöðkurnar fyrir augun og horfum bara á "nýtingu hreinna orkulinda".

Jón Þór Bjarnason, 16.3.2007 kl. 15:11

9 identicon

Það hefur aldrei verið til neitt sem heitir "stóriðjustefan" hér á landi - aldrei.  Þetta er hugtak sem andstæðingar nýtingu vatnsafls til iðnaðarstarfsemi bjó til.  Að reisa hér á landi álver og virkjanir eru einungis hluti af atvinnuuppbygginu hér á landi rétt eins og ferðamennska (sem reyndar er ekki sérlega umhverfisvæn), bankastarfsemi og fiskveiðar og vinnsla.

Eigum við bara ekki að flytja aftur í torfkofana og notast við kerti og olíulampa til að lýsa upp með?  Það er mjög umhverfisvænt að búa í slíkum hýbýlum við fábreytta lifnaðarhætti líkt og Amish-fólkið - þá þurfum við ekki fleiri virkjanir og háspennulínur.  Eigum við ekki líka að banna fólki að keyra um borgina á mini-álverum á fjórum hjólum í formi reðurtákna sem kallast víst ofur-jeppar?

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 16:06

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já Hjörtur, EF þetta tefst lengur þá þarf Landsvirkjun að borga dagsektir. Það var ljóst frá upphafi

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.3.2007 kl. 16:26

11 Smámynd: Björn Heiðdal

Til hamingju SIF.

Auðvitað eiga stjórnvöld ekki að skipta sér af hvort einstaklingar smíða 500.000 tonna álver.  Ekkert frekar en þau eiga að skipta sér af hvað fólk gerir heima hjá sér fyrir luktum dyrum.  

Stjórnvöld eiga að setja almennar reglur.  T.d. allir löghlýðnir ferðamenn velkomnir með skilríki.  En svo geta þau mótmælt komu þeirra ef viðkomandi hefur framleitt klám eða keypt vændi.

Álver eru mjög umhverfisvæn og margir Íslendingar vilja starfa í þeim.  Ekki geta allir Íslendingar mjólkað beljur, veitt fisk eða straujað skyrtur.  

Fólk á Íslandi á frekar skilið að starfa í Álverum en t.d. Brasilíubúar.  Við erum ekki að taka vel launuð störf frá atvinnulausu stólki í þriðja heiminum!  þessi störf væru nefnilega ekki vel launuð þar. 

Björn Heiðdal, 16.3.2007 kl. 19:13

12 identicon

Kreppa stjórnarflokkanna, varðhunda kvótakerfisins, í hnotskurn:


Um 70% landsmanna eru andvíg núverandi kvótakerfi og því er greinilega kominn tími til að taka upp nýtt og betra kerfi, sem meirihluti þjóðarinnar samþykkir. Ef hér er góð loðnuveiði er heildaraflinn um tvær milljónir tonna á ári og sæi íslenska ríkið í umboði þjóðarinnar um að úthluta veiðiheimildunum til einstakra byggðarlaga til eins árs í senn og tæki fyrir það tíu krónur að meðaltali fyrir kílóið í þorskígildum fengi þjóðin 20 milljarða króna í ríkiskassann. Hægt væri að útdeila þessari fjárhæð aftur til byggðarlaganna með margvíslegum hætti, til dæmis til samgöngubóta eða sem styrk vegna aflabrests. En að sjálfsögðu yrði verðið á aflaheimildunum mjög misjafnt eftir tegundum, til dæmis mun hærra verð fyrir kílóið af þorski en loðnu. Hægt væri að láta hvert byggðarlag fá ákveðnar veiðiheimildir árlega og veiðiheimildir yrðu að sjálfsögðu mismunandi frá ári til árs í samræmi við ástand fiskistofnanna. Veiðiheimildirnar yrðu einungis til eins árs í senn og ekki kvótaeign í nokkrum skilningi. Ríkið úthlutaði eingöngu réttinum til veiðanna og ákvæði hverju sinni hverjir fengju réttinn, til dæmis útgerðir, fiskvinnslufyrirtæki og fiskútflyjendur. Fiskvinnslufyrirtæki og fiskútflytjendur gætu greitt útgerðum fyrir að veiða fyrir sig upp í veiðiheimildir sem keyptar hefðu verið. Og þeir sem hefðu áhuga á að hefja veiðar í fyrsta sinn ættu kost á því, þannig að nýir aðilar væru ekki útilokaðir frá veiðunum, eins og nú er mikið kvartað yfir.


Tíu krónur fyrir kílóið í þorskígildum gæti að sjálfsögðu verið lægri eða hærri upphæð eftir atvikum. Sagt er að nú greiði lítil byggðarlög, til dæmis á Vestfjörðum, allt að einum milljarði króna á ári fyrir veiðiheimildir og þessar fjárhæðir muni fyrr en varir leggja allar minni sjávarbyggðir í auðn. Og þrátt fyrir að útgerðarmenn kaupi og selji aflakvóta fyrir gríðarlegar fjárhæðir á ári, jafnvel einn milljarð í litlu sjávarplássi, segjast þeir ekki hafa efni á að greiða hóflegt gjald fyrir veiðiheimildirnar ef núverandi kerfi yrði lagt af. Það er nú ekki mjög trúverðugt. Margir hafa velt fyrir sér hvernig hægt sé að leigja þorskkvóta fyrir 155 krónur kílóið til eins árs og haft eitthvað upp úr því. Og sumir halda því fram að greiða þurfi allt að 75% af aflaverðmætinu í leigu fyrir kvótann. Verð fyrir kílóið af "varanlegum" veiðiheimildum í þorski í aflamarkskerfinu var komið uppfyrir 2.200 krónur í nóvember síðastliðnum en krókahlutdeildin kostaði þá um 1.900 krónur. Og sagt er að nú sé þorskverðið á "varanlegum heimildum" sem útgerðarmenn kalla svo, komið yfir 2.500 krónur fyrir kílóið. Það er engum blöðum um það að fletta að útgerðarmenn telja sig eiga aflakvótana á allan hátt, bæði í orði og á borði, og munu með kjafti og klóm berjast fyrir því að "eiga" þá áfram.


Hugtökin "þjóðareign", "ríkiseign" eða "sameign þjóðarinnar" í stjórnarskrá hefur ekkert að segja í þessu sambandi, ef útgerðarmennirnir eiga í raun aflakvótana, fara með þá sem sína eign, veðsetja þá, þess vegna hjá "íslenskum" bönkum sem eru og verða í raun erlendir, að hluta til eða jafnvel öllu leyti. Eigandi kvótans getur þess vegna verið íslenskur ríkisborgari sem býr á Bahamaeyjum, kemur hingað aldrei og hefur engan áhuga á afkomu íslenskra sjávarplássa. Hann hefur eingöngu áhuga á arðinum, fiskvinnslan og fólkið sem býr í sjávarplássunum er réttlaust hvað varðar sína afkomu. En þessu má engan veginn breyta, þá fer allt landið á hliðina, segja útgerðarmenn og sporgöngumenn hennar á þingi. Þjóðin á að vera eignalaus, getur aldrei eignast neitt og útgerðarmenn eiga að sjá um að eiga hlutina fyrir hana, frekar en ríkið. Það er kommúnismi og getur aldrei gengið upp í lýðræðisríki. Kommúnismi hins eldrauða Mogga. Og margir þeirra sem eru algjörlega andvígir inngöngu Íslands í Evrópubandalagið verja þetta kvótakerfi okkar út í ystu æsar, enda þótt eigendur kvótans gætu fyrr eða síðar allir verið íslenskir ríkisborgarar búsettir í Evrópu, þess vegna kvæntir erlendum konum sem fengju þá helming hagnaðarins af veiðum "íslenskra" skipa. 


Aflakvótar eru nú fluttir og seldir á milli landshluta í stórum stíl og einn útgerðarmaður getur lagt heilt byggðarlag í rúst með því að landa aflanum annars staðar eða selja kvóta "sinn" til annarra landssvæða. Vilja menn hafa þetta kerfi áfram? Meirihluti þjóðarinnar segir nei takk og 70% hennar hlýtur að vera fólk í öllum flokkum. Hagsmuna útgerðarmanna var hins vegar gætt á Alþingi að þessu sinni, þó þeir geti þess vegna búið á eyju í Karabíska hafinu. Þjóðin vill hins vegar að nýtt frumvarp um breytingu á stjórnarskránni verði lagt fram á næsta þingi, frumvarp sem gæti fyrst og fremst hagsmuna þjóðarinnar og einstakra byggðarlaga. Veiðiskip eru nú verðlítil eða verðlaus hér án aflakvóta. En þegar þau yrðu ekki lengur með "varanlegan" veiðikvóta fengju þau eðlilegt og raunverulegt verðmæti og úthlutaðan kvóta í sínu byggðarlagi, og myndu landa afla sínum þar. Byggðastofnun sagði í október 2000 að veikleikar sjávarbyggða á Vestfjörðum væru meðal annars versnandi kvótastaða, afli fluttur óunninn í burtu, erfiðar vegasamgöngur og lágt fasteignaverð.


Þannig ganga kaupin fyrir sig á eyrinni, samkvæmt Þórólfi Matthíassyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, og Ólafi Klemenssyni, fiskihagfræðingi hjá Seðlabanka Íslands:

Markaðsvirði Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum var 6,3 milljarðar króna árið 2002, eigið fé  tveir milljarðar, kvótastaðan var 15 þúsund tonn og bókfært verðmæti kvótans 1,7 milljarðar króna. Verð á kvóta á hlutabréfamarkaðnum var 403 krónur fyrir kílóið en þorskígildistonnið var þá selt á 1.070 krónur.

Lögmálið um eitt verð sem sagt ekki í gildi. Hlutabréfamarkaðurinn verðleggur kvótaeign sjávarútvegsfyrirtækja en mikill munur er á verði á kvótamarkaði og óbeint á hlutabréfamarkaði. Mögulegar ástæður ólíkrar verðmælingar geta annars vegar verið mæliskekkja, þannig að þorskígildi séu "ranglega" skilgreind, uppsjávartegundirnar fái of hátt vægi, fleira sé ómetið en upprunalegur kvóti (gjafakvóti), eða stjórnendaauður, viðskiptavild, og hins vegar ólíkar væntingar, þannig að kaupendur og seljendur á kvótamarkaði séu ekki þeir sömu og kaupendur og seljendur á hlutabréfamarkaði.

Verð á hlutabréfamarkaði ræðst af verði á lönduðum afla, sóknarkostnaði, líkindum á tækniframförum og hversu miklar þær gætu orðið hvað sóknina snertir, heimiliðum heildarafla, ávöxtunarkröfu og veiðigjaldshlutfalli.


Magnús Thoroddsen hæstarréttarlögmaður segir meðal annars í tillögu sinni um nýtt ákvæði í stjórnarskránni um þjóðareign á auðlindum:

"Tilgangurinn með því að stjórnarskrárbinda nýtt ákvæði þess efnis, að "náttúruauðlindir Íslands skuli vera þjóðareign" hlýtur að vera sá, og sá einn, að þjóðin öll skuli njóta arðsins af þeim. Því þarf að búa svo um hnútana í eitt skipti fyrir öll, að þessar auðlindir verði aldrei afhentar einhverjum sérréttindahópum á silfurfati. Ég leyfi mér því að leggja til, að þetta stjórnarskrárákvæði verði svohljóðandi:

"Náttúruauðlindir Íslands, hvort heldur er í lofti, legi eða á láði, skulu vera þjóðareign. Þær ber að nýta til hagsbóta þjóðinni, eftir því, sem nánar er ákveðið í lögum. Heimilt er að veita einkaaðiljum, afnota- eða hagnýtingarrétt á þessum auðlindum til ákveðins tíma gegn gjaldi, hvort tveggja ákveðið í lögum. Slík afnotaréttindi geta aldrei skapað eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðilja yfir náttúruauðlindinni."

Steini Briem (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 20:07

13 identicon

Jón Þór (8) talar um takmarkaða sýn þegar minnst er á hreina orkugjafa. Og minnist í því sambandi á olíubrennslu þegar skipin fullhlaðin súráli sigla til landsins. Já, takmörkuð sýn. En hvað með Íslendinga sem fljúga utan í frí eða vegna vinnu, á þá ekki olíubrennsla sér stað, eða bara vegna inn- og útflutnings vöru í öðrum atvinnurekstri. Reyndar spúa flugvélar miklu meiri af gróðurhúsalofttegundum en önnur farartæki. Ég sé ekki að það aftri mörgum "umhverfissinnanum" að skella sér í sólina til Kanarí. Í Evrópu eru raunverulegir umhverfissinnar farnir að tala um mengunarskatt vegna aukinna flugferða, sjá umræðu í Bretlandi og Þýskalandi. Ertu með réttar uppl. um verð raforkunnar eða er þetta bara uppsláttur? T.d. hefur verið bent á það á þessum síðum að verðið er meðaltalsverð í OECD.

Síðan er þetta með óafturkræft spjöll á landi. Er það eitthvað meira vegna virkjana eða atvinnureksturs eða bara vegna veglagningar, íbúða- og sumarhúsabyggðar. Í sjálfu sér ekki. Ef menn eru virkilega að tala "að gera ekkert" við land og auðlindir þá er það stefna í sjálfu sér. Það má alveg virða þá skoðun. En þá erum við bara tala að láta allt í friði vegna starfsemi í hvaða nafni sem hún er.

Reyndar er það mín skoðun að umhverfisáhrif vegna virkjana hefur verið stórlega ýkt af ýmsum. Oft eru þetta lón (vötn) sem falla ágætlega í landið. En það er enginn að tala um sökkva landinu eins og stundum sagt. Langt frá því. Það sem mér finnst hinsvegar neikvætt eru raflínurnar enda sjást þær um langan veg. Það mál má hinsvegar bæta, m.þ.a. taka bút og bút og leggja í jörðu við vegina. Kannski meiri umræða mætti vera um raflínurnar.

kveðja, Gísli

Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 14:51

14 identicon

Við skulum forðast að drepa málum á dreif. Olíubrennsla vegna flutninga á súráli er mikilvægur þáttur ef meta á hnattræn umhverfisáhrif álvera á Íslandi en flugferðir til Kanarí koma málinu ekkert við. Þeir sem telja sjálfsagt að Íslendingar fórni sinni náttúru svo álfyrirtæki geti sparað sér orkuútgjöld og mengunarkvóta verða að horfa á alla þætti málsins. Hvað varðar spjöll á umhverfi þá erum við ekki í sömu klemmu og íbúar þriðja heimsins sem neyðast til þess að samþykkja afarkosti risafyrirtækja. Við getum komið í veg fyrir gífurleg óafturkræf spjöll af völdum uppistöðulóna og álversframkvæmda án þess að afkomu okkar sé á nokkurn hátt ógnað. Spurningin er aðeins þessi. Höfum við til þess kjark eða erum við...?

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 02:39

15 identicon

Guðmudur talar um að forðast að drepa málum á dreif þar sem ég nefndi flugferðir. Ég tel einmitt að umhverfisverndarsinnar á Íslandi hafi drepið umhverfismálum á dreif þar sem þeir ræða bara virkjanir og álver (eða tala ranglega um álbræðslu sem er annar hlutur). Þeir ræða einfaldlega ekki önnur umhverfismál ! Svo einfalt er það. Hvorki Framtíðarlandið eða VG. Flugferðir eins og aðrar samgöngur skipta miklu máli í umhverfislegu tilliti hvort sem sumum líkar betur eða verr. Um það vitnar umræða í öðrum löndum, nema á Íslandi. Nú ætla ég ekki að reyna að hafa vit fyrir fólki um hve mikið og hve langt það vill ferðast, en bendi á að það skiptir máli vegna umhverfis eins og málum er háttað í dag. En það var auðvitað mikilvægt farartæki voru gerð léttari m.þ.a. skipta yfir í ál frá stáli, en þess að missa nauðsynlegan styrk. Þetta þekkja allir sem hanna slík tæki, þó umhverfissinnar á Íslandi vilja meina annað.

Gífurleg óafturkræf spjöll vegna uppistöðulóna? Hvað finnst þér um Þingvallavatn sem er einskonar náttúrulegt uppistöðulón. Vatnsborð þess var reyndar hækkað með Steingrímsstöð. Hvað með Elliðavatn? Eða Blöndulón sem var þess reyndar valdandi að fiskgengd jókst til muna í Blöndu, stangveiðimönnum til mikillar ánægju.

Það er þessi uppsláttur "gífurleg óafturkræf spjöll" sem gjaldfellir ykkar málflutning. Í sjálfu sér að ekkert stórmál að afturkræfa land og umhverfi vegna virkjana vilji menn það síðar. T.d. hefur það að einhverju leyti verið gert í Kaliforníu. En, þó þannig að þeir að hafa þurft að kaupa orkuna annars staðar frá (framleitt annars) þar sem orkunotkun almennt eykst í heiminum. Í því sambandi varð til hugtakið "Not in my backyard", þ.e. það vilja allir orkuna en ekki framleiða hana.

Og ég segi enn og aftur, áhrif vegna virkjana eru ekkert meiri (oft minni) en vegna annarra mannvirkja. Ef menn eru að tala um það að láta landið alveg í friði, þá er það skoðun sem hægt er að virða. T.d. eru margir staðir á landinu sem ég vil að verði algerlega látnir í friði, líka vegna of miklum ágangi ferðamanna, þ.e. að stýra fjölda ferðamanna.

Spurningin er þessi: Hvað vilja menn gera annað ef ekki á að nýta sumar okkar náttúruauðlindir? Nú verður að tala skýrt um þá kosti. T.d. hljótið þið að hafa lausnirnar fyrir Vestfirðinga en þar eru einmitt engar líkur á stóriðju. Það er eiginlega merkilegt að Framtíðarlandið komi ekki með raunhæfar tillögur til handa Vestfirðingum, m.v. það hvernig þeir sjá fyrir sér að hægt er að gera "eitthvað annað". 

Ég tel að best sé að hafa atvinnulíf fjölbreytt. Iðnfyrirtæki, fjármála-, ferðamála-, sjávarútveg o.fl. Í sátt og samlyndi við aðra atvinnustarfsemi og umhverfi.

kveðja, Gísli

Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 15:58

16 identicon

Allt síðasta ár hafa staðið harðar deilur um álver og virkjanir á Íslandi og hafa þær fram að þessu mótað baráttuna fyrir komandi kosningar. Ég fyrir mitt leyti er að reyna að taka þátt í þeirri orðræðu.

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 17:03

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Umhverfis og mengunarumræða á Íslandi er á voðalegum villigötum V-Grænir hafa stjórnað þeirri umræðu allt of lengi enda er aðalatriðið í þeirra huga að verið er að selja raforkuna til erlendra auðhringa og að verið sé að "nota" okkur. Eins og allir vita þá eru auðhringar byrtingarmynd djöfulsins sjálfs í þeirra huga

 Mynd Al Gore í USA hef ég ekki séð en sá smá bút úr henni um daginn. Í þeim bút var fjallað um hvað almenningur sjálfur getur gert til að draga úr losun mengandi efna. Um það á baráttan að snúast en ekki gegn þeim sem framleiða það sem almenningur krefst. Eiga þeir sem berjast gegn áfengisbölinu að mótmæla hjá vínbændum í Frakklandi?

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2007 kl. 23:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband