31.10.2014 | 17:59
Viðeigandi staður við hafið.
Það er afar vel til fundið að flytja styttuna af Einari Benediktssyn frá Klambratúni niður að strönd Kollafjarðar.
Hafið var skáldinu afar hugleikið alla tíð, bæði í ljóðum hans og einnig í tilveru hans síðustu árin, þegar það sat í Herdísarvík og horfði á hafið ólmast við stórskorna ströndina framundan.
Þegar íslensku sálmabókinni er flett sést fljótlega af hverju þeir Einar Ben og Matthías Jochumsson voru kallaðir stórskáld. Sálmar þeirra rísa upp fyrir flesta aðra sálma í bókinni.
Þótt Einar ætti aðeins einn sálm í bókinni sannst samt að magnið skiptir ekki málið heldur gæðin og það er engin tilviljun að sálmurinn með upphafsorðunum "Hvað bindur vorn hug við heimsins glaum.." er jafnmikið sunginn nú við jarðarfarir og fyrir 70 árum.
Þar kemur hafið við sögu í frábærum ljóðlínum í 2. erindi sálmsins:
"Til moldar oss vígði hið mikla vald,
hvert mannslíf sem jörðin elur.
Sem hafsjór er rís með fald við fald
og falla, en Guð þau telur,
því heiðloftið sjálft er huliðstjald
sem hæðanna dýrð oss felur."
Styttan af Einari Ben flutt að Höfða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nær Kollafjörður að Höfða?
Erlingur Alfreð Jónsson, 31.10.2014 kl. 21:34
"Víkin eða Reykja(r)vík er heiti á vík í suðurhluta Kollafjarðar í Faxaflóa. Hún nær frá Laugarnesi í austri að Örfirisey í vestri."
Þorsteinn Briem, 31.10.2014 kl. 22:40
Við Reykvíkingar erum halndir sérkennilegr nesjamennsku. Gleymum því alveg að borgin stendur á nesi á milli tveggja fjarða, Skerjafjarðar og Kollafjarðar.
Gleymum því líka alveg að Seltjarnarnes nær frá Gróttu inn í botn Fossvogs að sunnan og botn Elliðavogs að norðan.
Ómar Ragnarsson, 31.10.2014 kl. 23:16
Að sjálfsögðu búa ekki allir Reykvíkingar við vík frekar en Seltirningar við tjörn og ekki held ég að Grímseyingar telji sig vera Akureyringa, enda þótt þeir búi nú í sveitarfélaginu Akureyrarbæ.
Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1786 og ekki hefur verið talin ástæða til að breyta nafninu, enda þótt bærinn stækkaði mikið.
"Seltjarnarneshreppur hinn forni náði frá Gróttu, sem þá var breitt nes en ekki eyja, að Elliðaám og austur með þeim til fjalla.
Hreppurinn náði þvert yfir nesið, frá Kollafirði suður í Skerjafjörð.
Jörðin Kópavogur var í Seltjarnarneshreppi og það var Reykjavík vitaskuld einnig."
Þorsteinn Briem, 1.11.2014 kl. 07:12
Þetta var náttúrulega hártogun hjá mér. Einungis spurning hversu nákvæmlega maður vill vera í staðsetningum. :-) Höfði stendur t.d. við Kirkjusand sem nær frá Rauðarárvík til Laugarness, (eða jafnvel bara við Reykjavík) sem eru við Kollafjörð, sem gengur inn úr Faxaflóa. Hvar er endirinn á þessu og byrjunin á hinu?
Erlingur Alfreð Jónsson, 1.11.2014 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.