9.11.2014 | 10:09
Hvað gerist þegar gosið í Holuhrauni deyr út?
Gígurinn í Holuhrauni hækkar smátt og smátt og þrengist jafnframt. Þetta hefur sést í ferðum yfir gíginn síðustu vikurnar.
Öll eldgos hætta um síðir, misjafnlega snemma þó, og haldi þessi þróun áfram getur hún endað á því að þetta útstreymisop kvikunnar lokist og gosið hætti þar, og þá vaknar spurningin hvað gerist þegar ekki er lengur tappað af á þessum stað.
Byrjar að gjósa á sömu slóðum, samanber "Litla-Hraun", sem kom upp um skamma hríð suður af núverandi gosstað, eða gerist eitthvað undir Dyngjujökli eða í eða við Bárðarbungu sjálfa?
Af skrifum Haraldar Sigurðssonar má ráða, að því lengur sem gosið í Holuhrauni treinist, því meira muni komast þar upp á yfirborðið og þess minni verði þrýstingur á gos annars staðar.
Þess vegna sé hægt að spá goslokum í mars næstkomandi, ef menn reyna að spá fyrir um þau á annað borð.
Ármann Höskuldsson hefur kallað á frekari rannsóknir á því hvort og þá hve mikil bein tengsl séu á milli sigsins í Bárðarbungu og kvikunnar þar undir og gosstöðvanna í Holuhrauni.
Erfitt er að sjá hvernig hægt er að rannasaka það betur en þegar hefur verið gert, en það er vísindamanna að dæma um slíkt.
Jarðskjálfti af stærð 5,4 við Bárðarbungu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eftir því sem gosið í Holuhrauni dregst á langinn, finnst mér ómenntuðum alþýðumanni alltaf aukast líkurnar á því að þarna muni myndast hraundyngja svipaðrar gerðar og t.d. Trölladyngja þarna í nágrenninu og fjöldi annarra sambærilegra fyrr og síðar í jarðsögu Íslands. Það hafa væntanlega verið afskaplega langdregin gos og áhrif þeirra samkvæmt því.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 9.11.2014 kl. 12:18
Gosið er komið úr einum heitasta möttli jarðar- hann er þarna beint undir. Hversu mikil opnun frá honum er - gæti gert þetta gos ólíkt öðrum sen við þekkjum. Suður á Hawaiieyjum er svipaður möttull sem hefur náð svona virkni úr neðra. Þar hefur gosið látlaus í áratugi og gýs ennþá. Verst af öllu er gasið sem er ættað úr iðrum jarðar - baneitrað . Hraunið er bara landaukning. Við eigum einn virtasta eldfjallafræðing heim -hann Harald Sigurðsson... Hann hefur spá' goslokum í Holuhrauni í mars 2015 - en hvað tekur þá við-róast í neðra ?
Sævar Helgason, 9.11.2014 kl. 12:22
Sævar, hvað kallar þú þann hluta jarðar milli skorpu og kjarna sem ekki er undir Íslandi og Havaí?
Brynjólfur Þorvarðsson, 9.11.2014 kl. 12:38
Brynjólfur !
Skil ekki alveg spurninguna - og /eða hef ekki þekkingu til að svara.
Sævar Helgason, 9.11.2014 kl. 16:50
Sævar, það sem Brynjólfur er held ég að meina að það sem þú kallar möttul, giska ég á að þú meinir í raun það sem í jarðfræði er venjan að kalla heitan reit (e. hot spot) sem eru á fáeinum stöðum á jörðinni, einn sá þekktasti er Hawaii í Kyrrahafi, sem er að því leyti frábrugðinn þeim íslenska að hann er ekki á flekamótum, heldur inni á Kyrrahafsflekanum og má sjá á hafsbotninum í djúphafsmælingum að rekja má feril hans til NV í átt til Kamtsjatka minnir mig. Venjan er hinsvegar að kalla möttul þann hluta jarðarinnar, sem mælingar sýna að sé milli skorpunnar og kjarna hennar. Geri ráð fyrir að þetta hafi verið pennaglöp hja þér.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 9.11.2014 kl. 18:58
Sævar klárar ekki viðeigandi heiti sem er möttulstrókur. Sá sem kemur upp undir vestanverðum Vatnajökli er annar tveggja stærstu möttulstróka í heimi.
Ómar Ragnarsson, 9.11.2014 kl. 20:29
Takk. Það vantaði hjá mér strókinn úr möttlinum og auðvitað er það hann sem vandræðunum veldur
Sævar Helgason, 9.11.2014 kl. 22:37
Líka risastór eldmöndull undir galaposeyjum
droplaugur (IP-tala skráð) 11.11.2014 kl. 01:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.