10.11.2014 | 10:18
Ólíkt hafast menn að.
Mér er enn í minni þegar ég sem barn var að átta mig á eðli þjóðfélagsins. Ég var oft hjá ömmu minni og afa, sem bjuggu í lítilli tveggja herbergja íbúð í Verkamannabústöðunum við Ásvallagötu.
Aðeins þurfti að ganga smáspöl suður Hofsvallagötu til að vera kominn inn i braggahverfi Kamp Knox, þar sem þeir sem minnst máttu sín í þjóðfélaginu bjuggu í húsnæði, sem ná á tímum myndu vera kölluð óíbúðarhæf hreysi.
Í útvarpi söng Elsa Sigfúss ljóð Davíðs Stefánssonar um hlutskipti sumra í braggahverfunum, um verkamannsins kofa, þar sem bæri að lofa "dagsins þreytta barni að sofa", þar sem byggju hetjur bak við lágar dyr, þar sem "hin sjúka móðir brosti í gegnum tárin" og "börnin fá mat, en foreldrarnir svelta".
Við Ásvallagötu bjó Þórarinn hafnarverkamaður í litlu koti, sem hét Melur, og hafði örfáar kindur þar á smábletti.
Ofar við Hofsvallagötu voru einhver dýrustu og flottustu íbúðarhús landsins, hús manna, sem börðust fyrir félagshyggju, samvinnu og samhjálp.
Þetta voru þeir Jónas frá Hriflu og Vilhjálmur Þór. Einkum var hús hins síðarnefnda glæsilegt, svo flott að margir kölluðu það lúxusvillu á þeirri tíð.
Vestar við Ásvallagötu bjó Eysteinn Jónsson, einn af forystumönnum og síðar formaður flokks þessara manna, og barst lítt á í snotru og íburðarlitlu húsi, sem var smáhýsi miðað við hús hinna tveggja.
Eysteinn virtist hugsa líkt og Warren Buffet um gildi þess, sem ekki verður metið til fjár, og lifði persónulega í samræmi við hugsjónir sínar um hófsemi.
Kynni mín við þann mann á ferðalögum um landið voru einstaklega ánægjuleg að öllu leyti.
Einn ríkasti maðurinn hefur búið í sama húsinu síðan 1958 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er hrópandi skortur á fólki með hugsjón í pólitík í dag. Margur er þar fyrir sig og eða í grímulausri hagsmunagæslu.
Menn eins og Eysteinn höfðu hugsjónir og er söknuður af þannig pólitíkusum.
Breyttir tímar.
Davíð Heiðar Hansson (IP-tala skráð) 10.11.2014 kl. 13:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.