Andleg atorka og frumkvæði skapa verðmæti.

"Hraust sál í heilbrigðum líkama!" er gamalkunnugt kjörorð. Algengt er hins vegar hjá þeim, sem lítið þekkja til, að tala niður til íþrótta á þeim forsendum sem þeir gefa sér, að árangur í þeim sé aðeins að þakka hráum meðfæddum líkamlegum hæfileikum og að andlegt atgerfi sé þar víðs fjarri. 

"Hann er með vitið í vöðvunum" var einhvern tíma sagt. 

Þegar keppni í rallakstri var að slíta barnsskónum hér á landi heyrði maður glósur eins og: "Það er nú ekki mikill vandi að sitja kyrr á rassinum og dútla við að stýra bíl. Það getur hver sem er stundað slíka kyrrsetuíþrótt. 

Það kom mér hins vegar á óvart þegar keppt var í þessari grein hve mikið líkamlegt álag fylgdi henni.

Maður var kófsveittur eftir hverja sérleið og varð að vara sig á vökvatapi þegar leið á keppnisdagana.

Á þeim tíma voru ekki vökvastýri í keppnisbílum og í lengri röllunum varð að hafa hanska á höndum, því að annars slitu átökin við stýrið upp skinnið í lófunum, svo að blæddi úr.

Gagnrýnendur litu hins vegar á hanskana sem tepruskap og dæmi um "vettlingatök".  

Þegar ég sá í fyrsta sinn mynd tekna beint framan á bílinn undraðist ég hve sviptingarnar við að stýra voru samfelldar og miklar. Í hita leiksins tók maður ekkert eftir því.

Það þarf að sönnu líkamlega burði til að vera góður handboltamaður, en ekkert lið og enginn keppnismaður kemst áfram á því einu.

Íslensku handboltaþjálfararnir, sem hafa vakið athygli fyrir gott gengi erlendis, voru sjálfir landsliðsmenn á sínum tíma og líkamlega öflugir.

En það skipti engu ef leikskipulag, útsjónarsemi, aðlögunarhæfni og tæknileg atriði voru ekki öll í hæsta gæðaflokki.

Og starf þjálfaranna byggist eingöngu á mikilli andlegri vinnu og skýrri og klárri hugsun.

Velgengi þeirra er því gott dæmi um það hvað frumkvæði, andleg atorka og vísindaleg hugsun geta skilað mönnum og heilum þjóðum langt þegar lögð er áhersla á þessi atriði.

Einn besti listflugmaður heims, Sean Tucker, lítur út eins og vaxtarræktarmaður. Hann eyðir drjúgum tíma í líkamsræktarstöð á hverjum degi til þess að halda sér í hámarks líkamlegu formi til að framkvæma ótrúlega vandasöm, nákvæm og snilldarleg listflugsatriði.

Hann er eitt af fjölmörgum dæmum um gildi þess að það fari saman að heilbrigð sál sé í hraustum líkama.  


mbl.is Af hverju eru þeir eftirsóttir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband