23.11.2014 | 20:51
Tveir möguleikar og hvorugur góður?
Sú nýja staða, sem mælingar sýna að er í Bárðarbungu vekur upp margar spurningar sem vísindamenn hljóta að þurfa að svara.
Sagt hefur verið að hið mikla magn af gasi, sem kemur upp í gosinu í Holuhrauni, sé vegna þess að uppruni kvikunnar sé svo djúpt í jörðu.
Einnig hefur verið sagt að kvikan komi suðvestan úr kvikuhólfi undir Bárðarbungu.
Nú sýna alveg nýjar mælingar að aðeins séu einn til þrír kílómetrar niður á kvikuna og því meiri líkur en áður hefur verið talið á því að gos hefjist þar.
Fróðlegt verður að fá nýtt mat á ástandið eins og Ármann Höskuldson hefur raunar kallað eftir.
Þar sem enn skelfur undir bungunni og því hefur verið varpað upp að gos geti varað lengi, vaknar spurningin um það hvor möguleikinn sé skárri, áframhaldandi gos í Holuhrauni eða nýtt gos í Bárðarbungu.
Langvinnt gos í Holuhrauni hefur valdið vísindamönnum áhyggjum vegna afleiðinga langvarandi dreifingar á gasi. Birt er ný mynd af gosinu þar á facebook síðu minni.
Gos í Bárðarbungu er líklegt til að verða öskugos ef kvikan kemst upp í gegnum 800 metra þykkan ísinn, og spurning, hvort þaðan komi verri gosefni en í Holuhrauni.
Ef kvikuhólfið undir Bárðarbungu er á eins til þriggja kílómetra dýpi en gasútstreymið í Holuhrauni er samt talið merki um kviku af miklu meira dýpi, er það þá vegna þess að kvikuhólfið sé mun stærra en áður hefur verið talað um, og nái allt frá sjö kílómetra dýpi langleiðina upp undir yfirborðið?
Og þar með geti stórgos þarna orðið enn stærra og skæðara en hið rólega gos í Holuhrauni, sem spýr út meira en tíu sinnum minna af hrauni á hverri viku heldur en Lakagígar gerðu 1783?
Skjálfti að stærð 5,1 í Bárðarbungu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk fyrir þetta, Ómar. Datt í hug í sambandi við mynd, sem þú birtir á Facebook, hvort hraun hefði lítt eða ekki runnið til vesturs frá gígnum sem stundum er kallaður Baugur? Er það landslagið/landhalli, sem veldur því?
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 23.11.2014 kl. 21:06
Ómar hvað þýðir loka málsgreinin hjá þér?
Og þar með geti stórgos þarna orðið enn stærra og skæðara en hið rólega gos í Holuhrauni, sem spýr út meira en tíu sinnum minna af hrauni á hverri viku heldur en Lakagígar gerðu 1783?
"Tíu sinnum minna"? Er það einn tíundi?
Birgir Þór Bragason, 23.11.2014 kl. 22:05
Já. Hraunið sem kom upp í Skaftáreldunum á þremur mánuðum var 16 rúmkílómetrar, en Holuhraun er víst komið yfir einn rúmkílómetra. Ég læt Holuhraun njóta vafa um einhverja skekkju og segi 1 á móti 10, Skaftáreldum í vil.
Ómar Ragnarsson, 23.11.2014 kl. 22:24
Nýja hrauninð er á einni stærstu flötu sandsléttunni á þessum slóðum. Í fyrstu rann hraun bæði í vestur, norður og austur, en fljótlega eftir að upp hlóðst einn ílangur gígur, myndaðist rauf í norðausturhorni hans þar sem hraunáin streymir út um einu útgönguleiðina frá gígnum.
Vegalengdin til til enda hraunsins í austnorðaustri á myndinni er svo löng að nýtt hraun orkar ekki lengur að fara alla leið þangað, heldur leitar út til hliðanna eins og sést á rauðu glóðinni sitt hvorum megin við megin hraunstrauminn.
Ómar Ragnarsson, 23.11.2014 kl. 22:28
Ætlar þú bara að taka þessa einu milljón frá löður.... eða ert þú eins og flestir Íslendingar, kröfuharður á aðra en þegar kemur að þér.... þá má alveg hugsa sig tvisvar um.
Skömm að þér Ómar
Sigthor Jonss7on (IP-tala skráð) 23.11.2014 kl. 22:38
Mun copera þessa færslu út um allt, Þangað til þú sýnir þitt sanna eðli...
Viðbjóðslegt.
Sigthor Jonss7on (IP-tala skráð) 23.11.2014 kl. 22:41
Ég sé ekki málefnalegt samband á milli umbrota í Holuhrauni og Bárðarbungu og kvikmyndasamkeppni Löðurs. En fyrst spurt er um hana voru þátttaka mín í myndasamkeppninni og gerð myndarinnar hluti af kvikmyndagerð minni almennt, og hluti af milljóninni fer í kostnað við gerð hennar og skattgreiðslu af hagnaði, en afgangurinn í að reyna að þoka áfram gerð þeirra mynda um íslenska náttúru sem ég hef byrjað á að taka og vinna og hef helgað mína krafta.
Ómar Ragnarsson, 24.11.2014 kl. 01:08
Aðeins að róa sig Sigþór Jónsson.
Óskiljanlegur heift er þetta í garð Ómari.
Þessi ummæli sem þú tileinkar Ómari ætti frekar eiga við þig.
Pálmi Freyr Óskarsson, 24.11.2014 kl. 02:24
.....í garð Ómars átti þetta að vera
Pálmi Freyr Óskarsson, 24.11.2014 kl. 02:26
Takk fyrir svarið við minni spurningu. Undirliggjandi spurningu minni verður vafalaust ekkert hægt að svara strax, enda vafalaust ekki á nokkurs manns færi. Hún snýr að því hvort þetta sé í raun upphaf að myndun hraundyngju þarna. Það má skilja á því sem jarðfræðingar hafa skrifað um hraundyngjur og myndun þeirra, að þær hafi myndast á löngum tíma og ef til vill ekki einu sinni í einu, samfelldu gosi. Svokallað "dyngjubasalt" er manni sagt að sjáist mjög víða í hinum tertíeru berglögum og því sýnt að þau hafa bæði verið stór hluti af uppbyggingu landsins, ef svo mætti orða, og tiltölulega algeng í jarðsögulegu tilliti. Aftur takk fyrir fróðleik og myndir.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 24.11.2014 kl. 08:52
Þetta rímar vel við það sem Haraldur Sigurðsson sagði á vulkan.blog.is 26.8.2014
"Kvikuþrær undir íslenskum eldfjöllum sem hafa öskjur eru fremur grunnt undir yfirborði. Þanni er talið að kvikuþró sé á 2 til 3 km dýpi undir Kröflu, 2 km undir Kötlu og um 3 km undir Öskju. Kvikuþró á allt að 6 km dýpi undir öskju Bárðarbungu væri því mjög ólíkt því sem við höfum vanist."
Býst við að þó að þetta breyti einhverju, þá verði áfram líklegast að holuhraunsgosið hætti einn góðan verðurdag og síðan ekki söguna meir.
í bili a.m.k. ...
ls (IP-tala skráð) 24.11.2014 kl. 14:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.