25.11.2014 | 22:06
Hvað um íslensku ævintýrin?
Grænlendingar eru "komnir aftur niður á jörðina" segir í frétt en þeir sáu í hillingum stórkostlegar framkvæmdir vegna námavinnslu, sem nú hafa gufað upp.
En þeir eru bara eitt dæmið af mörgum þar sem menn rjúka upp til handa og fóta í anda gullæðisins sem greip Bandaríkjamenn og kennt er við Klondyke.
Í frétt einni í sjónvarpi fyrir þremur árum var viðtal við bóndann á Hvestu við Arnarfjörð.
Hann lýsti því að hann hefði verið með marga möguleika í huga í sambandi við atvinnumöguleika og ný tækifæri, en væri búinn að fresta þeim öllum og hefði ákveðið að bíða frekar eftir olíuhreinsistöðinni risavöxnu, sem hlyti að fara að koma.
Hér á landi hefur hálgert olíuævintýrisæði runnið á menn. Ekki var fyrr búið að ympra á málinu en menn fóru að eyða stórfé í að skipuleggja og undirbúa stórar olíuhafnir á Norðausturlandi, meira að segja í eyðifirðinum Loðmundarfirði með tilheyrandi jarðgöngum yfir til Fljótsdalshéraðs og hraðbraut nánast beina reglustikuleið til Reykjavíkur yfir hálendi og fjöll.
Nú þegar er búið að slá olíuævintýrinu föstu með því að gera bindandi samning við útlend fyrirtæki um rannsóknir og vinnslu á Drekasvæðinu án þess að nokkur bitastæð eða upplýst umræða hafi farið fram um það.
Kostnaður við vinnslu á því dýpi sem olían kann að verða fimmfalt meiri en kostnaðurinn af vinnslu olíu í Suðurlöndum, svo að olíuverðið myndi varla duga fyrir kostnaðinum.
Búið er að negla það niður að Íslendingar gerist olíuvinnsluþjóð, klári olíu Drekasvæðisins á nokkrum áratugum og leggi fram hámarks skerf sinn til mengunar lofthjúpsins og loftslagsbreytinga á sama tíma og íslensku þjóðinni veitt alþjóðleg viðurkenning fyrir sjálfbæra þróun, afrek í umhverfismálum og nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa.
Og þetta gerist á sama tíma og þriðjungur af raforkuframleiðslu landsins fæst með rányrkju á jarðvarma og með mest mengandi fyrirtæki landsins á Hellisheiði, sem mengar meira en nokkurt álver.
Umskipunarhafnaævintýri er þegar byrjað að heilla menn svo mjög að þeir fá ofbirtu í augun.
Talað er um heimshöfn í Finnafirði á borð við Bremerhaven. Liggja þó siglingarleiðirnar um norðvesturleiðina og norðausturleiðina hvorugar um Ísland, heldur norður með vesturströnd Grænlands og norður með strönd Noregs og við blasir að einasta svæðið á Íslandi, sem gæti skapað nauðsynlegt bakland "heimshafnar" er við sunnanverðan Faxaflóa.
Komnir aftur niður á jörðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Skrítið með íslendinga hve þeir eru ginkeyptir fyrir hugsanlegum skyndigróða. Menn muna sjálfsagt umræðuna hérna fyrir bara 1/2 ári eða 1 varðandi Grænland. Sjllarnir hérna voru komir af stað! Þeir ætluðu að stórgræða á grænleska skyndigróðaævintýrinu.
Þessa umræða um uppganginn á Grænlandi var því einkennilegri þar sem allan tíman voru danirað benda á að áætlanir grænleninga væru al-óraunhæfar og ættu sér engan grunn til að standa á. Á það var barasta ekki hlustað!
Halda menn virkilega að danir viti ekki sínu viti varðandi Grænland? Að þeir danir séu bara að borga megin ríkisútgjöld grænlendinga að gamni sínu eða? Auk allskyns stuðnings og styrkja sem þeir senda þangað.
Það hefur alt gengið 100% eftir sem danir sögðu allan tímann.
Talandi um hve íslendingar eru ginkeyptir fyrir skyndigróða eða að peningar geti komið einhvernvegin ofan úr himninum - að þá er alveg broslegt, í besta falli, hve margir trúa orðum forsætisráðherra núna að hér séu bara að koma um 800 milljarðar af himni ofan rétt si sona!
Þessu trúa margir og aðrir ræða um sem eitthvað relevant! Halló.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 25.11.2014 kl. 23:49
Ansi margt þar út í hött,
í þeim mikill gassinn,
olíu fær hún Sigga Schiöth,
og sautján vött í rassinn.
Þorsteinn Briem, 26.11.2014 kl. 03:14
Auknar fjárveitingar ríkisins nú til Landspítalans, háskólanna og vegagerðar koma frá ferðaþjónustunni.
27.11.2014 (í fyrradag):
Hagvöxturinn byggist á vexti ferðaþjónustunnar
Álverin greiða einungis brot af þeim sköttum sem fyrirtæki greiða hér á Íslandi og meðallaun í álverum hér eru lægri en í ferðaþjónustunni, eins og undirritaður hefur margsýnt hér fram á.
Mikil meirihluti skatta fyrirtækja og einstaklinga kemur frá höfuðborgarsvæðinu, enda er þar mikill meirihluti fyrirtækja og einstaklinga.
Til að reisa hér virkjanir tekur Landsvirkjun lán erlendis, þannig að tugmilljarða króna vextir af þeim fara árlega til lánastofnana erlendis sem erlendur gjaldeyrir.
Þar að auki þurfa álfyrirtækin hér, sem eru í eigu erlendra fyrirtækja, að kaupa gríðarlegt magn af súráli í erlendum gjaldeyri til sinnar framleiðslu.
Og ekki veit ég til þess að Ómar Ragnarsson hafi verið á móti til að mynda álverinu í Hafnarfirði og Búðarhálsvirkjun eða einhverjir Íslendingar séu á móti raforku.
Steingrímur j. Sigfússon, þáverandi formaður Vinstri grænna og fjármálaráðherra, stóð fyrir því ásamt fleirum, meðal annarra þingmönnum Vinstri grænna, að reist yrði kísilver á Húsavík.
Til að það verði reist þurfa hins vegar að koma gríðarmiklar fjárveitingar frá ríkinu vegna hafnarframkvæmda þar og jarðgangagerðar frá höfninni.
Þorsteinn Briem, 29.11.2014 kl. 03:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.