26.11.2014 | 21:13
Enn ný sjón við Holuhraun í dag.
Það gefur sjaldan til flugs frá Reykjavík austur yfir Holuhraun þessar dimmu vikur, en þá sjaldan þegar farið er þangað, blasir sífellt við ný og ný sjón.
Við vorum þarna á ferð í dag á myndatökuferð á tveimur flugvélum, Ragnar Axelsson og Einar Dagbjartsson á annarri flugvélinni, en ég á hinni vélinni með Friðþjóf Helgason og Ölmu dóttur mína innan borðs.
Í næstum 100 kílómetra fjarlægð sást gosmökkurinn rísa yfir skýjabreiðuna og þegar komið var norður fyrir Vonarskarð blasti við öll vetrardýrð norðurhálendisins, böðuð í lágri vetrarsól undir heiðum himni.
Þótt svipað bjartviðri væri þarna nú og fyrir fimm dögum var birtan samt gerólík og vindurinn stóð úr vestri í stað suðausturs um daginn.
Fyrir bragðið leit gosstaðurinn allt öðru vísi út, það var sandfok af Jökulsárflæðum og víðar og sömuleiðis lagði meiri gufur upp úr hrauninu en um daginn.
Ég ætla að setja inn ljósmynd eða ljósmyndir á facebook síðu mína nú á eftir, en kvikmyndirnar okkar Friðþjófs verða að bíða eitthvað eftir vinnslu og birtingu.
Afrakstur RAX verður hins vegar til sýnis í Morgunblaðinu í fyrramálið.
Gosið sést vel á vefmyndavél | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þeir voru þarna líka á ferð í gær vinir okkar frá Lichtenstein á þyrlunni sinni. Gistu svo hjá mér í nótt. Ertu búinn að fá eintak af bókinni "ISLAND"???
Jón Logi (IP-tala skráð) 27.11.2014 kl. 13:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.