4.12.2014 | 11:32
Ótrúlega algengur galli á byggingum.
Það á að vera hægt að reisa byggingar á Íslandi sem halda vatni, jafnvel þótt veðráttan sé rysjótt. Tæknin og þekkingin eru fyrir hendi en hinn ótrúlegi fjöldi bygginga sem lekur og liggur undir skemmdum bendir til þess að það skorti á að menn fari rétt að.
Á miklum nýbyggingatímum á síðari hluta 20. aldar voru reist hús í þúsunda tali hér á landi sem héldu ekki vatni. Tískufyrirbrigði áttu meðal annars hlut að þessu.
Má sem dæmi nefna hina vinsælu hornglugga á íbúðarhúsum, sem komust í tísku í kringum 1940 og reyndust afar dýrir í viðhaldi og einnig flötu þökin sem mörg hver voru beinlínis hriplek.
Ég gerði eitt sinn Kastljósþátt í Sjónvarpi um eitt af þessum þökum þar sem lekinn var yfirgengilegur á nýju húsi.
Sérfræðingur á þessu sviði hefur lýst því fyrir mér hvernig þessi leki var eingöngu vegna vanþekkingar eða tæknilegra mistaka, sem gerð voru í smíði húsþaka á þessum árum.
Vilhjálmur heitinn Hjálmarsson skrifaði stórkostlega skemmtilega ádeilugrein um þetta á sínum tíma þar sem hann sagði meðal annars að enda þótt Bakkabræður hefðu verið svo vitlausir að reyna að bera ljós inn í hús sín í höfuðfötum sínum hefði þeim aldrei dottið í hug að gera flöt húsþök.
Margt mætti upp telja.
Í kringum aldamótin voru reist hér kanadísk hús sem aðeins munu endast í fáa áratugi, vegna þess að þau eru hönnuð fyrir allt annað veðurlag en hér er.
Selfosskaupstaður, sem er á þekktu jarðskjálftasvæði, stendur ofan á mold að mestu leyti, sem er arfa slæmt fyrir byggð, sem á að þola jarðskjálfta sem best.
Á okkar misviðrasama landi á að vera til þekking og geta til að smíða hús sem halda vatni og vindi og endast sæmilega og misbrestur á þessu hefur þegar kostað okkur tugi milljarða og mun eiga eftir að kosta okkur hundruð milljarða króna að óþörfu áður en yfir lýkur.
Kirkjan lekur og sóknin ráðþrota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er álíka og að innbyggjar hérna lærðu aldrei að klæða sig í takt við veðráttuna í gegnum aldirnar. Þeir voru oftast hálfberir. Það er bara nýlega sem íslendingar fóru almennt að klæða veðrið af sér.
Það er eins með húsin. Það er engu líkara en ráðamenn hérna hafi ekki uppgvötað að hér talsverð ofankoma, bæði í blautu og þurru - sem allt verður síðan blautt fyrir rest.
Flötu þökin eru sérstakt rannsóknarefni og ótrúlegt hve algeng þau eru. Og væri athugunarvert hvað þessi vitleysisgangur hefði kostað þjóðina.
Sýnir sig að danir og nojarar hafa verið miklu skynsamari. Öll húsin á Íslandi sem þeir byggðu á 19. öld eru með snarbröttum þökum. Þetta föttuðu þeir. Enda standa flest þau hús enn ef íslendingar hafa þá ekki skemmt þau vísvitandi, rifið og brennt.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.12.2014 kl. 11:59
Alvarlegast er þó þar sem ekki mátti byggja á besta landinu, flatlendi. Það var ætlað undir tún og því var byggt utan í hlíðum. En það vill svo til að sé bratti nálægt þá má búast við því að eitthvað komi þar niður og sópi burt húsinu.
Vagn (IP-tala skráð) 4.12.2014 kl. 12:40
Jú, soldið til í því.
En útfrá því dettur mér annað í hug að ákveðin mynd kemur upp.
Staðirnir sem Nojarar og Danir byggðu upp á 19.öld - að þeir byggðu sitt oftast alveg við sjóinn. Jú jú, meikaði sens því sjórinn var samskiptamiðstöð og atvinnutæki o.s.frv.
En það er líka það að á gömlu upprunalegu stöðunum er oftast besta veðrið á svæðinu.
Td. bara Reykjavík. Alltaf langbesta veðrið í gömlu Reykjavík. Það er eiginlega alltaf blíða þar miðað við önnur hverfi í borginni.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.12.2014 kl. 12:56
Áhugavert viðfangsefni fyrir bollaleggingar fyrir lærða og minna lærða! Af því hér er minnst á horngluggana margfrægu frá því seint á fjórða og byrjun fimmta áratugarins, þá hafa slíkir gluggar verið að birtast á húsum seint á síðustu öld og svo á þessari nýbyrjuðu. Ég var einmitt að horfa á menn skipta um gler og pósta í þannig glugga í húsi, sem byggt var 1996 í einu úthverfa Reykjavíkur. Hornpósturinn í glugganum var algerlega ónýtur og glerið reyndar líka, sem er óeðlilega lítil ending á innan við 20 árum. Reyndar eru arkitektar og aðrir hönnuðir húsa enn að gera tilraunir með verklag og efni í húsbyggingum, sem löngu er búið að sanna er óhæft í okkar veðurfari. Það er eins og hver kynslóð verði að reka sig á sömu hlutina í þessum efnum og það á við um fleira en glugga og þök.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 4.12.2014 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.