9.12.2014 | 06:56
Gleymda orsökin.
Eldsneytisverð vegur mjög þungt í þjóðarbúskap nútímaþjóða og hefur miklu meiri áhrif á hann en oft er látið í veðri vaka, til dæmis núna.
Jafn mikil lækkun og orðið hefur á eldsneytisverðinu er líkast til aðalástæðan fyrir minnstu verðbólgu í áraraðir og þeim stöðugleika, sem gumað er af.
Ef horft er til baka má sjá hið gagnstæða á árunum í kringum 1980.
Uppreisn klerkanna í Íran og fall Íranskeisara 1979 olli mestu verðhækkun á olíu, sem orðið hafði síðan í kjölfar Yom Kippur stríðsins 1973. Og bæði 1979 og 1973 misstu íslenskar ríkisstjórnir tökin á verðbólgunni.
Þótt margir hafi talið ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens 1980 einhverja þá slökustu í lýðveldissögunni verður að virða henni það til vorkunnar að eldsneytishækkunin, sem dundi yfir nokkurn veginn á sama tíma og ríkisstjórn hans tók við völdum, hafði alveg sérstaklega slæm áhrif á þjóðarbúskap Íslendinga.
Hafa verður í huga að á þessum tíma vorum við enn afar háðir innflutningi á eldsneyti til húshitunar í viðbót við eldsneytið á samgönguflotann á sjó og landi.
Ríkisstjórn Gunnar réðist í miklar framkvæmdir við hitaveitur víða um land og það kostaði fjárútlát. Það var ekki fyrr en síðar sem landsmenn fóru að njóta góðs af þessum framkvæmdum.
Í landinu ríkti kapphlaup milli verðlags og kaupgjalds sem öllum ríkisstjórnum á þessum tíma reyndist óyfirstíganleg hindrun við að reyna að ná verðbólgunni niður.
Fyrri hluta árs 1983 var svo komið að verðbólgan hér á landi sló öll met, komst yfir 100%.
Hafi einhvern tíma orðið "forsendubrestur" á lánamarkaði var það þá.
Svo aftur sé litið til nútímans sýnist skortur á trúnaði milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins vera helsta ógnunin við það að hægt sé að halda verðbólgunni áfram niðri og koma í veg fyrir að verðbólguskrúfan fari aftur að stað.
Núverandi "stöðugleiki" kann því miður að vera logn á undan storminum þótt vonandi sé að slík hrakspá rætist ekki.
Bensínið hefur lækkað um 33 kr. | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Rafbílar - Upplýsingar og Facebook - Verkfræðingafélag Íslands
Þorsteinn Briem, 9.12.2014 kl. 10:55
Verðbólgan í OECD-ríkjunum var að meðaltali 6,3% á árunum 1981-1985 en 50,1% hér á Íslandi.
Og 1976-1980 var verðbólgan 9% í OECD en 42,6% hér á Íslandi.
(Sigurður Snævarr, Haglýsing Íslands, útg. 1993, bls. 449.)
Þorsteinn Briem, 9.12.2014 kl. 11:28
Nú brestur mig minni en var ekki "leiðrétting" líka í gangi á þessum tíma fyrir þá sem kynntu hús sín með olíu?
Eða var það bara "leiðrétting" vegna búsetu dreifbýlisstyrkur
Grímur (IP-tala skráð) 9.12.2014 kl. 16:59
Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar
Þorsteinn Briem, 10.12.2014 kl. 02:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.