"Jólastemning", mótuð á norðlægum slóðum.

Hvernig gengur Suður-Evrópuþjóðum og Suðurríkjamönnum í Bandaríkjunum að fanga þá miklu Norðurríkjastemningu sem birtist ótal jólalögum og sálmum?

Bara býsna vel, ótrúlegt en satt.

Mest selda plata síns tíma var með laginu "White Christmas" sem Bing Crosby söng. Ég kemst varla í hina endanlegu jólastemningu nema að heyra Dolly Parton syngja og blanda saman lögunum "Winter Wonderland" og "Sleig Bells".

"Snjókorn falla," "Jólasnjór" og ótal aðrir söngvar reyna að fanga jólastemninguna í Norðurríkjunum.

Þetta er Pollyanna í sínu æðsta veldi, að snúa hundleiðinlegum kulda, myrkri og hríð upp í dýrð og dásemd. Heilagur Kláus er orðinn að sleðastjóra og gjafadreifara þar sem klingjandi sleðabjöllurnar hringja inn jólastemninguna í marauðum Suðurríkjunum og Miðjarðarhafslöndum Evrópu. 

Á Íslandi klæða hinir þjóðlegu og fornu jólasveinar okkar sig í búning Santa Claus og gefa gott í skóinn, þessir fyrrum óknyttadrengir og synir Grýlu og Leppalúða.  

Og það er vel að lífga upp á skammdegið og víkja burt vetrardrunganum í stórhríðum með jákvæðri stemningu, tónlist, jólaljósum og öllu galleríinu.

Á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í dag verður frumflutt hér á landi lagið og textinn "Jólastemning", íslensk staðfærsla á ljóðinu "Christmas Time" sem hefur verið vinsælt jólalag í Bandaríkjunum í hálfa öld án þess að það hafi skolast hingað til lands, svo ég viti til.  

Stúlknakór Reykjavíkur og Hulda Garðarsdóttir syngja lagið, en höfundar þess eru Lee Mendelson og Vince Guaraldi. 

Í bandaríska textanum eru snjókornin, arineldurinn og allt það dásamað í lýsingu á hinni sönnu jólastemningu. Svona hljóðar það á íslensku. Lýst sameiginlegum atriðum stemningarinnar, hinu séríslenska, en bandaríska arineldinum sleppt : 

 

JÓLASTEMNING. (Christms Time is here)  

 

Jólastemning er

yfir öllu hér; 

gleðitíð sem börnin blíð

nú biðja´að veitist sér. 

 

Snjókorn blærinn ber. 

Boðskap flytja mér 

dýrðarsöngvar dægrin löng

sem dilla mér og þér. 

 

Söngur, ljóð og ljóð, 

ljúft við tónaflóð

mitt í dróma myrkurs ljómar 

minninganna flóð. 

 

Jólastemning ber

birtu; ósk mín er 

að alla tíð, já ár og síð

allt árið ríki´hún hér, -

að einlæg gleði´og ástargeð

æ gefist mér og þér.  

 

 

 

 


mbl.is Hvaða jólasveinn ert þú?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband