"Séríslenskar aðstæður".

Margt á landi okkar er sérstakt og um sumt af því gildir það, sem svo oft er sagt, að þar séu að verki "séríslenskar aðstæður." Rúðuþurrkur frosnar

Andstaða við notkun bílbelta á sínum tíma var til dæmis byggð á því að hér væru "séríslenskar aðstæður" sem gerðu það nauðsynlegt að spenna ekki bílbelti. 

Ýmis hegðan okkar er næsta séríslensk. Þessa dagana koma kannski þrjár tegundir af veðri á hverjum sólarhring, hringekjan norðanátt og frost-suðaustanátt og snjókoma-slydda-rigning-suðvestanátt og éljaganggur-norðanátt og frost. 

Snjór sest á framrúður, verður blautur, frýs aftur og rúðuþurrkurnar eru eins og límdar við framrúðuna. Kostar heilmikið vesen og jafnvel skemmdir á þurrkunum að losa þær upp úr klakanum. 

Í Svíþjóð og Noregi er þetta ekki svona. Þegar menn ganga frá bílunum á kvöldin eru þurrkurnar réttar upp í loftið eins og sést á myndRúðuþurrkur upp í loft á facebook síðu minni. 

Morguninn eftir þarf ekki að berja klaka og djöflast á þurrkunum frosnum föstum við bílrúðuna, sama hvað veður hefur verið um nóttina. Aðeins þarf að skafa af rúðunni og leggja þurrkurnar niður. 
Þetta sér maður hvergi hér á landi og eru þó miklu magnaðri og meiri umlhleypingar hér en í Svíþjóð og Noregi. 

Hér eru þurrkurnar látnar frjósa fastar við rúðuna þegar bíllinn stendur nógu lengi til þess að þær festist. 

Þegar ég ræði þetta koma menn með alls konar viðbárur. "Það er meiri hætta á að þurrkunum verði stolið ef þær eru látnar standa uppréttar" er algengast viðbáran. 

Samkvæmt því er fólgin þjófavörn í því að þurrkurnar séu frosnar við rúðurnar. 

En hvað um mikinn meirihluta ársins þegar ekki er frost og ekki þau skilyrði að þurrkurnar frjósi fastar í rökkri eða myrkri? 

Þá er jafn fljótlegt að stela þurrkum liggjandi eða standandi? Af hverju er ekki stundaður stórfelldur þurrkuþjófnaður þegar slíkar aðstæður eru? 

Reynslan í Svíþjóð og í Noregi er sú að þurrkum er ekkert frekar stolið þótt þær séu uppréttar en þegar þær eru liggjandi. 

Það hljóta því að vera "séríslenskar aðstæður" sem valda því að þjófar fara því aðeins á kreik til að stela þurrkum þegar eru uppréttar í rysjóttum vetrarveðrum. 

Í raun er allt tal um séríslenskar aðstæður þvi frekar í vil að láta þurrkurnar standa uppréttar á Íslandi í rysjóttri tíð vetrarins heldur en í Sviþjóð og Noregi, einfaldlega vegna þess að hinar einu "séríslensku aðstæður" eru þær hve miklu meiri umhleypingarnir eru hér á landi en í hinum löndunum. 

En okkur reynist auðvelt að nota séríslenska rökfimi til þess að snúa röksemdafærsluni á haus. Það eru sko "séríslenskar aðstæður". 


mbl.is Spá 60 m/s í hviðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Á mínum eðalvagni, SKODA Elegancé fara þurrkurnar niður nánast undir efri brún húddsins og ekki hægt að reisa þær svona upp. - Ég set nú bara í gang, set miðstöðina á fullt á hitastig "High" upp á rúðuna að framan, hitarann á afturrúðuna og byrja svo að skafa og tek rúðurnar síðast. Klikkar ekki, allt orðið frekar laust, og þar með þurrkurnar.

Már Elíson, 13.12.2014 kl. 22:53

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Svo eru til bílar, eins og Ford Mondeo sem stendur hér í innkeyrslunni, sem eru með mjög fíngerða víra í framrúðunni. Nánast ósýnilegir en bræða snjó og klaka á nokkrum andartökum þegar þrýst er á hnapp í mælaborðinu.

Þetta þykir mér snilld og mætti vera í öllum bílum.


Ágúst H Bjarnason, 14.12.2014 kl. 07:58

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Svona virkar þessi rafmagns framrúðuhitari:

https://www.youtube.com/watch?v=O9N65rEOV5E

Ágúst H Bjarnason, 14.12.2014 kl. 08:03

4 identicon

þetta er rangt margir lyfta þurrkunum á íslandi amk her á Selfossi

agust þorbjörnsson (IP-tala skráð) 14.12.2014 kl. 09:18

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Hér rýkur rokið svo upp að maður er hikandi við að láta þurrkurnar dingla út í loftið án skjóls. Svo sogar þetta að sér Vandala, sem líta á það sem köllun að rústa hjá þeim sem stunda svona borgaralega hegðun, sérstaklega ef bíllinn er í fínna lagi. 

Ívar Pálsson, 14.12.2014 kl. 09:50

6 Smámynd: Snorri Hansson

Þetta er rangt, líklega meira en helmingur bíleigenda á Akureyri lyfta þurrkunum.

Ég geri það ekki.  Hef bara ekki vanið mig á það en hef aldrei skemmt þurrkublöð

vegna frosts.

 Losa blöðin varlega með sköfunni og myl klakann sem á blaðinu er með hendi.

Já Ómar við erum svo voða voða vitlaus.

Snorri Hansson, 14.12.2014 kl. 10:20

7 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þar sem ekki er allt fyrirséð á vitlausra manna landi, með sínar sér Íslensku veður gerðir,  þá er ánægjulegt að vita af fjölgun hinna sér Íslensku vitringa sem af nærfærni gauka að okkur vitlausum af visku sinni og lítillæti.  

Auðvita höfum við hér á vitlausra manna landi reynt ýmis brögð varðandi meðferð á vinnukonum, en af misjafnri reynslu þá hefur mér dugað best nærfærin aðferð Snorra, því forspár er ég ekki um háttu og geðslag veðurguða.

En frá því er að segja að á meðal okkar vitlausra eru til einstaklingar með svipað hugarferli og gerist hjá nautum þá fyrir þeim verða nývirki.

     

Hrólfur Þ Hraundal, 14.12.2014 kl. 12:01

8 Smámynd: Stefán Þ Ingólfsson

Það verður að fara varlega með vinnukonurnar, best er að hita þær upp fyrir notkun. 

Stefán Þ Ingólfsson, 14.12.2014 kl. 12:54

9 Smámynd: Benedikt V. Warén

Hægt er að nota skandinavískan staðalbúnað.  Ætti að lögleiða hann á Íslandi og nýta græna orku og spara eldsneyti og minnka mengun, vegna minni keyrslu á innsogi.  Þetta svínvirkar í mínum bíl á Egilsstöðum.

http://www.biltema.dk/da/Bil---MC/Bil-tilbehor/Vinterbil/Kabinevarmer/

http://www.bilradiospes.no/m/shop/?produkt=418&katid=72&id=

Benedikt V. Warén, 14.12.2014 kl. 13:03

10 Smámynd: Benedikt V. Warén

Svo ég taki nú Steina Briem á að útskýra þetta tongue-out

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/338971/

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/715158/

http://www.mbl.is/bill/frettir/2012/10/08/ylur_i_bilinn_med_einfoldu_taeki/

Benedikt V. Warén, 14.12.2014 kl. 13:12

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Rúðuþurrkun lýsir vel vesaldómi og uppdráttarsýki Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Undirritaður ók eitt sinn gamla Willys frá bílaverkstæðinu á Dalvík að Hlíð í Skíðadal, 25 kílómetra, með höfuðið út um gluggann alla leiðina í svo mikilli stórhríð að engar vinnukonur hefðu haft þar undan og aka varð veginn eftir minni, þar sem hann sást ekki lengur.

Þorsteinn Briem, 14.12.2014 kl. 14:39

12 Smámynd: Már Elíson

Það útskýrir kalið á toppstykkinu....wink...Sem er reyndar varanlegt..sealed

Már Elíson, 14.12.2014 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband