14.12.2014 | 15:17
"Ferðaþjónustuaðilar"í klúðri.
Það er ekkert athugavert við það þótt þaulvanir menn á öflugustu jöklabílum landsins fari í leiðangur sem fyrirsjáanlega muni lenda í óveðri, ef fyrirfram er búið svo um hnúta að bíða veðrið af sér.
Dæmi um þetta var leiðangur á Hvannadalshnjúk vorið 1991 þar sem leiðangurinn hélt kyrru fyrir í óveðrinu þann tíma sem búið var að spá fyrir að það myndi standa.
Síðan var haldið áfram og birgðir af eldsneyti og vistum voru fyrirfram hafðar það miklar að hægt var að ljúka leiðangrinum án utanaðkomandi útkalls eða aðstoðar.
Menn einfaldlega höfðust við í bílunum og það væsti ekki um þá.
Það var búið að spá óveðrinu, sem nú gengur yfir landið og allt hefur gengið eftir varðandi það, rétt eins og gerðist í leiðangrinum 1991.
Svo virðist sem að ef farið hefði verið í Landmannalaugaleiðangurinn núna eftir sömu formúlu og notuð var 1991, hefði annað hvort verið gert ráð fyrir því að stytta leiðangurinn ef færið var svo þungt að sjá mátti fyrir eldsneytisskort og hafa í bakhöndinni þann möguleika að halda kyrru fyrir og bíða veðrið af sér, - eða að hafa svo mikið af eldsneyti og birgðum, að hægt yrði að komast báðar leiðir og gera ráð fyrir lengri tíma í leiðangurinn en upphaflega var áætlað.
En auðvitað geta ævinlega komið upp ófyrirséðar bilanir, óhöpp, áföll eða mistök, sem leysa þarf úr, og björgunarsveitarmenn eru afar skilningsríkir, enda flestir jöklafarar, sem kannski hafa sjálfir þurft á aðstoð að halda.
Komust við illan leik inn í Laugar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ferðaþjónustumenn og ferðaþjónustufyrirtæki en ekki "ferðaþjónustuaðilar".
Og leyniþjónustumenn en ekki "leyniþjónustuaðilar".
Þorsteinn Briem, 14.12.2014 kl. 16:26
Alveg sammála, Steini, en ég set gæsalappir utan um orðið til að gefa til kynna, að þetta er ekki mín smíð. Orðið "aðilar" eru eitt ofnotaðasta, hvimleiðasta og óþarfasta orðið sem ríður húsum hér ásamt ýmsum öðrum álíka leiðinlegum.
Ómar Ragnarsson, 14.12.2014 kl. 21:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.