16.12.2014 | 21:45
Hvað gerist vindmegin við glóandi jarðeld í 12 stiga frosti?
Þegar verið er nálægt jarðeldi, glóðandi hrauni eða eldgosi, og stífur frostkaldur vindur stendur af manni í átt að jarðeldinum gerist dálítið sérstakt, sem er svolítið ruglingslegt.
Þetta var til dæmis hægt að upplifa í Kröflugosi í janúar 1981 þegar tólf stiga frost var á gosstöðvunum og stífur norðvestanvindurinn var þetta kaldur.
Svipað gerðist í tökum á loftmyndum nýlega af gígnum Baugi í Holuhrauni.
Loftið, sem skall á manni var sannanlega frostkalt og tryggði að hægt væri að fara miklu nær jarðeldinum en ella í þessum kalda loftmassa.
Ef gluggi var opnaður fannst hins vegar heit geislun koma inn um hann.
Enn magnaðra var þetta fyrirbæri í Kröflugosinu fyrrnefnda.
Þar var á einum stað hægt að standa á þverhníptum gjábakka og horfa ofan í glóandi hraunelfuna beint fyrir neðan sig og hafa glóandi eldtungur gígsins á bak við sig, en samt að njóta þess að mínus tólf stiga heitur loftstraumur norðvestanvindsins skall á manni.
En þrátt fyrir þetta fannst vel fyrir heitri geislun frá eldvegg gígsins og hraunsins enda þótt sú geislun þyrfti að fara í gegnum hinn frostkalda loftstraum.
Ég hugðist taka uppistand á þessum stað og var í kolsvörtum leðurjakka utan yfir ullarfatnaði. Þarna var heldur hlýrra en fjær gosinu.
Sneri baki í eldinn og stóð þar kyrr nokkra stund. En þá hrópaði Haraldur Friðriksson kvikmyndatökumaður til mín: "Það er að kvikna í jakkanum!"
Mikið rétt. Reyk lagði upp frá bakinu vegna þess hve vel kolsvartur jakkinn dró í sig geislun eldsins. Samt var frost í vindinum sem stóð framan á mig. Ég flýtti mér að snúa mér við og færa mig fjær. Og það mátti sjá minna: Ysta byrði jakkans var sviðnað!
Lára Ómarsdóttir fréttamaður lýsti þessu fyrirbæri stuttlega þar sem hún stóð við Holuhraun um daginn og svo sannarlega er þetta ótrúlega fyrirbæri fyrir hendi.
![]() |
Þetta gerist þegar gengið er á hrauni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvað ertu nú að fara minn ágæti Ómar. Hefur líklega verið á máladeildinni í MR, lært latínu, en ekki eðlisfræði. Aldrei heyrt getið um varmageislun. Aldrei heyrt getið um Max Planck (Max Karl Ludwig Planck, f. 1858 í Kiel).
Hann var faðir skammtafræðinnar (Quantum mecanics), hvorki meira né minna.
Allir hlutir geisla frá sér varma, ískaldir sem rauðglóandi, rafsegulbylgjum og orka varmans E = Plancks fasti (h)) sinnum ljóshraðinn (c), deilt með öldulengdinni (lambda). Got it?
Og hér er Planck's constant sem menn ættu að kunna utanbókar:
h = 0.00000000000000000000000000000000066260695729 kg mxm /sekúnda.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.12.2014 kl. 23:17
Haukur @1
Eru þá uplifanir manna af náttúrunni ekkert merkilegar ef eðlisfræðin hefur náð yfir fyrirbærin?
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.12.2014 kl. 00:17
Það hefur farið illa fyrir mörgum latínugránanum sem klikkað hefur á Plancks fastanum.
Og heldur leiðinlegt til afspurnar að fuðra upp og verða að ösku í beinni útsendingu.
Þorsteinn Briem, 17.12.2014 kl. 00:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.