25.3.2007 | 00:42
KOMIN AF STAÐ ! FJÁRHAGSLEGT ÓJAFNRÆÐI FRAMBOÐA.
Það er búið að vera blogghlé hjá mér í þrjá daga af tveimur ástæðum: týndri tengisnúru við tölvuna mína sem erfitt var að fá, - og fæðingu Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands. Í gær var farin fyrsta kynningarferðin og tókst mjög vel. Það var viðeigandi að byrja á Akranesi sem er mesti stóriðjubær landsins, en síðan var farið í Borgarnes.
Fyrir tilviljun var framboðið kynnt á alþjóðlegum degi vatnsins. Það var mjög viðeigendi fyrir grænt stjórnmálaafl að dagurinn skyldi kenndur við dýrmætasta vökva heims, en nýting vatnsins verður eitt erfiðasta umhverfismál 21. aldarinnar.
Framundan er gríðarlega mikið annríki því að þetta framboð kemur fram langt á eftir hinum og verður að klára öll sín mál á ljóshraða. Þar að auki hafa flokkarnir sem fyrir eru á þingi skammtað sér 360 milljónir króna til þess að heyja kosningabaráttuna á sama tíma og ekki kemur króna til nýs framboðs.
Stjórnmálafræðingur sagði á dögunum að sjónvarpsauglýsingar hefðu mikil áhrif á óákveðna kjósendur sem gætu skipt sköpum í kosningunum. Í síðustu kosningum nýttu framsóknarmenn sér þetta en nú munu allir þingflokkarnir fimm nýta sér það óspart.
Lýðræðið felst sem sé í því að nýtt framboð sem er Davíð í fjárhagslegum skilningi verður að ráðast gegn fimm Golíötum! Í raun er því verið að fara fram á að ný öfl sem vilja bjóða fram til þings vinni kraftaverk.
En við sem að þessu framboði stöndum trúum á málstaðinn og erum staðráðin í því að ráðast ótrauð og baráttuglöð gegn þessum fimm peningadrekum nánast með berum höndunum til að vinna stefnumálum okkar framgang.
Athugasemdir
Blessaður Sveinn Elías.
Finnst þér í alvöru að þeir flokkar sem sitja á Alþingi í dag hafi einkaleyfi á að sitja þar?Og eiga stjórnmál að fjalla um að fella ríkisstjórnir en ekki um hugmyndafræði og stefnur? Og að svo er enginn hjá okkur í fýlu, það er mikið fjör hjá okkur.
Lárus Vilhjálmsson, 25.3.2007 kl. 01:17
Fylgist með úr fjarlægð! Hlakka til að sjá stefnuskrá flokksins og hverjir verða frambjóðendur. Bestu óskir um gott gengi.
Helga (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 03:20
Sæll Ómar.
Var einhver sem bannaði þér og ykkar fulltrúum að berjast fyrir ykkar hugsjónum innan raða núverandi starfandi flokka í landinu ?
Má í því sambandi nefna það atriði að varaformaður þessa nýja framboðs fékk all afgerandi stuðning til áframhaldandi þáttöku í eigin flokki Frjálslynda flokknum en kaus að yfirgefa þann hinn sama, eigi að síður, að virðist vegna þess að sú hin sama varð ekki ofar í varaformannskjöri.
Er þetta pólítik um keisarans skegg og einstaka einstaklinga ofar málefnum sem boðbera umfram forgangsmál í þágu eins samfélags ?
Sem þjónar þá hvaða tilgangi sýnilegum ?
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 25.3.2007 kl. 03:44
Mér lýst vel á þetta framtak ykkar. Gangi ykkur sem best.
Kári Gautason, 25.3.2007 kl. 08:44
Sæll Ómar.
Hárétt athugað hjá þér.
Nýleg löggjöf um fjármál stjórnmálaflokka átti upphaflega að snúast um að opna bókhald flokkanna. Opnun bókhaldsins er dálítið í skötulíki en þó skref í rétta átt. Fjármál stjórnmálasamtaka sem bjóða fram þings og sveitarstjórna eiga einfaldlega að vera opin almenningi.
En þótt ekki væri gengið hreint til verks með að opna bókhald flokkanna, þá var eitt sem ekki fórst fyrir: ALLIR flokkarnir urðu ásáttir um að þeir fengju 130 milljónir úr sjóðum almennings til viðbótar þeim 300 milljónum sem þeir höfðu þegar skammtað sér. Þegar formaður og varaformaður nefndarinnar sem sá um að koma þessu í kring voru spurðir hvers vegna upphæðin hefði verið 130 milljónir þá gátu þeir ekki svarað því. Flokkarnir tóku bara eina lúku af því að þeir voru í aðstöðu til þess.
Þetta rímar mjög vel við ljótasta blettinn á Alþingi Íslendinga, nefnilega eftirlaunalögin sem sett voru á fyrsta þingi eftir síðustu kosningar, í desember 2003. Þar tóku sig saman formenn ALLRA flokka og sömdu um sérstök lífeyrisréttindi sjálfum sér til handa. Þeir töldu sig ekki geta búið við sömu réttindi og fólkið sem kaus þá á þing. Stjórnarandstaðan lagði niður andstöðu um stund til þess að koma þessu í kring. Auk þess tryggði löggjöfin formönnum stjórnarandstöðunnar 260.000 kr. launahækkun á mánuði. Ekki hefur það spillt fyrir. Höfundi hugtaksins "græðgisvæðing" fannst þetta ekkert tiltökumál og hann er alveg til í meira.
Til að kóróna sköpunarverkið hamast nú ALLIR stjórnmálaflokkar við að þegja um málið. Gallinn við þessa spillingu - að mati flokkanna - er nefnilega sá hún er ekki óafturkræf.
Flokkarnir á Alþingi og þeir sem á þeim þrífast eru teknir að búa um sig líkt og þeir væru réttbornir til valda og aðrir ættu bara að standa hjá og klappa fyrir þeim. Þess vegna er Íslandshreyfingin mikilvægt andóf. Sérgæskan hefur aldrei grasserað eins og nú og það er nauðsynlegt að spyrna við fæti. Góð byrjun - og táknræn - er að afnema eftirlaunaósómann. Núverandi flokkar á þingi eru ófærir um það, en hvað mun Íslandshreyfingin að gera?
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 10:50
mun kjósa þig ómar - jafnvel þó að hundruði sjónvarpsauglýsinga hrynji yfir okkur. en plís reyndu að finna fleiri þungavigtarmenn með þer - og það sem fyrst. þurfum að ná þessu upp í 10-15%
óskilgreindur, 25.3.2007 kl. 11:01
Líst vel á það sem komið er. Haldið áfram á þessari braut. Leiðin er greið upp hægri kantinn. Allir hinir eru lengst til vinstri. Með skýr markmið, vel skiplagða framsetningu og gott fólk í framboð er ætti leiðin að verða ykkur greið!
Sveinn Ingi Lýðsson, 25.3.2007 kl. 11:41
Sæll Ómar
Hafðu ekki áhyggjur af auglýsingum hinna flokkanna. Þetta eru langleiðinlegustu auglýsingar sem gerðar eru og hreinlega alveg furðulegt ef þær virka.
Bloggið bara öll sem einn.
kv.
Eyjólfur
Eyjólfur Sturlaugsson, 25.3.2007 kl. 12:22
KRISTUR lét krossfesta sig. Það var mjög ódýr og áhrifarík auglýsing, dugar enn meira að segja, tvö þúsund árum síðar. Það þarf ekki að kaupa skoðanir skynsams fólks. Peningar eru bara fyrir þá sem vilja kaupa hlutina fyrir eitthvað ákveðið verð, stundum 30 silfurpeninga, stundum sál sína.
Steini Briem (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 15:44
Íslandshreyfingin nafnið og hugmynd þess er í mínum huga íhaldshreyfing og af hverju? Jú, fyrsta skoðanakönnun bendir ótvírætt til þess sem íhaldið óskaði sér, Íslandshreyfingin með umhverfismál sem dulargerfi ná aðallega fylgi frá VG og gera möguleika á áframhaldi íhaldsstjórnar meir en áður. Með vinsemd og virðingu.
Þorkell Sigurjónsson. (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 16:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.