7.1.2015 | 01:14
Rímar við fyrstu upplifun mína af dauðanum.
Þegar ég var fimm ára gamall í sumardvöl að Hólmaseli í Flóa talaði aðeins eldri drengur á bænum, sem ég lék mér oft við, um það að hænur gætu synt. Ég trúði honum ekki og þetta endaði með því að við klófestum hænuunga og settum hann í vatn í tunnu til að sannreyna þetta.
Unginn var heitur í höndum mér og óskaplega hræddur, og ég fann hvernig hjarta hans barðist ótt og títt.
Unginn virtist í fyrst geta synt því að hann hamaðist með fótunum og vængstubbum sínum og komst á nokkra ferð, en síðan hægðist á honum og loks flaut hann bara líflaus og drukknaður. hann.
Þegar ég hélt á vesalings unganum dauðum og köldum í lófa mér og fann að hann var strax byrjaður að kólna og hjartað sló ekki lengur var það fyrsta upplifun mín af dauðanum og hún var gríðarlega sterk.
Svo sterk voru þessi viðbrögð að ég gat engan veginn sofnað um kvöldið af ótta við að þegar ég sofnaði væri ekki víst að ég vaknaði nokkurn tímann aftur.
Það var að sjálfsögðu fullkomlega órökrétt að meiri hætta væri á því að deyja í svefni í vöku, en réðist sennilega af því hve svefninn virtist líkur dauðanum hvað það varðaði að þá væri manni kúplað út úr meðvituðu lífi.
Þessi tilfinning var svo óviðráðanleg og sterk að hún hélt mér vakandi langt fram á nótt þangað til ég leið loks útaf.
Ég óttaðist ekki aðeins dauðann og það að deyja kannski strax, heldur var engu líkara en ég óttaðist það mest að vera ekki vakandi þegar ég dræpist og mætti því helst ekki sofna það sem eftir væri ævinnar.
Vandamál hinnar sextán ára gömlu stúlku rímar við þessa fyrstu upplifun mína, sem bráði af mér næsta dag eftir að fyrir lá að ég gæti ekki fengið það uppfyllt að vera vakandi til æviloka. Að þessu leyti held ég að ég skilji hið sérkennilega vandamál dönsku stúlkunnar, sem er kannski aðeins sérkennilegt vegna þess hve lengi hún hefur verið haldin þessari óviðráðanlegu tilfinningu.
Mamma, nú mun ég deyja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fyrir heiminn talsvert tap,
talinn af er unginn,
á Hólmaseli hana drap,
hann fékk spark í punginn.
Þorsteinn Briem, 7.1.2015 kl. 05:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.