7.1.2015 | 23:29
Sleppti einni af fyrstu Toyotunum.
Þegar Toyota kom til sögunnar hér á landi 1965 opnaðist möguleiki til þess að eignast duglegan en mjög ódýran ferðabíl til að fara í erfiðar ferðir um allt land til að skemmta á öllum árstímum.
Fram að þeim tíma hafði ég notað minnstu bíla landsins af NSU-Prinz gerð.
Ástæðan fyrir hikinu gagnvart jeppunum var sú að fram að þessum tíma voru einu jepparnir sem veittur var stórfelldur bændaafsláttur af á opinberum gjöldum, Willys, Rússajeppi GAZ 69 og Land Rover. Allir þessir bílar stóðust þær kröfur um bændaafslátt að vera styttri en 2,40 m á milli öxla en en þá skorti alla vélarafl, fannst mér, voru með fjögurra strokka kraftlitlar vélar.
Toyota Landcruiser var hins vegar með sex strokka vél, aflmikla vél á þeirra tíma mælikvarða, og aðeins voru 2,29 metrar á milli öxla þannig að hann féll óvænt inn í afsláttarkerfið góða.
Ég ákvað því að skella mér í hóp þeirra fyrstu sem fengi sér slíkan bíl, en í þeim svifum bárust fréttir af alveg nýjum bandarískum jeppa, Ford Bronco, sem var líka nógu stuttur, 2,33 m á milli öxla, með sex strokka kraftmikla vél, en heldur minni, léttari og eyðslugrennri en Landcruiserinn, auk þess sem hann var með gormafjöðrun að framan og mun þýðari en Toyotan.
Ég gerðist því þátttakandi í svonefndu Bronkó-æði sem gekk yfir landið og varð af tækifæri til þess að taka þátt í innreið bíltegundar, sem hefur notið mestu vinsælda sem um getur í sögu bílsins á Íslandi.
Báðir þessir bílar, fyrstu árgerðir af Ford Bronkó og Landcruiser, voru hins vegar einstaklega góðir bílar og merkilegt hve margir af þeim eru enn gangfærir.
Og upprunalegi Landcruiserinn hefur verið framleidur í Brasilíu að mestu leyti óbreyttur í hálfa öld undir nafninu Toyota Bandeirante.
Ég bætti fyrir Toyota "svikin" 1965 síðar á ævinni og set hér inn þrjár myndir af "minnsta Toyota jöklajeppa landsins", Hi-Lux árgerð 89, þar sem hann er að leggja af stað síðdegis með bátinn "Örkina" austur að Kárahnjúkum vorið 2006 og er síðan á neðstu myndinni eldsnemma morguninn eftir kominn hálfa leið á leið út Eyjafjörðinn.
Miðmyndin er af honum þegar ég skildi hann eftir á Sauðárflugvelli seint í október síðastliðnum, nú orðinn fornbíll.
Bandarískt jeppatímarit valdi fyrstu gerð Bronco sem besta jeppa allra tíma, miðað við þann tíma sem hann var framleiddur og það er ekki svo galið val. Bíllinn var að vísu aðeins framleiddur í 11 ár frá 1966-1977, en með átta strokka vélinni, sem kom 1967-8 var hann alveg dýrlegur jeppi.
Ég lét setja millisæti frammi í, lækka gólfið afturí miklu meira en aðrir gerðu og setja tvö hliðarsæti aftast, og þá gat 9 manna fjölskylda ferðast saman í bíl, sem var styttri en Yaris er nú !
Toyota fagnar 50 ára afmæli á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Bíll #2 í minni eigu var Toyota Crown, árg. ´65, 6 manna með bekk frammí og stýrisskiptingu. Það var stundum gaman á rúntinum í Reykjavík 1978.
Reyndar ekkert síður gaman á Skoda Octaviunni ´66 sem var fyrsti bíllinn.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.1.2015 kl. 23:52
Já, svo sannarlega voru þetta blómatímar, Gunnar! Þá vorum við ungir og töff! Núna erum við bara töff!
Ómar Ragnarsson, 8.1.2015 kl. 00:00
hehe
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.1.2015 kl. 00:03
Ómar, það er gaman að lesa um þessa bíla. Fyrsta minning mín um þig var frá Kópavogi einhverntíma á árunum 1960 - 1962, í gegnum bekkjarsystkini mín í Barnaskóla Kópavogs. Þau sem sem bjuggu innst við þáverandi Digranesveg. Á þeim tíma var ekki algengt að krakkar fengju far til og frá skóla. Þau sögðu frá karli sem ætti pínulítinn bíl og leyfði þeim að troða sér inn í hann meðan rýmið leyfði til að fá salíbunu heim úr skólanum.
Halldór Árnason (IP-tala skráð) 8.1.2015 kl. 08:43
Gamli Bronkoin var einstakur bíll og í samanburðinum var FJ bíllinn nánast traktor.
Það voru stór mistök hjá Ford að hætta framleiðslu þessa bíls, en á þeim tíma ríkti sú skoðun hjá bandarískum bílaframleiðendum að því stærra. því betra og stóri Bronkóinn átti að taka við. Þeir voru ekki búnir að átta sig á olíukreppunni og sú firra þeirra varð þeim dýrkeypt.
Seinna komu svo Ford verksmiðjurnar með Bronko II á markað, lítinn og kraftmikinn jeppa. En það var of seint, aðrir framleiðendur, einkum japanskir, voru komnir með á markað mun eyðsluminni jeppa. Þó að nokkuð hafi selst af þessum bílum hér á landi, náðu þeir aldrei flugi. Aftur á móti voru þeir mjög vinsælir í heimalandinu.
Gunnar Heiðarsson, 8.1.2015 kl. 09:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.