Það er hægt að sofa úti í 30 stiga frosti.

Það fer allt eftir búnaði og aðferðum í hve köldu veðri hægt er að sofa í tjaldi. Þetta fer þó ansi mikið eftir því hvað vindurinn er mikill og hve mikill skafrenningur er eða ofankoma.

Frakki einn, sem kom til landsins fyrir tæpum 20 árum  og ætlaði yfir Vatnajökul var næstum orðinn úti í ferðinni og glímdi við kal eftir ferðina.

Í viðtali var hann spurður hvað hefði komið honum mest á óvart, var svarið: "Vindurinn og snjórinn." 

Dálítið skondið svar en það sem hann átti við var að snjór, sem var eins fíngerður og hveiti, smaug í ofsaroki inn í tjald hans og fyllti það. 

Frakki þessi týndist síðar á göngu á ísnum norður af Kanada og hefur ekkert til hans spurst síðan. 

Ég kveið talsvert fyrir því að sofa úti í 30 stiga frosti á ferð yfir Grænlandsjökul. En leiðangursmenn, sem kunnu vel til verka eftir margar erfiðar ferðir um íslenska jökla, létu mig kaupa mér sérstakan svefnpoka og svefninn var góður. 

Svefnpoka þennan á ég enn, 16 árum síðar, og hann hefur fyrir löngu sannað fyrir mér að svefnpoki og svefnpoki geta verið sitt hvað. 

Ragnar sonur minn var einn af félögum í svonefndu Hreystimannafélagi, sem ferðaðist gangandi eða hjólandi um allan heim, allt frá íslenskum jöklum um hávetur til Tíbet.

Á ferð yfir þver Bandaríkin með svefnpoka sinn og tjald lenti hann í mesta frosti, sem komið hafði í áratugi og kom nokkrum dögum seinna heim til Íslands en hann hafði áætlað vegna tafanna, sem frostið, allt að 40 stig, hafði valdið.

Ég spurði hann hvort hann hefði ekki leitað aðstoðar fulltrúa Íslands þegar hann var í metfrosti í New York.

"Nei, sagði hann, ég þurfti þess ekki?"

"Hvar gistirðu þá?"

"Ég svaf bara úti í Central Park."

"Ertu vitlaus, maður, þar sem allt er fullt af glæpamönnum?"

"Nei, ekki í 35 stiga frosti" var svarið.  


mbl.is Sváfu úti í tíu stiga frosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband