Markatölur úr fortíðinni, öfugar þó.

Eftir að reglum handboltans var breytt til að auka hraða leiksins og spennu með því skylda ekki lið, sem fær mark á sig, til þess að byrja frá miðju eftir að andstæðingarnir eru komnir til baka, hækkuðu markatölurnar um 50% að meðaltali. 

Undir venjulegum kringumstæðum á lið, sem fær aðeins á sig 24 mörk, að eiga ágæta sigurmöguleika. 

En það var svo langt frá því að það væri nóg í kvöld. Fróðlegt væri að vita hve mörg ár eða jafnvel áratugir eru síðan íslenskt handboltalandslið hefur skorað færri mörk í einum leik. 

Leikurinn í kvöld minnir óþyrmilega á landsleik í kringum 1970 þegar gerð var einhver mesta breyting allra tíma á landsliðinu, og við unnum Dani í fyrsta sinn með ótrúlegri markatölu, 15-10. 

En miðað við reglurnar, sem þá voru, og miklu færri mörk skoruð að meðaltali, er það álíka markatala og nú, og meira segja nákvæmlega sama hlutfall, 3:2.

En því miður öfug fyrir okkur, stórtap okkar manna í stað stórsigurs þá.

Stærstan þátt í 15:10 sigrinum átti nýr og kornungur landsliðsmarkvörður okkar, Ólafur Benediktsson, sem varði svo meistaralega, að hann fékk strax viðurnefni, Óliver.

 

Í leik okkar við Svía nú var það sænski markvörðurinn sem var Óliver þeirra. 

Ólafur "Óliver" var síðasti íslenski markvörðurinn, sem gat varið hörkuskot niðri við gólf út við stöng með því að kasta sér niður í hornið með höfuðið og höndina á undan skrokknum svipað og knattspyrnumarkvörður.

Mig minnir að síðasti danski markvörðurinn sem gat þetta og gerði með árangri hafi heitið Mortensen eða eitthvað líkt því.

 

 

 


mbl.is Lentum á vegg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þrútið lið af Þorramat,
þrekið löngu búið,
étið hafði á sig gat,
öllu trausti rúið.

Þorsteinn Briem, 17.1.2015 kl. 03:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband