Segulómun í gær út af "parkour" og "freerun"?

Ég fór í segulómskoðun í gær út af 35 ára gömlu meiðsli í sjöunda efsta hryggjarlið, eða neðsta hálslið, sem er farið að hrjá mig meira en áður síðustu mánuði. Það lýsir sér í vaxandi verkjum sem trufla svefn á næturna og hamla hreyfigetu og afli hægri handleggjar, þó ekki enn í það miklum mæli að það sé enn orðið bagalegt. 

Verstu hreyfingarnar eru raunar þær fínustu, einkum að skrifa og vélrita. Hugsanlega stefnir í aðgerð vegna þessara gömlu meiðsla, en vegna nálægðar við efsta hluta mænunnar hefur slíkt verið látið bíða hingað til og verður kannski að bíða enn um sinn.    

Kannski má flokka þetta meiðsli undir misheppnaða tilraun til að iðka "parkour" eða "freerun" og stundum hef ég sagt að framkvæmd á laginu "Sveitaball" hafi verið það hættulegasta sem ég hef tekið mér fyrir hendur um dagana.

Málavextir voru þeir að í síðasta erindi Sveitaballs á Sumargleðiskemmtun á Kirkjbæjarklaustri lék ég ofurölvi mann sem skjögrar á miklum hraða alveg fram á ystu brún sviðsins án þess að fara fram af, en falla síðan í gólfið með miklum látum. 

Þetta hafði ég gert mörg hundruð sinnum áður án vandkvæða. En í þetta sinn misreiknaði ég mig örlítið þannig að upp kom sekúndubrot þar sem fyrirsjáanlegt var að ég myndi fara fram af sviðinu.

Sviðið var óvenju hátt og á þessu örlagaríka sekúndubroti fannst mér ég geta farið heljarstökk fram af sviðinu. Það var fráleit ákvörðun, því að ég hafði aldrei á ævinni farið heljarstökk.

Stökkið misheppnaðist algerlega, ég komst aldrei nema helming þess og kom niður beint á hausinn.

Jón bróðir minn og Petra kona hans sátu á fremsta bekk og sögðu eftir á að þeim hefði ekki dottið annað í hug en að ég hálsbryti mig.

En ég slapp, þótt ég væri með nokkra verki í bakinu fyrstu vikurnar á eftir.

Liðu nú fimm ár og enn tók ég Sveitaball á nokkrum tugum skemmtana í Broadway og fór þá kollhnís aftur á bak á sviðinu í öll skiptin.

Þá hnykkti ég á fimm ára gömlu meiðsli og varð fyrir bragðið að fara í hálskraga og hætta keppni í ralli á miðju keppnistímabili og hef aldrei jafnað mig að fullu síðan, enda eru opin fyrir taugarnar út í handleggina klemmmd báðu megin á sjöunda hálslið. 

Þess vegna er hægt að segja, með hliðsjón af ummælum sjónarvotta 1979, að flutningur lagsins Sveitaball sé það hættulegasta sem ég hef gert um ævina.

Parkour og freerun eru augljóslega ekki hættulausar íþróttir, og fimleikar, skíðafimi og margt fleira er líka hættulegt. Allt slíkt kostar fyrirfram könnun á aðstæðum og getu, þjálfun og mat á "útreiknaðri áhættu".

Akstur í Formúlu eitt hefur kostað mörg mannslíf og örkuml, en þó slasaðist Mikael Schumacher sig lífshættulega á skíðum við svipaða iðkun og gengur og gerist.

Einn af þekktustu fjallgöngumönnum síðustu aldar slapp oft ævintýralega í fjallgöngum sínum, en endaði þó daga sína fjörgamall með því að hrasa á leið niður úr ræðustóli, hálsbrotnaði og dó.  

 


mbl.is Sumir hringja á lögguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Onaf sviði Ómar datt,
alveg fór í klessu,
upp á kom það engan flatt,
áttu von á þessu.

Þorsteinn Briem, 18.1.2015 kl. 17:10

2 Smámynd: Matthildur Jóhannsdóttir

Læknarnir segja síðan við mann: þú þarft að fara í aðgerð annars verður það verra þegar þú ert eldri.(Gamall læknir hvað veit hann?) En sem úng manneskja er það svo langt í burtu, að þú gerir það ekki, því það er bara og mikið að gerast á þessum tíma.   Mitt Parkol hét Judó. Og ég var 19 ára. Og ég hélt á niðurleiðinni að ég myndi hálsbrjóta mig. Þegar það varð ekki fannst mér allt annað ver ekkert. .... Núna get ég ekki þrifið veggi heima án vandamála. Við þurfum annsi mörg að ganga á veggi til að stoppa okkur. ;o)

Matthildur Jóhannsdóttir, 19.1.2015 kl. 08:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband