26.3.2007 | 23:31
ÞAÐ ER HÆGT AÐ SELJA ROK OG RIGNINGU
Margir standa í þeirri trú að útlendingar komi til Íslands til að vera í sól og hita. Þetta er misskilningur. Á ferð um vesturströnd Írlands komst ég að því að fólk sunnar úr Evrópu kom þangað til að standa í saltrokinu og rigningunni sem stóð af Atlantshafinu af því að það hafði ekki upplifað slíkt í heimalandi sínu, - fengið meira en nóg af sól og hita.
Fyrir nokkrum árum ákvað ferðaskrifstofa í Reykjavík að fella niður ferð út að Reykjanesvita vegna roks og rigningar. Hluti ferðamannanna sagðist ekki vera kominn til að fara í verslanir í Reykjavík og heimtaði að fá að fara út á Reykjanes.
Á bjargbrún við vitann stóð þetta fólk og tók yfir sig sælöður og regn þangað til það var orðið gegnvott og þegar það kom til Reykjavíkur urðu samferðamenn grútspældir yfir því að hafa ekki fengið að upplifa það að fá öldur Atlantshafsins allt sunnan frá Suðurskautslandinu beint yfir sig.
Á ráðstefnu um miðhálendið fyrir nokkrum árum stóð upp gamall Austfirðingur og sagðist hissa á því hvað menn sæu merkilegt við þetta margumtalaða hálendi. Hann vissi það eftir áratuga reynslu að eina leiðin til að fá útlendinga til að koma til Austurlands væri að fara með þá í Hallormsstaðaskóg!
Finnst mönnum líklegt að útlendingar komi langar leiðir hingað til lands frá skógi vöxnum svæðum Evrópu til að sjá þennan litla íslenska skóg?
Til Lapplands koma fleiri ferðamenn á veturna en allt árið til Íslands. Á þeim slóðum sögðu ferðamálasérfræðingar mér að útlendingum væru seld fjögur fyrirbrigði: Myrkur, kuldi, þögn og ósnortin náttúra.
Íslendingar fara til sólarlanda til að upplifa það sem ekki er hægt að upplifa hér á landi. Suðurlandabúar koma til Íslands til að upplifa eithvað allt annað en þeir þekkja í sínu landi.
Athugasemdir
Eitt er að sækja í snjó og frosthörkur sem vissulega sumir ferðamenn sækja í eins og í Lapplandi, en þar er líka mun staðviðrasamara en hér. Fólk veit hvað það kaupir þegar það fer þangað. En ef þú getur Ómar, markaðssett rokið og slagviðrið á Íslandi, t.d. á hálendinu þá eru öll markaðssetninga og frumkvölaverðlaun þér vís.
Ég er einn af þeim sem spyr gjarnan erlenda ferðamenn hérna; há dú jú læk æsland? Flestir eru auðvitað himinlifandi yfir landi og þjóð en einu skiptin sem veðrið lendir í lofrullu upptalningunni er þegar fólkið nefnir að veðrið hafi líka verið svo dásamlegt og að það hafi nú aldeilis verið bónus. Þá var ekki verið að tala um rok og slagviðri.
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.3.2007 kl. 23:58
Ég vil líka bæta því við að ef þú ætlar að selja erlendum ferðamönnum rok og slagviðri, þá fær það sól og blíðu. Ef þú hins vegar ætlar að selja þéim sól og blíðu, þá færðu slagviðrið.
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.3.2007 kl. 00:04
Reynsla mín er reyndar önnur. Fólk lætur sér veðrið að vísu lynda en þegar það svarar matslistum við brottför nefnir það oft að veður og verð hafi valdið því vonbrigðum. Að þessu sögðu verð ég (sem leiðsögumaður) að bæta við að ég á reyndar minningu um Hollending sem stóð uppi á hól í Mývatnssveitinni í hífandi roki og var alsæll. Það var hitabylgja heima hjá honum.
Almennt finnast mér farþegar mínir samt heldur beygðir yfir slagveðri þótt þeim sé sama um kuldann.
Berglind Steinsdóttir, 27.3.2007 kl. 00:18
Mér finnst þetta skemmtileg hlið sem þú ert hér að benda á Ómar. Ég er ekki frá því að mér hafi beinlínis orðið kalt á að hugsa um íslenska veðrið meðan ég rendi í gegnum textan.
Ég er enginn umhvefissinni eða meðlimur í þess háttar samtökum en tel þó að allir ættu ávallt að hafa meðalhóf í broddi fylkinga hvort sem menn eru með stóriðju eða á móti og með umhverfissinnum eða á móti.
Áfram Ísland!
Róbert Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 07:47
Það er virkilega erfitt að selja rok og rigningu. Ég held að enginn vilji beinlínis fara í frí til að vera í roki og rigningu.
Hins vegar er það svo að ferðamenn sem hingað koma verða fyrir veðurfarslegri upplifun sem oft er ólík því sem þeir áður hafa kynnst. Sem fagmenntaður leiðsögumaður til 19 ára, segir reynslan mér það að fólk sætti sig við rok og rigningu vegna þess að það er öðruvísi en það er vant. Því verra sem veðrið er, því meiri upplifun. Bretar til dæmis, kvarta sjaldan undan veðrinu enda sjálfir ýmsu vanir.
Hinsvegar getur vel verið að fólki þyki betra að vera hér í svölu lofti frekar en sumahitum í Evrópu eða í Bandaríkjunum.
Stefán Helgi Valsson, leiðsögumaður (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 09:31
Hver er meiningin með þessum pistli?
Eiga menn þá að sleppa stóriðju til að selja rok og rigningu. Heldur þú að mönnum hafi ekki dottið þetta í hug af því að Kárahnjúkar voru byggðir? Hvernig er hægt að setja saman rök sem ganga út á þá vitleysu að þeir sem vilji stóriðju geti ekki fengið hugmyndir.
Svo göngum við bara í þetta ómar og seljum rokið og rigninguna en er ekki alveg hægt að selja þá "auðlind" þá að álver sé á Húsavík. Fatta ekki þessi tengsl.
SIF (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 09:53
Ég er sammála Ómar. Eins og þú segir þetta virðast þetta svo einföld og augljós sannindi. Ég trúi því að fjöldi fólks sem er orðið leitt á sumarhitum og svita sunnar í álfunni vilji hressa sig aðeins við. En auðvitað er það líka rétt að sumir sem hingað koma verða fyrir vonbrigðum með rokið og rigninguna - en þeir komu heldur ekki á þeim forsendum að standa í slíku veðri. Tækifærið er fyrir ferðaskrifstofur að markaðssetja landið á nýjan hátt og fá fólk sem býst við "vondu" veðri.
Gunnlaugur Jónsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 09:56
Já það má örugglega selja rokið og rigninguna, án þess þó að það sé einhvað markmið út af fyrir sig. Staðreyndin er sú, að við getum alldrei treyst veðrinu fullkomnlega og því þyrftu að vera fleiri en eitt útspil í hverjum pakka ferðamannins, sem að tæki mið af veðri.
Þegar að við hjónin höfðum tíma til að taka okkur frí (þá vorurm við ekki í ferðaþjónustuinni sjálf) og vorum fjallahjólarar, þá hlustuðum við á veðurspána, daginn áður en að við lögðum upp í túr og tókum svo stefnuna, eftir vindátt og veðri. Þannig lukkaðist þetta vel, þar sem að landspartarnir fjórir fylgjast sjalnast að í veðri.
Þetta er það sem að ég segi erlendum ferðamönnum sem að eru að ferðast á eigin vegum um Ísland, að kíkja inn á netið á veðurspána og taka svo ákvörðun, tala nú ekki um af að það eru hjólarar.
En Ísland er land tækifæranna í ferðamennsku og huga mætti að því hvernig bæta mætti þjónustuna út á landi, sjoppumenningin er ennþá í algleymingi og veldur mörgum ferðamanninum miklum vonbrigðum. Hins vegar kunnum við ekki að selja aðgang að landinu okkar á réttann hátt, þ.e. menn geta valsað hér um á húsbílum og jafnvel flutt inn matinn með sér og lagt bílunum frítt hvar sem er og sofið. Þetta getum við Íslendingar svo sem líka, en við greiðum okkar skatta hér, sem að þetta fólk gerir ekki. Engin ástæða til að hafa þetta svona.
Nóg í bili, ég hugsa að ég komi til með að kjósa nýja flokkinn þinn og vona svo sannarlega að hugsjónirnar gleymist ekki þegar í valdastólana er komið.
G.Helga Ingadóttir, 27.3.2007 kl. 09:58
Ég hef starfað í 12 ár í ferðaþjónustu og er nú í námi í ferðamálafræði. Þeir ferðamenn sem ég hef verið með hafa ekki látið veðrið hafa mikið áhrif á sig. Eitt dæmi man´ég eftir þar sem franskur ferðamaður var frekar full út í veðurfarið á íslandi. Það var búið að vera hitabylgja í hans heimalandi og kom til íslands til að komast í kulda en hann lenti hé í sól og hitta allt að 25°C þetta fannst honum allt of heitt. Þetta var 12 daga ferð og hitinn fór aldrei niður fyrir 18°C Þetta var ekki það ísland sem hann vildi. Hann vildi kulda rok og rigningu. Þannig að við gætur markaðsett landið okkar á marga vegu. Náttúra og óútreiknalegt veðurfar.
Þórður Ingi Bjarnason, 27.3.2007 kl. 11:26
Ég hef nú aldrei heyrt annað eins rugl, selja rokið og rigninguna ! Hvað er gaman fyrir fólk að sitja í rútu eða bílaleigubíl eins og þessir stórhættulegu túristaandskotar keyra og mæn í þokuna sem yfirleitt er þegar rokið og rigningin á í hlut. Er þá til einhvers að vera með alla þessa umhverfisstefnu þegar ekki sést handa skil og ekki tangur né tetur af náttúrunni. Sé ekki alveg hvert þú ert að fara með þetta Ómar. Svo er ekki nema von að bretar kvarti aldrei, það er alltaf rok, rigning og þoka í Bretlandi.
Hilmar Ingi Ómarsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 11:33
Þessu vorum við "púkarnir" á Flateyri löngu búnir að "fatta uppá" fyrir meira en 40 árum. Við urðum okkur úti um sjógalla af feðrum eða ættingjum svo lítið bar á, dressuðum okkur upp í klofstígvél sjóstakka og sjóhatta og stylltum okkur upp milli steina í stórgrýtisfjörunni þar sem brimaldan skall á svo maður nötraði bara af höggunum. Þetta er kanski eitthvað sem mætti bjóða ferðamönnum uppá fyrir Vestan!
Jóhannes Einarsson, 27.3.2007 kl. 11:54
Hálsalónsstífla næsta megin tourist attraction Íslands?
Það er kannski hægt að selja einstökum sérvitringum vont veður (eins og rok og rigning er almennt skilgreint). Þegar ég hef farið með útlendinga um landið, þá er það einatt vonda veðrið sem skemmir fyrir og verður umkvörtunarefni. Það er ekki gaman að vera í laxveiði í roki og rigningu, eða fara Fjallabak syðri í roki og súld, þannig að varla er úti verandi og útsýnið ekkert. Venjulegt fólk er ekki mikið fyrir vosbúð, a.m.k. ekki eftir að hafa upplifað slíkt einu sinni; gott veður á íslenskan mælikvarða er hins vegar ágætis tilbreyting fyrir fólk sem kemur frá hlýrri slóðum.
Ef við ætlum að sækjast eftir efnuðum ferðamönnum í einhverju mæli, verður að byggja miklu betri aðstöðu til ferðamennsku en nú er og spurning hvort slíkt rúmist í huga þeirra sem aðhyllast öfgar í umhverfisvernd. Ferðamenn í þeim flokki vilja öryggi og lúxus, vilja geta skoðað helstu ferðmannastaði í makindum og notið afþreyingar þess á milli.
Ef við skoðum Niagra-fossa á landamærum Bandaríkjana og Kanada, þá er aðeins ferðamannaiðnaður Kanada-megin, því þeir byggðu á undan miklu betri aðstöðu; lúxus hótel, casínó og aðra afþreyingu. Bandaríkjamegin er svo ljótt og niðurnítt draugaþorp.
Athyglisvert er að ef listi yfir helstu undur veraldar, sem laða að ferðamenn eru skoðaður eru manngerð kennileiti í talsverðum meirihluta.
Ég er nokkuð viss um að Kárahnjúkavirkjun geti orðið ein af okkar aðal tourist attraction þegar fram líða stundir, ef horft er til hversu mannvirki af því tagi eru vinsæl sem slík um allan heim. Sem dæmi, þá koma u.þ.b. 40 milljónir ferðamanna (ca. 7 sinnum fleiri en til Hawaii til að skoða eldfjallagarða) á hverju ári til að skoða Hoover stífluna í Bandaríkjunum.
Sigurður J. (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 12:43
ERLENDIR FERÐAMENN koma hingað þrátt fyrir veðrið og sumir koma hingað VEGNA veðursins, stundum þegar gríðarlegar og mannskæðar hitabylgjur eru erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu, þar sem tugir þúsunda gamals og veikiburða fólks hafa fallið í valinn, nánast á hverju sumri undanfarin ár. Og slíkar hitabylgjur verða að öllum líkindum enn meiri og mannskæðari á næstu áratugum, því loftslag fer hitnandi í heiminum með vaxandi mengun, til dæmis í Bandaríkjunum.
Og þeir sem búa í Reykjavík geta þakkað það rokinu og rigningunni að þeir geta andað þar án þess að vera að kafna úr stórum vaxandi mengun frá sívaxandi bílaumferð. Sunnlenskt veðurfar er því stórkostlega mikils virði í peningum fyrir Reykvíkinga. Akureyringar eru ekki alveg eins heppnir með veður hvað mengun snertir, því þar er veðrið töluvert "betra" en í Reykjavík. Sama vers fyrir erlenda ferðamenn á þessum stöðum, að sjálfsögðu, og hér þarf ekki dýra loftkælingu á hótelherbergjum. Í kristindóminum í suðrinu er Helvíti heitt en í Ásatrú hér nyrðra er Hel kalt. Norðurljósin hafa einnig verið margseld hér og eru japanskir vísindamenn og ferðamenn sérlega hrifnir af þeim. Einnig er hægt að selja héðan vatn í stórum stíl, því meira en milljarð manna skortir vatn og vatn hefur verið selt héðan nú þegar. En stóriðjusinnarnir sjá enga möguleika í einu eða neinu, nema stóriðjunni!
Erlendir ferðmenn koma hingað aðallega vegna hreinnar og stórbrotinnar náttúru, náttúrufegurðar, óspilltra sjónlína víðernisins, fjarða, jökla, dala, hvera, fossa, fjalla, hvala, og allt þetta er, eða á að vera, sameign íslensku þjóðarinnar, eins og fiskurinn í sjónum. Þessi sameign er mörg þúsund milljarða króna virði, eins og fiskurinn sem er seldur út á hreinleika landsins og hafsins hér, og öll getum við fengið arðinn af öllum þessum auðlindum, auðlindarentuna, árlega með alls kyns hætti um ókomin ár, ef rétt er og skynsamlega á málum haldið.
En það gerum við ekki með stórvirkjunum, stóriðju og stórum raflínumöstrum út um allar koppagrundir, því slíkt spillir ferðaþjónustunni. Stóraukinn fjöldi ferðamanna og stóraukin stóriðja hér á sama tíma gengur því engan veginn upp. Slíkt er staðlaus óskhyggja. Það er meir en nóg af slíku í heimabyggðum ferðamanna og þeir koma hingað til að sjá aðra hluti. Slíkt er bara augljós staðreynd. Við getum lifað hér mjög góðu lífi á ferðaþjónustu, alls kyns annarri þjónustu, tæknigreinum, bættum samgöngum, lyfjaframleiðslu, fiskvinnslu, sölu á fiski um allan heim, smáiðju, meiri menntun, verslun og fiskveiðum, þar sem byggðarlögin sjálf úthluta aflakvótanum árlega fyrir þrisvar sinnum lægra verð en þeir eru seldir á nú, og hirða sjálf auðlindarentuna af sölunni. En að sjálfsögðu nyti öll þjóðin góðs af því.
Þannig gætu Vestmanneyingar greitt upp jarðgöng á milli lands og Eyja, 38 milljarða króna á 23 árum, fyrir sína eigin auðlindarentu. En nú er verið að leggja allar sjávarbyggðir landsins í rúst með núverandi kvótakerfi, sem 70% landsmanna vilja ekki sjá, og því á að "bjarga" með einu álveri! Hefur nokkur heyrt betri brandara?!
Steini Briem (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 14:18
Við getum lifað hér mjög góðu lífi á orkufrekum iðnaði þar sem byggðalögin sjálf taka ákvarðanir um slíkt, ferðaþjónustu, alls kyns annarri þjónustu, tæknigreinum, bættum samgöngum, lyfjaframleiðslu, orkuiðnaði, fiskvinnslu, sölu á fiski um allan heim, fjármálaþjónustu, smáiðju, meiri menntun, verslun og fiskveiðum, þar sem byggðarlögin sjálf úthluta aflakvótanum....
Bjarni M. (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 14:45
Hvernig er það, er ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi ekki láglaunaiðnaður? Hvernig getum við breytt því?
Bakvörðurinn (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 14:50
Þvílíkt rugl sem kemur alltaf frá þessum Steina Briem. Við færum fljótt á hausinn sem þjóðfélag ef svona fjallagrasahausar færu með völdin hér. Skv. þessum rökum væri Ísland best geymt sem eyðieyja norður í Ballarhafi, til að spilla ekki fyrir ferðamönnum. Hvaða truflandi áhrif hafa álverin tvö sem starfandi eru í landinu og tengd orkumannvirki haft á ferðamannaiðnað á Íslandi? Þetta getur allt unnið saman, það er staðreyndin sem blasir við öllu skynsömu fólki.
Það sem skiptir mestu í þessu landi er fólkið sem í því býr og að það hafi sem besta kosti til góðrar lífsafkomu, ekki bara á suð-vesturhorninu, heldur á sem flestum stöðum á landinu.
Nýting grænu orkunnar okkar er ekki til að bjarga sjávarútveginum, heldur til að leggja frekari stoðir undir atvinnulíf og þar með bæts mannlífs. Það myndu örugglega flestir segja að Norðmenn væru fávitar ef þeir tækju þá ákvörðun að hætta að leita og dæla eftir olíu - sama á við þegar okkar hreinu orkulindir eru annars vegar.
Fólk á Norðurlandi er búið að fá nóg af vonlausum draumóralausnum, sem marg búið er að sanna að ganga ekki upp. Það lítur nú til Austurlands, þar sem allt stefnir í að verði svæði með blómlegu atvinnulífi og þar með mannlífi, sem kemur til með að geta keppt við höfuðborgarsvæðið í flestu tilliti, eftir að öflug kjölfesta er komin á svæðið sem veitir skjól til ennfrekari uppbyggingar.
Sammála Sigurði J. hvað stífluna varðar; þarna er búið að breyta "gráu" svæði sem nær engin kom á nema fuglinn fljúgandi og Ómar á TF-FRU, í vænlegt svæði til að fara með ferðamenn á.
Maria Jónsdóttir (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 15:43
Selja Rok og Rigningu!!! þetta er bilun segi ég nú bara
Þetta minnir mig á gaurinn sem stóð út í hvirfilbyl með tómar flöskur og lét óveðrið "fylla" þær og lokaði með tappa. Fór síðan á Ebay og seldi rok úr þessum tiltekna hvirfilbyl hæstbjóðendum. Lét fylgja með link inn á myndband af sér að "fylla" á flöskunar!!
Allt er nú til hehehehe
Guðmundur H. Bragason, 27.3.2007 kl. 16:24
Það er eflaust alveg rétt hjá þér Ómar að hægt sé að selja einhverjum rokið og rigninguna. En verður ekki áfram nóg af roki og rigningu þó svo að Kárahnúkar séu virkjaðir og álveri komið upp á austurlandi, og hugsanlega Húsavík. Sé ekki að valið sé annaðhvort eða með þetta, ekki frekar en hvalaskoðun og hvalveiðar. Ég hitti bresk hjón á hóteli í Reykjavík s.l. haust. Í einhverju stuttu kursteisisspjalli við þau skildist mér að meginástæða fimm daga ferðar þeirra til Íslands væri sú að þau vonuðust til að sjá Norðurljós. Mér var nú hugsað til Einars Ben. En ég get ekki séð að Norðurljósin séu í hættu vegna Kárahnúkaframkvæmda eða annara virkjanaáforma frekar en rokið og rigningin. Við sem búum úti á landi, utan við alla ljósmengun höldum örugglega áfram að sjá þau annarslagið. En ég efast stórlega um að við getum lifað eingöngu á norðuljósum, roki og rigningu.
Vegna skrifa Steina Briem um að núverandi kvótakerfi sé að leggja allar sjávarbyggðir í rúst vil ég góðfúslega benda honum á hans eigin skrif á http://stebbifr.blog.is/blog/stebbifr/entry/156323/#comments frá 24.03.07. Á Dalvík er nánast enginn kvóti. Einnig bendi ég honum á að lesa nýjasta tölublað Ægis þar sem fjallað er um samhengi kvótans við fólksflóttan af landsbyggðinni. Þar er einnig að finna ágætis viðtöl við fiskverkendur á Dalvík. En þetta var útúrdúr sem á auðvitað lítið erindi inn á bloggsíðu Ómars frekar en bullið í Steina Briem og bið ég hlutaðeigandi afsökunar á því.
Friðrik Vilhelmsson (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 16:45
Hér er ég hjartanlega sammála þér Ómar. Við eigum að markaðssetja og selja ferðamönnum sérstöðu landsins, hvort sem það er rok og rigning, norðurljósin, hafgolan eða kyrrðin. Við þyrftum líka að selja sólardagana ansi dýrt ef þeir væru eina markaðsvaran
...
Hólmgeir Karlsson, 27.3.2007 kl. 18:24
Þetta er allveg ótrúleg umræða. Annaðhvort svart eða hvítt. Vissulega þarf að staldra við í virkjanamálum. Þarf ekki líka að gera það í ferðamannamálum?
Ég bý á vinsælum ferðamannastað. Ferðamenn nú til dags þurfa ákveðinn lágmarksaðbúnað til að njóta dvalar sinnar og skila arði í samfélagið.
Tökum dæmi um hvað ferðaiðnaðurinn krefst.
Greiðfærir vegir, ætlaðir öllum bílum. (það þíðir lítið að bjóða upp á rykuga vegi, holótta og illfæra, nema fáum ofurhugum, sem koma þá með allan sinn kost til dvalarinnar og eiða litlu, búa í sínum bílum og s.frv.)
Næg bílastæði og veitingasölu. Auðvitað líka sturtu og náðhús. Jafnvel gistingu. Svo þarf líka að losa sig við rusl. Hvar og hvernig á að urða þetta rusl. Hvað þá rusl sem kemur frá þjónustu við ferðamennina?
Það þarf að stýra umferð gangandi um svæðin. Göngustígar sem eru með slitlagi sem þægilegt er að ganga á og eru þrifalegir, þurfa að vera að helstu náttúruundrum.
Vernda þarf viðkvæm svæði fyrir of miklum átroðningi. Hvernig gerum við það?
Útsýnispallar, upplúsingarskilti, rafmagn til almennra nota og lýsingar,hiti og fl. Allt verður þetta manngerð "fyrirbrigði" í ósnortinni náttúru
Hvað er orðið um kyrrðina og fámennið á helstu ferðamannastöðum ef 6-800.000 manns koma þar á okkar stutta ferðamannatíma.
Hver eru þolmörk tiltekinna svæða? Íslensk náttúra er mjög viðkvæm gagnvart átroðningi. Hversu marga ferðamenn þolir hún?
Hvað mengar hver einstakur ferðamaður mikið við að koma sér hingað, dvelja og fara til baka.? Þarf ekki að taka tilit til mengunnar hnattrænt?
Það eru margar spurningar sem menn verða að spyrja sig og leitast við að svara áður enn menn auka ferðamannastraum hingað.
Ég legg til að menn dragi aðeins andann og hætti þessum fáránlega skotgrafarhernaði með eða móti. Það eru kostir og gallar við alla hluti.
Ólafur Þröstur (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 20:01
Ég er svo sammála þér Ómar, fólk hefur gaman að því að lenda í misjöfnu veðri og af því eigum við nóg. Skrítnar sumar athugasemdirnar hérna, þurfti að lesa aftur pistilinn til þess að fullvissa mig um að hann fjallaði hvorki um Kárahnjúka né aðrar virkjanir. Gangi ykkur vel í kosningabaráttunni.
Kolgrima, 27.3.2007 kl. 20:15
JÁ, ÞAÐ ER ALLT RUGL, nema það sem kemur frá ykkur stóriðjusinnunum, María Jónsdóttir. Það er ansi stór fjallagrasaiðnaðurinn hér á Íslandi, þar sem hann rúmar ferðaþjónustu, alls kyns aðra þjónustu, tæknigreinar, samgöngubætur, lyfjaframleiðslu, fiskvinnslu, sölu á fiski um allan heim, smáiðju, meiri menntun, verslun og fiskveiðar! Finnst þér þetta vera boðlegur málflutningur?! Eitt álver á Húsavík bjargar ekki allri landsbyggðinni og það veistu náttúrlega vel sjálf.
Friðrik Vilhelmsson, á að koma álver á Dalvík?! Þau byggðarlög sem hafa misst mikinn kvóta geta fengið auðlindarentuna af sölu aflakvóta Reykjavíkur en hún hefur nú 10% af heildaraflakvótanum í þorskígildum talið. Ef þessi kvóti er seldur fyrir þrisvar sinnum lægra verð en hann er seldur á nú gætu þessar byggðir fengið 1,8 milljarða króna á ári. Þær myndu nú ekki slá hendinni á móti því. Reykjavík fær hins vegar nú þegar mikinn arð af þjónustu við landsbyggðina. Ef þið viljið halda áfram að verja núverandi kvótakerfi vil ég benda ykkur á að 70% þjóðarinnar eru alfarið á móti því og það verður ekki við lýði mikið lengur. Og Vestmanneyingar myndu nú ekki slá hendinni á móti því að geta fjármagnað jarðgöng á milli lands og Eyja á 23 árum. Það þarf nýja hugsun í sjávarútvegi sem öðru hér en það er allt bull sem kemur frá öðrum en ykkur, enda þótt það sé að leggja landsbyggðina í rúst!
Steini Briem (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 20:45
ÁRSVERK í ferðaþjónustu hérlendis voru orðin um sjö þúsund talsins árið 2004 og síðasta aldarfjórðung hafa laun í ferðaþjónustunni verið hærri en almennt á vinnumarkaðinum, samkvæmt Hagfræðistofnun, sem vitnar þar í Hagstofu Íslands. Og með auknum fjölda erlendra ferðamanna hér geta launin í ferðaþjónustunni hækkað enn frekar, alveg eins og laun í áliðnaði geta hækkað með aukinni eftirspurn eftir áli.
Steini Briem (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 21:22
Selta og særok og sólskin laðar fólk til Hafnarfjarðar.
Verði Hafnarfjörður álbræðslubærinn á Íslandi munu fáir - sem eiga annarra kosta völ - vilja búa þar og enn færri leggja þangað leið sína ótilneyddir.
Hafnfirðingar kjósa um framtíð bæjarins á laugardag.
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 11:14
Heyrðu mig nú, Steini Briem, hvað er almennt á vinnumarkaðnum? Ég er reyndar ekki búin að vera á þeim markaði í aldarfjórðung en ég er búin að vera í ferðaþjónustunni í fimm ár og það er almennt talað um hana sem láglaunavettvang. Leiðsögumaður í hæsta flokki samkvæmt kjarasamningum (sem greitt er eftir) er með 1.450 kr. á tímann í dagvinnu (inni í þeirri tölu orlofslaun, fata-, bóka- og undirbúningsgjald) og maður heyrir þráfaldlega að unglingar sem steikja kjúklinga séu með það eða meira. Er það lygi?
Fyrirgefðu, Ómar, hvað maður er kominn út um víðan völl í athugasemdum við færsluna þína. Auðvitað vil ég veg ferðaþjónustunnar meiri og ég veit að einhverjir ferðamenn vilja misvindasamt veður en rétt eins og við getum ekki lofað sól í júlí þótt öll rök ættu að hníga til þess getum við heldur ekki lofað frosti í febrúar. Í besta falli getum við markaðssett og selt óvissuþáttinn. Svo væri auðvitað gott að vera með fagmenn að störfum sem kunna að bregðast við óvissunni ... Starf leiðsögumannsins hefur ekki fengist löggilt og á sumrin eru sendir út af örkinni ... ýmsir ... sem kunna lítið til verka.
Berglind Steinsdóttir, 28.3.2007 kl. 11:38
SÆL BERGLIND, þessi skýrsla Hagfræðistofnunar heitir Áhrif raungengis á ferðaþjónustu, er frá mars 2006, mikil að vöxtum og með umfangsmikilli heimildaskrá. Heimasíða Hagfræðistofnunar er www.ioes.hi.is og netfang ioes@hag.hi.is ef þú vilt kynna þér þetta betur en ég tók þessa tilvitnun í launin í ferðaþjónustunni orðrétt upp úr skýrslunni.


Laun í ferðaþjónustu fara eins og í öðrum greinum eftir starfi og þannig eru, samkvæmt launakönnun VR í fyrra, sem birtist meðal annars í VR-blaðinu, meðallaun í gestamóttöku um 220 þúsund krónur á mánuði, sem eru lægstu launin sem ég fann hjá þeim í ferðaþjónustunni. Meðallaun háskólamenntaðra ferðafræðinga voru um 280 þúsund krónur á mánuði, annarra ferðafræðinga um 250 þúsund krónur, í sölu í ferðaþjónustu um 240 þúsund krónur, í flugsamgöngum um 300 þúsund krónur og í samgöngum öðrum en flugsamgöngum um 290 þúsund krónur á mánuði. En ljóskur fá lægri laun, samkvæmt VR, þannig að þær geta alltaf farið í hárlitun eða rakað af sér allt hárið, eins og Britney spíran, til að bæta sín kjör, Berglind mín.
Ekki slógu Húsvíkingar nú á móti Reðursafninu en sjaldan launar kálfurinn ofeldið, eins og löggumaðurinn sagði, og nú heimta þeir álver í kaupbæti! Ég var í vikutíma á Dalvík um daginn og varð þar var við mikla reðuröfund í garð Húsvíkinga. Dalvíkingum finnst greinilega betra að veifa þar röngu tré en öngu, þar sem allir hugsandi menn vita að það er kvótakerfið sem er að leggja landsbyggðina í eyði, en ekki skortur á álverum. En mér er hlýtt til Dalvíkinga, spilaði með þeim fótbolta og varð með þeim Íslandsmeistari í boðhlaupi þegar sumir Dalvíkingar voru ennþá á sprellanum úti á túni og eru það greinilega enn, Friðrik minn Vilhelmsson. Á Húsavík málaði ég ekki fyrir margt löngu stórt einbýlishús á Stóragarði 15 og það væri flott ef einhverjir "atvinnulausir" Húsvíkingar myndu skella þar núna í helgidaga ef komnir eru.
En Húsvíkingar hafa góðan starfa af hvalaskoðun á sumrin, sem ráðherra nokkur hefur fullan hug á að eyðileggja fyrir þeim með því að leyfa hér hvalveiðar, enda þótt enginn sé hagurinn af þeim, og jafnvel Freiherr von Münchhausen sjálfur öfundar hann af heimskunni! Já, sumum finnst greinilega gott að láta rassskella sig, svo undan svíður í hvert skipti!
Steini Briem (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 14:00
Ég spurði bandarískan ferðamálaprófessor, konu, fyrir nokkrum árum að því hvaða hluta ferðamanna fjölgaði mest. Hún sagði að það væri svonefnd upplifunarferðamennska sem mætti lýsa með setningunni: "Get your hands dirty and feet wet."
Í þessu fólst ekki að allir ferðamenn hugsuðu svona heldur það að þarna væri vaxtarbroddur í ferðamennskunni.
Breskur blaðamaður sem kom til landsins fyrir allmörgum árum yfir jól og áramót skrifaði í blað sitt í Bretlandi að það sem hefði heillað hann mest hefði verið þessi ótrúlega þráláti og magnaði íslenski skafrenningur.
Ómar Ragnarsson, 29.3.2007 kl. 00:53
Já, það er margt skrítið fólk til, sem gerir lífið bara skemmtilegra.
María J. (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 01:05
SKRÍTNASTA FÓLKIÐ í veröldinni býr í túngarðinum hér heima og Ómar hefur sótt margt af því heim á undanförnum áratugum, til dæmis Gísla gamla á Grund. Ekki hefðu nú erlendir ferðamenn slegið hendinni á móti því að fá að berja augum þann merka mann og hans lifnaðarhætti alla. Það hefðu nú verið sögur til næsta bæjar fyrir þá að segja í þeirra heimabyggð. En annar Gísli hefur nú tekið við af Ómari í því atriði að heilsa upp á skrítið og skemmtilegt fólk í þessu landi og þannig gengur allt í hringi.
Vestur-Íslendingar í Bandaríkjunum og Kanada, sem eru jafnmargir og jafnskrítnir okkur, eru allir æstir í að koma hingað sem oftast til að sjá "gamla landið", heilsa upp á ættingja sína hér og læra jafnvel eitthvað í málinu, en það er í tísku hjá ungum Vestur-Íslendingum. Í Bandaríkjunum er nú ræktað mikið af íslensku fé, margir koma hingað til að kíkja á það, og slíkt hefði nú glatt Bjart í Sumarhúsum. Bæði Bandaríkjamenn og Evrópubúar koma hingað í stórum stíl til að kaupa íslenska hesta og ríða út, og slíkt hefði nú einhvern tíma þótt undur og stórmerki. Flestir Vestur-Íslendingarnir heimsækja Vesturfarasetrið á Hofsósi, líkt og Frakkarnir sækja Fáskrúðsfjörð heim. Og öllum þykir ferðamönnunum vert að líta hér á örsmáa Alþingishúsið okkar og fræðast í leiðinni um sögu elstu og furðulegustu löggjafarsamkundu í öllum heiminum.
Með sífellt vaxandi fólksfjölda og velmegun í heiminum fer stórum fjölgandi ríku og skrítnu fólki, sem langar að berja okkur furðulega fólkið hér augum, heilsa upp á galdramenn fyrir vestan, álfa í Hafnarfirði, tröll í Svarfaðardal og drauga á Stokkseyri. Meira að segja Framsóknarflokkurinn á hér drauga-agenta á Suðurlandi.
Og ekki slá erlendu ferðamennirnir heldur hendinni á móti því að fara hér í berjamó og fjallgöngur í ágúst, göngur og réttir í september. Norðurljósa- og stjörnuskoðun er vinsæl, einnig hangiketsát á jólum á veitingahúsum, dans með álfum og tröllum á áramótum og þrettánda. Jólasveinarnir stórskrítnir og vinsælir eftir því, enda mun fleiri afbrigði af þeim hér en í erlendum byggðum. En langfurðulegast af öllu er þó flugeldamanían sem grípur hér um sig á gamlárskvöld. Hún er sko saga til næsta bæjar hvar sem er í veröldinni!
Sífellt fleiri heljarinnar skemmtiferðaskip koma hingað á hverju sumri með þúsundir af alls kyns ríkum furðufuglum hvaðanæva að úr heiminum sem ryksjúga upp rándýrar íslenskar lopapeysur og alls kyns minjagripi í Reykjavík og á Akureyri, skreppa á Þingvelli, að Gullfossi, Geysi og í Mývatnssveitina í leiðinni, oft með leigubílum. Og ferðaþjónustan hér hefur ekki við að hirða upp allar evrurnar og dollarana eftir alla þessa furðufugla, sem tækju ekki einu sinni eftir að hafa tapað hundrað milljónum á einni nóttu, nema þeim væri vinsamlegast bent á það.
Steini Briem (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 03:31
Hvernig stendur á því að svona fáir ferðamenn koma til Íslands ef það er svona auðvelt að selja þeim rok, rigningu og hríðarveður. Svo vil ég benda ykkur á að það eru nýkomnar gistitölur sem sýna að gestum á hótelum og gististöðum hefur fækkað heilmikið á norðurlandi og ekki eru nú mengandi álver að trufla á því svæðinu
Bjarnveig Ingvadóttir, 31.3.2007 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.