21.1.2015 | 00:25
Hinn nýi veruleiki í tilveru listamanna.
Hinn nýi veruleiki í heimi listamanna blasir við bæði Björk, Madonnu og öðru tónlistar- og kvikmyndagerðarfólki.
Plötum og kvikmyndum er "lekið" á netið og niðurhalað á netinu út um allar koppagrundir, þannig að hin gamla fjáröflunarleið listamanna að fá endurgjald fyrir kostnað og vinnu sem fylgir slíkum verkum með sölu platna og sýningum í bíóum og í sjónvarpi er að hverfa hratt og miskunnarlaust.
Það er talið sjálfsagt og eðlilegt að efninu sé ýmist "lekið" eða það hreinlega tekið traustataki án endurgjalds, - nú, eða þá að fyrirtæki, sem ekkert komu nálægt gerð efnisins, græði á því að dreifa því á netinu, oft án þess að listamaðurinn fái neitt í sinn hlut.
Þetta gerist líka vegna þess að svo virðist sem það sé afar algengt viðhorf meðal almennings, að listafólk sé ekki "vinnandi fólk" og "skapi atvinnu", heldur hent á lofti ummæli eins og "lattelepjandi kaffilhúsalýður", "ónytjungar", "afætur" og "það getur hver sem er farið út í bílskúr og tekið upp eitthvern söng og glamur á gítar."
Í umræðuþætti um þetta fyrirbæri á einni útvarpsstöðvanna var yfirgnæfandi hluti í viðhorfskönnun á þessari eða svipaðri skoðun, svo sem að listamenn ættu ekki skilið að fá neitt í sinn hlut af veltunni í kringum tónlist á netinu.
Þótt upplýst sé að milljarða velta sé nú til komin vegna framlags skapandi listgreina bæði hér og erlendis og að þetta sé orðin gjaldeyrisskapandi atvinnugrein, virðist það ekki breyta neinu. Þetta er hinn nýi veruleiki, sem listafólk verður að horfast í augu við og finna svör við. Aðrir munu ekki gera það fyrir það.
Plötu Bjarkar lekið á netið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Vel mælt/skrifað. En ég ætla að nota þennan farveg til að senda þér, og gömlum kórfélögum í MR 60 boð um að koma í Gerðubergskórinn, sem ég hef stjórnað í rúm 20 ár. Það er ekkert kórgjald og aðeins ferðakostnaður stöku sinnum, þegar við syngjum fyrir fólk. Æfingar eru mánudaga og föstudaga klukkan 14:30 og þegar við syngjum annars staðar er það oftast á föstudögum, og þá mætt fyrr eftir atvikum.
Þið MR 60 félagar mundu verða drjúgur hluti af kórnum, velkomin viðbót og styrkur fyrir okkur og gæfi ykkur skólafélögunum tækifæri á að hittast reglulega.
Ef þú ert hrifinn að hugmyndinni,gætir þú þá ekki haft samband við félaga þína í kórnum ?
Virðingarfyllst, Kári Friðriksson, sími 6910665
Til að gylla þetta aðeins: Nýjustu lögin sem ég útsetti fyrir kórinn eru Ást og Þannig týnist tíminn.....
Kári Friðriksson, 21.1.2015 kl. 00:53
Skapandi greinar hér á Íslandi veltu 189 milljörðum króna árið 2009, útflutningstekjur þeirra voru þá 24 milljarðar króna og ársverk voru 9.371.
Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina - Maí 2011
Þorsteinn Briem, 21.1.2015 kl. 04:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.