Kynslóðabil, sígilt fyrirbæri.

Kynslóðabil er vafalítið eitt þekktasta og algildasta fyrirbærið í menningu þjóða. 

Frank Sinatra sagði í upphafi ferils Elvis Presley, að tónlist hans væri viðbjóðsleg.

Bono sagði það sama um tónlist ABBA. Át það hraustlega ofan í sig 20 árum síðar.  

Eitthvað voru þeir Bubbi og Bo ósammmála um hlutina hér um árið en héldu þó saman tónleika nýlega. 

Í skoðanakönnun meðal skólanemenda upp úr 1950 fékk Haukur Morthens flest atkvæði sem merkasti maður heims, og Kristur og Jón Sigurðsson áttu ekki séns í Hauk. 

Í dag myndu flestir um fermingu gata á því hver Haukur Morthens hefði verið. 

Hermann Gunnarsson fékk létt sjokk 1994 þegar strákarnir á 800 stráka pollamóti á Sauðarkróki höfðu ekki minnstu hugmynd um að Hemmi hefði spilað knattspyrnu, hvað þá sem landsliðsmaður. 

Ég spurði Hemma hvort hann vissi hver Garðar Gíslason hefði verið og fyrir hvað hann hefði orðið þekktastur.

"Heildsali" svaraði Hemmi. 

"Nei, Hemmi minn, hann var besti spretthlaupari Íslands á fjórða áratugnum og Íslandsmethafi í 100 metra hlaupi", svaraði ég. 

"Hvernig á ég að vita það. Ég var ekki fæddur þá", sagði Hemmi. 

"Og strákarnir hérna voru líka ófæddir þegar þú varst í boltanum", svaraði ég.

Fyrir um tuttugu árum voru margir unglingar yfir sig hrifnir af Bogomil Font.

"Það eru svo flott lögin og textarnir sem hann hefur samið" sagði einn við pabba sinn, þegar hann kom að syni sínum við að hlusta á lagið "Pabbi kýs mambó."

"En hann gerði hvorki lögin né textana" sagði faðirinn.

"Nú, hver gerði það?" spurði strákurinn.

"Loftur Guðmundsson gerði suma, til dæmis þennan sem þú ert að hlusta á."

"Hver var Loftur Guðmundsson?"

"Hann var blaðamaður fyrir meira en 40 árum. Þetta er 40 ára gamalt lag, sem þér finnst svona flott." 

Það var létt sjokk fyrir drenginn að fá að vita að þessi "spánýju" lög væru lög afa og ömmmu. 

"En Bogomil Font er flottur", segir hann loks. 

"Hann heitir ekki Bogomil Font. Það er listamannsnafn."

"Hvað heitir hann þá?"

"Sigtryggur Baldursson." 


mbl.is Þekktu hvorki Wu Tang Clan né Prodigy
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon


Hundrað prósent ég hef sýnt
heiðarleika, glaður.
Talinn að vera telst nú fínt,
tíu prósent maður!

Þjóðólfur bóndi

http://www.dv.is/frettir/2015/1/20/rikustu-tiu-prosent-islenskra-skattgreidenda-eiga-um-73-prosent-alls-auds/

Þjóðólfur bóndi (IP-tala skráð) 21.1.2015 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband