22.1.2015 | 11:12
Ekki í fyrsta sinn að fjárútlát eru "falin" hjá Gæslunni.
Á yfirborðinu ríkir sú stefna stjórnvalda að fjölga opinberum störfum úti á landsbyggðinni. En í raun ríkir stjórnleysi þar sem vinstri höndin tekur meira til sín en sú hægri gefur af því að yfirsýnin skortir og þessi sömu stjórnvöld eru búin er að losa svo um tökin á opinberum rekstri með stofnun opinberra hlutafélaga að ekki ræðst neitt við neitt.
Ráðist er með offorsi í vanhugsaðar fljótræðisaðgerðir á borð við flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar sem bitna á tugum starfsfólks með stórfelldri röskun á stöðu og högum þess auk þess sem viðkomandi stofnun er lömuð árum saman eftir flutninginn, samanber flutning Landmælinga Íslands upp á Akranes á sínum tíma, sem lamaði reksturinn í fimm ár.
Á sama tíma er það látið afskiptalaust hvernig störf eru lögð niður úti á landi og þau flutt til Reykjavíkur oft með hókus pókus aðferðum.
Þegar litið er á kort yfir flugvelli á Íslandi sést glögglega að þeim er þannig raðað niður að Akureyrarflugvöllur liggur mun betur við þessu neti vallanna til flugmælinga en Reykjavík.
Auk þess hefði maður haldið að útboð væru besta leiðin til þess að laða fram sem besta hagkvæmni.
En hér gildir hins vegar fyrirbæri sem maður kynntist vel hjá opinberri stofnnun í gamla daga, að öllu skipti stundum í huga yfirmanna úr hvaða "skúffu" fjármunirnir komu en ekki hvað verkefnið kostaði.
"Hesturinn ber ekki það sem ég ber" sagði karlinn, þegar hann sat á hestinum með poka á baki sér í stað þess að reiða hann fyrir framan sig á baki hestsins.
Í því tilfelli hér um árið, sem ég vitna til, taldi yfirmaður minn nauðsynlegt að gera sjónvarpsþátt sem kostaði ekki krónu! Þetta væri nauðsynlegt til að sýna fram á hvað hans deild, FFD, væri miklu betur rekin en "hin deildin", LSD, Lista- og skemmtideild.
Það gerði hann þannig, að þátturinn fjallaði um vitavörðinn á Hornbjargsvita og yrði á dagskrá sama kvöld og hneykslanlega rándýr mynd á vegum LSD um Lénharð fógeta !
Hann fól mér að gera þáttinn af því að mín laun voru færð sem laun íþróttafréttaritara!
Jú, farið var fljúgandi til Ísafjarðar á FRÚnni til þess að finna með erfiðismunum eitthvað smá íþróttatengt efni til að fjalla um og myndi kostnaður við þetta flug skrifast á íþróttir í Sjónvarpinu. Á Ísafirði færum við með varðskipi til Hornbjargsvita og síðan aftur með varðskipi til baka til Ísafjarðar og þaðan beint til Reykjavíkur á kostnað íþróttaumfjöllunar í sjónvarpi.
Í sjónvarpinu yrði þátturinn unninn á vinnutíma íþróttafréttamannsins og kostnaðurinn falinn í þeirri "skúffu" og öðrum skúffum Sjónvarpsins, svo sem hjá framköllunardeildinni og víðar!
Þátturinn um vitavörðinn á Hornbjargsvita myndi ekki kosta eina einustu krónu!
Höfuðatriði væri að ekki færi króna í mat eða gistingu.
En minnstu munaði að öll fléttan félli á fjórum kjúklingjum frá Aski, sem ég neyddist til að kaupa fyrir ferðina, af því að últra hægri sinnaður kvikmyndatökumaðurinn neitaði á síðustu stundu að láta yfirlýstan kommúnista á Hornbjargsvita brasa ofan í sig á meðan við dveldumst þar ókeypis !
Þetta sýnir að Landhelgisgæslan er ekki í fyrsta sinn notuð til þess að fela hinn raunverulega kostnað við fjárútlát, fjárútlát sem fyrir bragðið verða jafnvel meiri en ella hefði orðið. Og skattgreiðendur um allt land borga.
Störf flutt frá Akureyri til Reykjavíkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/20/hopurinn_leystur_upp_fyrirvaralaust/
samhengi?
Mýflug komið í ónáð há Ísavia?
ls (IP-tala skráð) 22.1.2015 kl. 11:35
Hvað verður þá um Jackie og börnin?
Þorsteinn Briem, 22.1.2015 kl. 11:58
Ég er nokk viss að öllum finnist þetta ekki jafn fyndið og Steina.
ls (IP-tala skráð) 22.1.2015 kl. 13:43
Flugmenn geta fengið vinnu og flutt á milli landshluta eins og þúsundir annarra manna hafa gert hér á Íslandi, hvað þá nokkrir menn.
Halda ætti að Mývatnssveit sé að fara í eyði.
Þangað flytja menn og aðrir flytja þaðan eins og í öðrum landshlutum.
Nokkrir flugmenn eru að verða eins og heill grátkór útgerðarmanna.
Mun meira mál að flytja stóra stofnun frá Hafnarfirði til Akureyrar.
Þorsteinn Briem, 22.1.2015 kl. 14:19
Halda mætti að Mývatnssveit sé að fara í eyði, átti þetta nú að vera.
Þar hefur verið mikill uppgangur í ferðaþjónustunni eins og annars staðar á landinu og millilandaflugið blómstrar.
Veltiár.
Þorsteinn Briem, 22.1.2015 kl. 14:31
Höfuð umsvif Mýflugs eru á Akureyri, ekki í Mývatnssveit.
Ómar Ragnarsson, 22.1.2015 kl. 19:33
Höfuðstöðvar Mýflugs eru í Mývatnssveit og flytja á Fiskistofu til Akureyrar.
Þorsteinn Briem, 22.1.2015 kl. 19:46
"Mýflug hf. Reykjahlíðarflugvelli, Mývatnssveit."
"Flugfélagið Mýflug hf. var stofnað 7. apríl 1985 með það að markmiði að bjóða upp á útsýnis-, leiguflug og flugkennslu út frá Reykjahlíð við Mývatn og var þetta nýja flugfélag nefnt Mýflug."
Og miklu meira að gera í ferðaþjónustunni í Mývatnssveit nú en árið 1985.
Þorsteinn Briem, 22.1.2015 kl. 20:05
"Um sjötíu manns starfa hjá Fiskistofu og er stefnt að því flutningurinn verði að fullu afstaðinn í lok árs 2015 en þetta er stærsti flutningur ríkisstofnunar á milli landshluta hingað til."
Þorsteinn Briem, 22.1.2015 kl. 20:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.