Metrugl ?

Stutt frétt á mbl.is í kvöld inniheldur sennilega metrugl, þ. e. fleiri villur miðað við lengd texta en lengi hefur sést. Setjum númer á þær. 

1. Strax í fyrirsögninni er villa, sem fór um fjölmiðla í kvöld. "Árekstur í Hveradalsbrekku." Bull. Það er engin Hveradalsbrekka til á Reykjanesskaga og heldur enginn Hveradalur. Hins vegar eru Hveradalir til og skíðaskáli er þar sem og brekka, sem kennd eru við Hveradali.

2. Sagt er að Hveradalsbrekka sé ofan við Hveragerði. Það er steypa. Í fyrsta lagi er engin Hveradalsbrekka til eins og áður sagði og í öðru lagi eru Hveradalir og brekkan við þá hinum megin, á vesturjaðri Hellisheiðar, þrettán kílómetra frá Hveragerði. 

3. Birt er mynd af brekku með textanum "af Hellisheiði". Það er bull. Brekkan er Draugahlíðarbrekka við Litlu kaffistofuna og sést yfir flatneskjuna vestan við Svínahraun en á henni eru Fóelluvötn og Sandskeið, fjarri Hellisheiði. 

4. Ég sá fyrr í kvöld einhvers staðar á prenti að áreksturinn hefði orðið í Hveradalsbrekkku í Kömbunum, sem er auðvitað enn eitt bullið, því að Kambar eru fyrir ofan Hveragerði, Hveradalsbrekka ekki til, og Hveradalabrekka er hinum megin við Hellisheiði, 10 kílómetrum frá Kömbum. 

Áður hafa birst fréttir þar sem Sandskeið var fært upp að Litlu kaffistofunni, Reykjadalur í Þingeyjarsýslu færður austur fyrir Mývatn, Fimmvörðuhálsi skutlað norður á Fjallabaksleið syðri og Eldhraun fært vestur yfir Kúðafljót að Hrífunesi.  


mbl.is Harkalegur árekstur í Hveradalsbrekku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Litlar sem engar kröfur eru gerðar til blaðamanna um þekkingu á landinu okkar. Stundum fáránlegar lýsingar á stöðum hér eystra... öllu ruglað saman. Enginn metnaður en oft þarf ekki nema eitt lítið gúggl til að hafa þetta rétt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.1.2015 kl. 23:31

2 identicon

Hvað er steypa? nær að segja að það sé vitleysa

XXX (IP-tala skráð) 25.1.2015 kl. 04:25

3 identicon

Sæll Ómar

Ruglið í örnefnum er oft mikið.

Ég sé að þú nefnir Reykjanesskagann rétt.

Þ.e. að mínu viti.

Það er t.d. alltaf verið að nefna skagann Reykjanes og meira að segja búið að skíra stæðsta sveitafélagið Reykjanesbæ.

Ég veit að að þú veist að Reykjanesið en náttúrulega nesið sem sem gengur suð-vestur af skaganum og hvað? Er það þá Reykjanesið á Reykjanesinu?

Það er ekki öll vitleysan eins en þegar margir syngja saman á fölskum nótum, hvernig er þá hægt að snúa dæminu á réttan tón?

Nema með því að gera það sem þú gerir, að vekja fólk til umhugsunar með þessum frábæru skrifum þínum.

Enn og aftur.

Takk, takk, takk................

kv. Bjössi

Björn Jóhann Guðjohnsen (IP-tala skráð) 25.1.2015 kl. 04:56

4 Smámynd: Þórir Kjartansson

Þegar horft er á spurningaþætti í sjónvarpinu er maður dolfallinn  á því hvað fólkið sem þar tekur þátt getur vitað nánast allt milli himins og jarðar.  En oftar en ekki verður þessum vitringum svarafátt ef eitthvað er spurt um landafræði Íslands. Það er meira en lítið undarlegt.

Þórir Kjartansson, 25.1.2015 kl. 09:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband