Sumir velja sér slæma ráðgjafa.

Það er vafalaust rétt að góðir ráðgjafar geti oft reynst gulli betri. Um það geymir sagan mörg dæmi.

Eitt þessara dæma er sú hugmynd sem nokkrir ráðgjafar Harry S. Trumans lögðu til eftir að hann tók óvænt og óundirbúinn við embætti Bandaríkjaforseta 12. apríl 1945, að best væri að knésetja Japani með því að varpa fyrstu kjarnorkusprengjunni á Kyoto vegna þess að sú borg væri svo sérstaklega mikilvæg í hugum Japana, að japönsku þjóðinni myndi falla allur ketill í eld og gefast samstundis upp. 

Einnig ætti ekki að taka annað í mál en að fangelsa Japanskeisara og draga hann fyrir dóm fyrir stríðsglæpi. Það væri í samræmi við það aðalatriði fyrir uppjöf Japana að hún yrði skilyrðislaus. 

Sem betur fór hlustaði Truman betur á ráðgjafa með betri yfirsýn, þekkingu og framsýni og eyddi ekki Kyoto, en það hefði verið fáheyrt gerræði gegn borg ómetanlegra menningarminja og helgs gildis í augum Japana, auk þess sem borgin hafði enga beina hernaðarlega þýðingu. 

Eyðing Kyoto hefði haft þveröfug áhrif á Japani og raunar umheiminn, sem aldrei hefðu geta fyrirgefið slíkt ódæðisverk. 

Svipað var að segja um keisarann sem hafði einstakt trúarlegt gildi og helgi í augum þjóðarinnar sem Vesturlandabúar eiga erfitt með að skilja. Hugsanlega hefði verið hægt að komast hjá beitingu kjarnorkuvopnanna ef strax hefði fallið frá kröfunni um fangelsun keisarans og dóms yfir honum.

Raunar var það keisarinn sjálfur sem tók af skarið og bauð uppgjöf, þegar borgir landsins stóðu í ljósum logum með mannfalli meðal almennra borgara sem skipti hundruðum þúsunda á hverjum degi.

Það er gott að eiga góða ráðgjafa en verra er þegar menn beinlínis laða að sér vonda ráðgjafa eða vilja hafa þá sem harðdrægasta. Þegar horft er á gjörðir sumra ráðamenna bæði hér á landi og erlendis er engu líkara en að svo sé.

Einkum er þar um að ræða ráðríka valdamenn sem búa til það ástand meðal fylgismanna sinna og aðstoðarmanna, að sá þeirra nær mestum frama sem smjaðrar mest fyrir foringjanum sem forðast að gagnrýna hann og mælir upp í honum offors og ofurkapp.

Í hugann kemur einn af helstu stjórnmálaforingjum þjóðarinnar á fyrri hluta síðustu aldar sem oft var afar harðskeyttur og jafnvel ófyrirleitinn og hefði þurft á eiginkonu að halda sem hefði mildandi áhrif á hann þegar hann fór fram úr sér. En því var víst þveröfugt farið. 

Að lokum var þessum stjórnmálamanni ýtt til hliðar af eigin flokksmönnum.

Tveir ráðherrar veittu mér harðar ákúrur og voru með alvarlegar ásakanir í minn garð fyrir 15 árum. Ég sagði þeim báðum frá því að ítarleg rannsókn á þessum sakarefnum á vegum þáverandi útvarpsráðs hefði sýnt fram á að ásakanirnar hefðu ekki við rök að styðjast. 

Annar ráðherrann hlustaði á mig og viðurkenndi að þetta væri víst rétt hjá mér. En bætti síðan við brosandi: "Jæja, fyrst svo er, látum svo vera, - en vertu nú þægur." 

Hinn ráðherrann færðist allur í aukana í löngum reiðilestri sínum yfir bæði mér og kvikmyndatökumanninnum, sem var með mér, hnykkti á ásökununum, sagði að ég og mitt samstarfsfólk værum óalandi og óferjandi, og endaði með því að segja að annað segðu hans heimildarmenn honum og að hann tæki mark á þeim en ekki mér. 

Þegar ég gekk af fundi hans hugsaði ég með mér: "Mikið óskaplega hefur þessi maður valið sér slæma ráðgjafa. Og enn verra er ef hann vill hafa þá svona."  


mbl.is Myndi alltaf ráða sér ráðgjafa í krísu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband