28.1.2015 | 11:17
Samtíminn espar upp óþol og óánægju.
Tólf prósent eru afar stór og alvarleg tala ef hún gengur í gegnum alla aldursflokka frá efsta bekk grunnskóla til æviloka og felur í sér þá sem sjá ekkert nema vonleysi og svartnætti framundan.
Hún er enn alvarlegri tala en ella vegna þess að um er að ræða þá kynslóð, sem maður hefði haldið að lifði við betri kjör og möguleika en nokkur önnur á undan henni.
Lang líklegasta svarið við spurningunni um það, hvers vegna þetta sé svona, er sú, að búið sé að kynda undir slíkar væntingar og kröfur hjá þessari kynslóð um gull og græna skóga, að hún fyllist vonleysi og óhamingju við tilhugsunina um að fá þessar óskir ekki uppfylltar.
Það er eitthvað mikið að í grunnhugsun nútíma neyslusamfélags, þegar árangurinn er þessi.
Á unglingsárum eru einstaklingarnir viðkvæmir, óvissir um sjálfa sig og framtíð sína.
Þótt flestir njóti fræðslu um göfugar kenningar í siðfræði, heimspeki og trúarbrögðum, svo sem um gildi hógværðarinnar og trúmennskunnar, drukknar slíkt í stanslausri síbylju og áreiti auglýsinga og áróðurs sem allur miðar að því að skapa sem mestar kröfur og þarfir, sem byggjast á efnislegum gæðum, oftast án innihalds.
Þessi eina síbyljusetning "ekki missa af!" gerir lítið annað en að skapa óánægju, óþol og óróa, því að í langflestum tilfellum er það aðeins lítill hluti almennings sem getur veitt sér öll þau ósköp sem sífellt er verið er að telja fólki trú um að það megi ekki missa af.
Hvergi valda svona auglýsingar meiri óánægju en á landsbyggðinni þar sem hún minnir fólk stanslaust og daglega á það að það sé að missa af svo miklu í lífinu bara vegna þess að það á ekki heima á því landssvæði þar sem hægt á að vera að öðlast öll þau lífsgæði, sem eiga að vera svo ómissandi.
Hvenær heyrum við auglýsingar um gildi þess að "stinga af", að njóta næðis og kyrrðar og samfélags við sína nánustu? Að una glaður við sitt?
Hve oft eru þuldar auglýsingar um að þau gæði séu einmitt það sem við megum ekki missa af?
Guðmundur G. Þórarinsson og Styrmir Gunnarsson hafa nýlega lýst þeirri brotalöm okkar samfélags sem felst í ofuráherslu á því að hafa og eiga á kostnað þess að vera.
Það er mergurinn málsins.
Fleiri telja framtíðina vonlausa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góð hugleiðing hjá þér Ómar-eins og svo oft áður.
Við þessi sem erum fædd 1938 þegar heimskreppan var hvað hörðust á Íslandi og fjöldinn bjó við afar kröpp kjör- höfum lifað tímana - ekki bara tvenna- heldur mjög marga nú þegar síðasti hluti hérvistar er að renna sitt skeið.
Að hafa húsnæði,mat og að hafa einhverja atvinnu voru mestu gæðin.
Krakkar voru sendir í sveit til að létta á heimilum og um 12 ára aldurinn var lögð áhersla á sumarvinnu- hvað sem bauðst- oftast tengt fiskvinnu og síðar tengt höfninni hér í Reykjavík.
Engin námslán voru fyrir menntun eftir skyldunámið.
Það varð því að safna yfir sumarið og eða eiga efnaða foreldra sem gátu stutt við nám.
Langflestur fóru í einhverskonar iðnnám undir tvítugt þar sem þá voru verkamannalaun í boði - en iðnskólinn kostaður af eigin fé.
Og þegar koma að stofnun fjölskyldu var hugsjónin að komast í húsnæði með því að byggja sjálfur með gríðarlegri vinnu.
Þetta gerði allur fjöldinn- það var hugljómun ungafólksins.
Og þetta gekk yfirleitt.
Bíll var síðast í röðinni og heimilistæki sem enginn getur nú án verið.
Og við sem þjóð verðum smá saman efnuð og eignumst allt sem hug girnist -og lánakerfið tekur við af ofurvinnuframlaginu hér áður. Þetta verður að kerfi allra.
Eftir skyldunám fer unga fólkið á námslán í um 10 ár og það gerir kröfur um góðan bíl og á lánum. Og þegar stofnað er heimili taka lánin við fyrir alvöru....íbúðin verður að vera tipp topp með öllu. Ekkert eigið vinnuframlag utan venjulegrar vinnu frá 8-17 virka daga.
Þetta er tíðarandinn og kröfurnar sem standa þarf undir....
Og ungafólkið fyllist vonleysis gagnvart ofureflinu...
Og króna okkar leikur fólkið grátt þegar lán eru megin tilvera ungs fólks.
Það gerði hún einnig fyrrum en þá átti fjöldinn bara ekki kost á að verðsetja sig.
Ungt fólk ,í dag , stendur frammi fyrir margfalt flóknri tilveru en við um og eftir stríð stóðum frammi fyrir.
Þetta vildi ég sagt hafa.
Sævar Helgason, 28.1.2015 kl. 12:42
Góður Ómar og ekki síðri Sævar Helgason.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 12:46
Sævar, við erum af sömu kynslóð og ég finn sjálfan mig í þinni lýsingu. Það er hinsvegar eitt enn, sem við megum ekki sleppa að taka með í reikninginn. Við gátum komist yfir íbúðirnar okkar með því að vinna í þeim sjálf/ir og á þeim tíma sem við byggðum, var ekki um neina opinbera lánafyrirgreiðslu að ræða aðra en hengingarvíxla í bönkunum. Nú er málið þannig vaxið, að þótt fólk sem er að eignast sína fyrstu íbúð vilji vinna í henni og breyta sinni vinnu þar með í fasteign, er það ekki leyft. Ekki má leggja fram eigin vinnu nema vera sjálfur með full fagréttindi og með leyfi og yfirstjórn byggingarstjóra. Þetta er miklu meiri breyting, en margir gera sér ljóst og einn af þeim þáttum sem gera ungu fólki erfitt fyrir.
Móri (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 13:57
Oft er gott sem gamlir kveða en þið gleymið því gömlu skarfarnir að næsta kynslóð á eftir ykkur gamalmennunum hjálpaði ykkur við húsnæðiskaupin.
Þorsteinn Briem, 28.1.2015 kl. 14:52
Hér á Íslandi var einnig mikil verðbólga áður en víðtæk verðtrygging var tekin hér upp árið 1979.
Verðbólga hér á Íslandi á árunum 1940-2008
Lagðar voru töluverðar fjárhæðir inn á reikning minn hjá Sparisjóði Svarfdæla á áttunda áratugnum áður en verðtrygging var tekin hér upp en ég tók aldrei út af reikningnum, sem nú er einskis virði.
Þeir sem fengu lán hjá sparisjóðnum á þessum tíma fengu hins vegar stóran hluta ókeypis af þeim peningum sem ég átti á þessum reikningi.
Þessir peningar fóru því meðal annars í að kaupa húsnæði á Dalvík, sem ég hef aldrei átt nokkuð í, en liggja ekki hjá Sparisjóði Svarfdæla.
Þegar vextir eru neikvæðir, lægri en verðbólgan, hættir fólk almennt að leggja fyrir, eins og á áttunda áratugnum, og leggur peningana eins fljótt og það getur í steinsteypu.
Þeir einu sem þá eiga peninga í banka eru börn og gamalmenni.
Og íbúðarkaupendur eru þá snöggir að eignast þá peninga, sem þeir hafa aldrei átt sjálfir, með því að fá lán í banka eða sparisjóði og greiða þá ekki að fullu til baka, rétt eins og þegar ég var barn á áttunda áratugnum.
Peningar eru hins vegar eign, rétt eins og steinsteypa, og þjófnaður á hvoru tveggja varðar við lög.
72. gr. Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir."
Stjórnarskrá Íslands
Þorsteinn Briem, 28.1.2015 kl. 14:54
Pistill minn átti ekki að verða einhver alhæfing á samanburði við kjörin fyrr og nú. Á yngri árum mínum mátti helst enginn "missa af því" að eignast eigin íbúð.
Annað mátti hins vegar bíða. Það liðu mörg ár og jafnvel áratugir frá því að afar mínir og ömmur og foreldrar mínir höfðu efni á að eiga heimilissíma.
Fyrstu ár útvarpsins kostuðu útvarpstæki sem svarar hálfri milljón króna nú.
Fyrsti ísskápurinn á æskuheimili mínu kom 17 árum eftir að foreldrar mínir hófu búskap.
En krafan um "að missa ekki af" því að eignast húsnæði var áratugum saman uppfyllt með því að einhvert stærsta rán Íslandssögunnar var látið viðgangast, sem sé að þeir sem gátu slegið peningalán, fengu þau gefins að stórum hluta vegna hinnar miklu verðbólgu.
Þeir einstaklingar sem lánuðu fé á svörtum markaði á raunvöxtum og stundum kannski gott betur vegna örvæntingar skuldaranna voru kallaðir "okurlánarar" vegna þess að neikvæðir vextir voru lögbundnir.
Eitt af helstu baráttumálum Vilmundar Gylfasonar var að afnema þetta óréttlæti, sem á þessum áratugum nam upphæð, sem myndi samsvara mörgum hundruðum milljarða króna á okkar tímum. Það er nefnilega langt í frá að svonefndur "forsendubrestur" sé eitthvað nýtt. Fram til 1979 höfðu sparifjáreigendur, svo sem líknarsjóðir og gamalt fólk, orðið fyrir stórfelldu ráni.
Þegar lögin um verðtrygginguna, svonefnd Ólafslög, voru sett snemma árs 1979, fólu þau í sér ákveðna "leiðréttingu á forsendubresti" sparifjáreigenda, en með neyðaraðgerðum 1983 var stór hluti húsbyggjenda hlunnfarinn stórlega, án þess að sá "forsendubrestur" væri leiðréttur svo neinu næmi.
Ómar Ragnarsson, 28.1.2015 kl. 15:12
Þess má geta að fólkið, sem hafði verið hlunnfarið svo gróflega með "forsendubrestinum" fram til 1979, fékk aldrei krónu í bætur fyrir það fjártjón, sem það hafði orðið fyrir fram að því.
Ómar Ragnarsson, 28.1.2015 kl. 15:15
Steini Briem !
Lán á tímunum þegar ég eignaðist mína íbúð fokhelda (1969-70) var húsnæðislán sem dugði ekki fyrir minni fokheldu íbúð. Gamall bíll var seldur fyrir fyrstu útborgum og síðan bílleysi næstu 3-4 árin. Öll vinnan við að gera íbúðina íbúðarhæfa var eigin vinna að ölluleyti )pípulagnir , múrverk , málun og tréverk að mestu, Rafmagn í skiptivinnu ) Hægt var að slá víxla í bönkum til svona 3 ja mánaða í senn ,fyrir efni og svoleiðis. Nú, það var mikil verðbólga og sparifé gamla fólksins ,þá ,brann upp og við þessir víxlasnaparar fengum eitthvað af þeim verðmætum svo og rýrnun á húsnæðislánum. Sem sagt það var fyrri kynslóð okkar en ekki börnin okkar sem greiddu niður þessi upphaflegu lán. En með svona mikilli eigin vinnu og litlum lántökum við íbúðagerðina þá urðu skuldir mjög litlar sem kom sér vel við kaup á stærra húsnæði o.s.frv.
Sævar Helgason, 28.1.2015 kl. 15:16
Þeir einu sem áttu peninga í banka á áttunda áratugnum voru börn og gamalmenni.
Þá þurftu menn að biðja sjálfan útibússtjórann um lán og hann gaf þeim sem fengu lánin stóran hluta af þeim, þar sem þeir þurftu engan veginn að greiða þau öll til baka því vextirnir voru gríðarlega neikvæðir.
Útibússtjórarnir gátu því ráðið því hvort margir gætu keypt íbúð eða stofnað fyrirtæki og gefið mönnum í réttum stjórnmálaflokkum peninga barna og gamalmenna.
Og enn vinna fjölmargir alls kyns verk í eigin íbúðum, til að mynda við að gera upp gamlar íbúðir og heilu húsin.
Þannig gat undirritaður eignast tvær íbúðir samtímis í bláa húsinu ská á móti Björnsbakaríi við Hringbraut en vann þá alla daga og fram á kvöld sem blaðamaður á Morgunblaðinu.
Þorsteinn Briem, 28.1.2015 kl. 16:07
Já, Steini Briem þesswu er rétt lýst hjá þér. Ég var bara ekki svo ættstór að ég gæti fengið alvöru víxil-átti bara engan að. Og ekki var ég þá í pólitkinni- tómt hús þar. Þetta voru svona eignalausir vinir sem nægðu fyrir fáeinum víxlakrónum til 3 mánaða í senn. En vel tengdir menn til ættar og pólitíkur- óðu í peningum - gamlafólksins og litlu barnanna með sparibaukanna og borguðu ekkert til baka.
Sævar Helgason, 29.1.2015 kl. 00:05
Rétt hjá þér, Sævar minn.
Þorsteinn Briem, 29.1.2015 kl. 05:49
"Oft er gott sem gamlir kveða en þið gleymið því gömlu skarfarnir að næsta kynslóð á eftir ykkur gamalmennunum hjálpaði ykkur við húsnæðiskaupin."
Allir sem benda á þetta verða að passa sig á að alhæfa ekki, það voru nefnilega svo hrikalega margir sem gátu ekki fengið nein lán og margir af þeim sem fengu lán þurftu að láta sér nægja einhverja hungurlús sem dugði ekki fyrir neinu að gagni. Þetta fólk fékk ekkert gefins, þurfti þvert á móti að þræla margfalt til að koma sér upp húsi. Fyrst þurfti að vinna tvöfalt til að eignast pening fyrir byggingarkostnaðinum og svo að vinna líka við húsbygginguna í mörgum tilfellum, en reyndar kemur þar á móti að þetta VAR HÆGT, sem ekki er staðan í dag.
Dagný (IP-tala skráð) 29.1.2015 kl. 14:20
Undirritaður benti á þetta allt saman hér að ofan en áréttar það sem ég sagði hér í athugasemd nr. 5, frú Dagný.
Þorsteinn Briem, 29.1.2015 kl. 19:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.