Kalli klóraði sig út úr kassanum.

Kettir geta verið furðulega afkastamiklir við að nota klærnar eins og dæmið um bandaríska köttinn, sem klóraði sig upp úr gröf sinni, sýnir.

Fjölskylda mín átti afar skemmtilegan kött, sem dætur mínar fundu sem blindan nýfæddan kettling, sem mjálmaði ámátlega í öskutunnu skammt frá heimili okkar og einhver hafði hent þangað. 

Þær höfðu verið á ferðalagi í tengslum við skemmtanir Sumargleðinnar og gáfu kettlingnum nafnið Carl Möller. Hann var nánast manns jafningi í fjölskyldulífinu og af honum mætti segja margar sögur.

Þar kom að við fluttum úr parhúsi í blokk og nú varð að koma Kalla fyrir. Ég þekkti sómafólk að Skriðulandi í Langadal og þegar bóndinn var næst í Reykjavíkurferð, afhenti ég honum köttinn í pappakassa með þykkum pappa, næstum eins sterkum og tré.

Fáir í fjölskyldunni höfðu leikið sér eins mikið við Kalla og ég og því kom það í minn hlut að misnota traust kattarins og lokka hann inn í pappakassann í leik, sem byggðist á því að nota rækjur, sem var eftirlæti Kalla.

Á kassanum hafði ég sett tvö göt sem "glugga", en Kalli hamaðist inni í honum, dýrvitlaus í þess orðs fyllstu merkingu.

Í kvöldið sagði bóndinn mér frá því í síma að á tímabili hefði litið út fyrir að vistaskiptin myndu misheppnast.

Kötturinn hamaðist svo inni í kassanum, að þegar rútan stansaði við Fersstikluskála, var hann búinn að tæta hann svo með klónum innan frá, að hann slapp út og flúði út úr rútunni.

Þegar farþegarnir komu aftur inn í rútuna kom kötturinn hins vegar inn í hana sjálfviljugur, gekk aftur með sætaröðinni, fann bóndann, nuddaði sér blíðlega upp við fætur hans og skreið síðan sjálfviljugur upp í kjöltu hans og sleikti á honum hendurna.

Þetta gat ekki verið augljósara: Hann fann út að hann myndi aldrei komast aftur til Reykjavíkur og þá var eins gott að vingast við eina manninn í rútunni, sem gæti orðið nýr og góður húsbóndi hans.

Kalla var fengið flet í skemmu á Skriðulandi og varð hvers manns hugljúfi á bænum, enda miklir dýravinir þar.

Árið eftir áttum við Helga leið um Langadal og litum við á Skriðulandi. Ég gægðist inn um gættina á skemmunni og byrjaði að leika mús með hendinni, einn af gömlu leikjunum okkar Kalla, en hann rótaði sér ekki í fletinu. Ég kallaði blíðlega til hans en hann bærði ekki á sér.

Þetta var alveg nýtt.

Nú kom Helga í gættina og kallaði til hans, og kom Kalli þá hlaupandi til hennar og lét vel að henni en leit ekki einu sinni til mín.

Hann mundi greinilega hver hafði svikið hann í tryggðum. Mér myndi hann aldrei fyrirgefa. 

Kalli varð fjörgamall. Einn blíðviðrisdag um sumar, þegar sólin skein í heitu logninu, staulaðist hann inn í eldhús þar sem fólk sat að snæðingi. Hann mjakaði sér rólega meðfram fótum fólksins og nuddaði sér upp við þá, eins og blíðlyndir kettir gera oft, og lötraði síðan hægt út aftur.

Út um eldhúsgluggann sást hann staulast upp á þúfu rétt fyrir sunnan bæinn, setjast þar niður til hálfs og teygja höfuðið í átt til sólar, horfandi í átt til aflsins sem hafði skapað hann og allt sem lífsanda dregur.

Skömmu síðar hné hann rólega niður örendur.

Sagt er að gamlir menn hjá frumstæðum þjóðflokkum í Austurlöndum fjær, sem finna feigðina kalla á sig eins og Jónas orðar það, fari í lokin út í skóg, setjist þar einir niður og láti lífið fjara þar út. 

Sagan af dauðastund kattarins Kalla minnti mig á þetta þegar ég heyrði hana. Hann var alveg einstakt dýr, oft manna jafningi og vel það.  

  


mbl.is Klóraði sig upp úr gröfinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Skemmtileg lesning.  - Ég hef átt hund, kött og lítinn páfagauk. Það er eitt það versta sem til er að þurfa að t.d. láta aflífa heimilisdýrin sín og/eða verða vitni að því degar þau deyja.  -  Þess vegna á ég engin heimilisdýr lengur, vil ekki ganga í gegnum þetta aftur.

Már Elíson, 28.1.2015 kl. 19:31

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, en þetta er gangur lífsins, Már, gangur lífs og dauða. 

Ómar Ragnarsson, 28.1.2015 kl. 19:51

3 identicon

Hundar ganga gjarnan út og geispa golunni. Stundum eru þeir búnir að búa sér til bæli fyrirfram.
Tíkin mín gamla lét sig hverfa svona, um 18 ára aldurinn. Ég fann hana aldrei.
Már, - ég á hvolp handa þér ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 29.1.2015 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband