2.2.2015 | 20:44
Tölvurnar búnar að taka skákina. Hvar endar þetta?
Það sem Bill Gates er að vara við varðandi hugsanlega tækniþróun framtíðarinnar á sér nokkuð langa forsögu, eða allt aftur til textans "Árið 2012", sem var saminn árið 1967, ef ég man rétt.
Þá rökræddum við Vilhjálmur Vilhjálmsson söngvari um möguleika tölvuvæðingar sem héldi áfram takmarkalaust og ég lagðist undir feld til að festa þessar hugsanir í ljóð.
Nokkrar ljóðlínur segja sína sögu um framtíðarsýnina: "...vélar unnu störfin og enginn gerði neitt..." "Og ekki hafði neitt að gera úvarpsstjóri vor, / því yfirmaður hans var lítill vasatransistor...", "forsætisráðherrann var gamall IBM."
1967 var auðvitað ekki hægt að sjá fyrir hvort Microsoft eða einhver önnur fyrirtæki kæmu í staðinn fyrir IBM.
Við gerð textans varð að grípa til nafnorða, sem þá voru þekkt til að reyna að túlka þann ískyggilega möguleika, að tölvurnar og vélarnar myndu að lokum taka völdin af mönnunum ef engin takmörk yrðu á tækniframförunum.
1967 hefði það þótt útilokað að tölvur gætu orðið fremri mönnum við að tefla skák. Nú hefur það gerst og kannski er það bara byrjunin.
Rætt er um í fullri alvöru að skammt sé þess að bíða að öll umferð einkabíla geti orðið tölvustýrð, svo ótrúlegt, sem það kann að virðast.
Mesta hættan við svona endalausar framfarir er sú, að til þess að koma í veg fyrir skakkaföll verði búin til tölukerfi með æ meiri greind til þess að stjórna öllu sem best.
Litlu munaði 1983 að kjarnorkustríð brytist út vegna bilunar í tölvu. Það var aðeins vegna þess að lifandi starfsmaður við tölvukerfið tók það upp á sitt eindæmi að taka ekki mark á aðvörun tölvunnar.
Í textanum "Árið 2012" sem fjallar um draum um geggjað framtíð, er gert ráð fyrir því að fjölgun mannkyns gerist ekki lengur í framtíðinni með tilstyrk rómantíkur og ásta, heldur stýrt af lyfjum.
Ekki er víst að jafn vel takist um að bjarga heiminum frá því að farast í kjarnorkustríði og 1983 síðar meir þegar tæknin verður komin miklu lengra. Og þá verður of seint að syngja:
Gömlu dagana gefðu mér.
Þá gat ég verið einn með þér.
Nú tæknin geggjuð orðin er.
Gömlu dagana gefðu mér, - en sá draumur, -
og ég er ánægður með lífið eins og það er.
Gates segir ógn stafa af gervigreind | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.