Langhlaup en ekki spretthlaup.

Það er vafalaust góður ásetningur sem liggur að baki þáttunum "Biggest loser" víða um lönd, þ. e. að taka þátt í sókn gegn stærsta heilsufarsvandamáli nútímans og næstu áratuga sem er offituvandamálið.

En nálgunin er afar vafasöm, svo að ekki sé meira sagt, að mæla upp þvílíkt meinlætalíf og sjálfspíningu í einhæfri keppni við að létta sig fyrir framan alla þjóðina, að hörmung er að heyra af þeim raunum, sem þátttakendur hafa hafa látið hafa sig út í.

Svona spretthlaup í að létta sig er nefnilega alveg í mótsögn við árangursríka léttingu, sem felst þvert á móti í því að taka hana sem langhlaup, jafnvel nokkurra ára langhlaup.

Mjög hröð létting hefur nefnilega margs kyns skaðleg áhrif á líkamann og þar á ofan bætist, að eftir að þessari sjálfspíningu lýkur, færist líkamsþunginn afar oft í svipað horf á ný, meðal annars vegna þess að líkaminn bregst sennilega í sumum tilfellum þannig við sveltinu að breyta þannig efnaskiptunum að nýta betur þær hitaeiningar sem til falla.

Þrjú þekkt dæmi úr sögu hnefaleikanna eru frá árunum 1910 og 1980. Upp úr aldamótunum hafði Jim Jeffries, einn allra besti þungavigtarhnefaleikari allra tíma, orðið að hætta keppni 1905 vegna þess að enginn verðgur mótherji fannst.

Þegar Jack Johnson varð fyrstur blökkumanna til að vinna titilinn, var Jeffries dreginn fram, en hafði þyngst um 40 kíló, úr 90 upp í um 130.

Hann létti sig á ótrúlega stuttum tíma um þessi 40 kíló, en var varla svipur hjá sjón þegar hann tapaði illa fyrir Johnson. 

Muhammad Ali létti sig nokkrum sinnum um 10-15 kíló fyrir bardaga og gerði það líka fyrir síðasta heimsmeistaratitilbardaga sinn 1980. Léttingin bar þann árangur að fyrir bardagann leit hann betur út en í mörg ár. Áhorfendur tóku andköf og stundu: "Sá er flottur!" 

En hann hafði misst of mikinn vökva, var skugginn af sjálfum sér og tapaði illa. 

Roy Jones var yfirburðamaður í millivigt og yfirmillivigt á níunda áratugnum, en stóðst ekki mátið að þyngja sig upp í léttþungavigt og síðar þungavigt með frábærum árangri og nýjum titlum. 

En þegar hann létti sig aftur niður í fyrri þyngd breyttist hann skyndilega úr eins konar ofurmenni í ósköp venjulegan meðal góðan hnefaleikara sem átti ekki möguleika gegn þeim sem áður höfðu staðið skör lægra en hann.

Þetta er langhlaup, ekki spretthlaup.   


mbl.is „Við erum öll orðin feit á ný“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Áður fyrr var afar stór,
en ansi snöggt skrapp saman,
hún úr öllu fljótt þar fór,
Framsóknarmaddaman.

Þorsteinn Briem, 3.2.2015 kl. 00:01

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Lög og reglugerðir sem gilda um innflutning dýraafurða:

Reglugerð nr.
1043/2011 um eftirlit með heilbrigði eldisdýra og dýraafurðum í viðskiptum innan Evrópska efnahagssvæðisins."

Þorsteinn Briem, 6.2.2015 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband