Erfitt að fljúga á öðrum hreyflinum.

Sé það rétt að drepist hafi á öðrum af tveimur hreyflum ATR 42 flugvélarinnar, sem fórst skömmu eftir flugtak frá Tapei, gæti það verið skýring á því hvers vegna ekki tókst að fljúga vélinni yfir hindranir á flugleiðinni á afli hins hreyfilsins. 

Ástæðan er sú að afar vandasamt og erfitt getur reynst að fljúga áfram á afli annars hreyfilsins fyrst eftir flugtakið.

Á myndinni sést að báðar skrúfurnar snúast þegar vélin fellur niður, en það sýnir að hafi vinstri hreyfillinn stöðvast, hefur flugstjórunum ekki tekist að láta skrúfuna á þeim hreyfli komast í hlutlausa stöðu.

Meðan skrúfan snýst, jafnvel þótt hún snúist án tregðu, er veldur snúningur hennar loftmótstöðu, sem er töluverð og dregur úr getu vélarinnar til þess að halda hæð eða klifra.

Eitt höfuðatriðið þegar drepst á hreyfli á fjölhreyfla flugvél, er að flugstjórinn breyti beitingu skrúfublanna þannig að þau kljúfi loftið eins og hnífsblað án loftmótstöðu til að auka möguleika hins hreyfilsins til að halda vélinni á lofti.

Ákvörðun um flugtak tekur flugstjórinn þegar vélin hefur náð nægum skilgreindum lágmarkshraða til þess að hægt sé að fljúga áfram á einum hreyfli ef hinn bilar.

Ef bilun verður fyrst eftir flugtak eru flugstjórarnir í vandasamri stöðu til þess að vélin geti klifrað, því að bæði þarf að auka flughraðann og draga úr þeirri loftmótstöðu sem flapar gefa, en þeirra hlutverk er gera kleift að nota sem styst brautarbrun.

 

Þrír hraðar skipta mestu við flug á öðrum hreyfli.

1. Lágmarkshraði til þess að hliðarstýrið geti haldið í við þann hreyfil sem togar skakkt í flugvélina þegar slokknað hefur á hinum hreyflinum.

2. Besti klifurhraðinn á afli annars hreyfilsins, sem er hærri en hraði númer 1.

3. Ofrishraðinn.

Hugsanlega hefur vélin aldrei náð því að komast á besta klifurhraðann og ljóst virðist af myndum, að vélin stefnir í ógöngur þegar hún kemur að íbúðablokkunum framundan, því að til þess að komast yfir þær, þarf að reisa vélina og við það missir hún það mikinn hraða að hún getur ekki haldið hæð, og auk þess er lofthraðinn orðinn of lítill yfir hliðarstýrið til þess að það geti haldið á móti togi hægri hreyfilsins.

Vélin byrjar því að snúast til vinstri við það að ofrísa og falla niður.

Síðan veit enginn fyrr en eftir rannsókn á slysinu hvort eitthvað hefur misfarist hjá flugmönnunum við hið erfiða hlutverk þeirra að halda vélinni á lofti.    


mbl.is Óttast um afdrif farþeganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tölfræði (statistics) sýnir að eins hreyfils vélar eru öruggari í flugtaki en tveggja hreyfla vélar. Margir halda að þetta hljóti að vera bull, en svo er ekki. Stundum er sagt að eftir að einn hreyfill er dottinn út í flugtaki, geri hinn lítið annað en að koma vélinni á slysastað. Og líkurnar á því að hreyfill bili er helmingi meiri á tveggja hreyfla vél en eins hreyfils vél.

Ástæðan er sú eins og Ómar segir að það getur verið afar erfitt að fljúga á einum hreyfli í flugtaki. Það er samt háð krafti hreyfilsins, auðvitað. Ég held jafnvel að þetta sé ekki mikið æft, nema á simulator. Miklu auðveldara er að lenda tveggja hreyfla vél á einum hreyfli.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 4.2.2015 kl. 20:31

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hættan á flugslysum er einna mest við enda flugbrauta.

Þorsteinn Briem, 4.2.2015 kl. 20:39

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 4.2.2015 kl. 20:39

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

11.3.1986:

"Segja má að kraftaverk hafi átt sér stað í gær, þegar Fokkervél með 41 farþega missti afl á öðrum hreyfli og hætt var við flugtak.

Flugvélin fór fram af flugbrautinni út á Suðurgötuna
, sem liggur við vesturenda brautarinnar, og stöðvaðist á miðri götunni."

Fokkervél fór út á miðja Suðurgötuna


3.8.1988:


"Þrír menn fórust er kanadísk tveggja hreyfla ferjuflugvél fórst skömmu fyrir lendingu á Reykjavíkurflugvelli skömmu fyrir klukkan 17 í gær.

Flugvélin stakkst á nefið á milli brautarenda og Hringbrautar og sprakk strax í loft upp.
"

Flugvél stakkst á nefið og sprakk í loft upp steinsnar frá Hringbrautinni


16.10.1990:


"Ekkert hefur enn komið fram við rannsókn á flaki flugvélarinnar sem hrapaði í Skerjafjörð síðastliðinn laugardag.

Flugmaðurinn lést í slysinu. Hann var reyndur flugmaður, með 400 flugstundir að baki.

Flugvél hrapaði í Skerjafjörð


23.4.1997:


"Mikil mildi þykir að enginn skyldi slasast þegar tveggja hreyfla flugvél brotlenti við Reykjavíkurflugvöll í gær, rétt við Suðurgötu.

Bílar höfðu örskömmu áður ekið um götuna."

Brotlenti við Suðurgötuna


9.8.2000:


"Eins hreyfils flugvél af gerðinni Cessna hrapaði í Skerjafjörð, rétt vestan við Nauthólsvík, á mánudagskvöld."

Flugvél hrapaði í sjóinn rétt vestan við Nauthólsvík

Þorsteinn Briem, 4.2.2015 kl. 20:41

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar Ragnarsson 4.2.2015 (í dag):

"Það er raunar dæmi um það hve erfitt er að ræða þessi mál á réttum forsendum, að mannvirkjasinnar hafa fengið fram sín sjónarmið með því að ráða því hvaða orð eru notuð."

"Framsókn og flugvallarvinir."

Veit ekki til þess að til séu óvinir flugvalla og það er ekki stefna Reykjavíkurborgar að flytja Reykjavíkurflugvöll af höfuðborgarsvæðinu.

Þorsteinn Briem, 4.2.2015 kl. 20:43

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Lygilegt að vélin splundrist ekki við þetta. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.2.2015 kl. 22:25

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er ekki hægt að ætlast til þess af mér að ég nefni framboðslistanna þeim nöfnum sem standa á kjörseðlinum, til dæmis: "Framsóknarflokkurinn og flugvallarvinir". 

Bandarísk rannsókn á dauðaslysum í blindflugi í almannafluig (general aviation) leiddi í ljós að þau voru tíðari í flugi tveggja hreyfla véla en eins hreyfils véla.

Ef sjónflug var tekið með voru slysin fleiri þar. Ástæðan er sú að í blindflugi smærri véla eru álíka reyndir flugmenn við stýrið, en óreyndir flugmenn fljúga frekar einshreyfils vélunum.

Er alveg til í að skrifa sérstakan pistil um þess merku rannsókn og staðreyndirnar í henni.  

Ómar Ragnarsson, 5.2.2015 kl. 00:52

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Léiðrétting: Orðið "öðrum" vantar í fyrstu setninguna í athugasemdinni hér að ofan. Svona á hún að hljóða: 

"Það er ekki hægt að ætlast til þess að ég nefni framboð til kosninga öðrum nöfnum en standa á kjörseðlinum. Í þessu tilfelli: Framsóknarflokkurinn og flugvallarvinir. 

Ómar Ragnarsson, 5.2.2015 kl. 00:54

9 Smámynd: Óskar

Ég hef ekki mikið vit á flugvélum en eitt sinn sem oftar flaug ég í einshreyfils vél frá Bakka til Vestmannaeyja.  Flugmaðurinn kom ekki hreyflinum í gang þegar leggja átti af stað og hringdi i flugvirkja sem kom skömmu síðar með stóra og mikla sleggju með sér.  Hóf hann að berja í hreyfilinn af miklu afli þangað til hann hrökk allt í einu í gang.

Ég spurði flugvirkjann hvort hann ætlaðist virkilega til að við treystum þessari viðgerð og hvort við kæmumst lifandi til eyja í þessari blikkdós.  Hann hélt það nú og sagði að þegar þessir hreyflar færu í gang þá á annað borð þá héldust þeir í gangi.  Ég treysti þvi og við lifðum ferðina af.

Óskar, 5.2.2015 kl. 02:41

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta að ATR 72 600 er lengd gerð af ATR 42 og tekur 68 farþega. Hún hefur því verið fullhlaðin við flugtak, því að flugið framundan var það langt að talsvert eldsneyti þarf til þess. 

Vélin er með nýja gerð hreyfla, álíka aflmikla og á Fokker F50, þar sem flugmennirnir geta aukið afl á sértækan hátt í flugtaki um stundarsakir. 

Vængirnir eru heldur minni að flatarmáli en á F50 og vélin þyngri, þannig að hugsanlega var hún í verstu mögulegu stöðu þegar vinstri hreyfillinn datt út. 

En allt á þetta eftir að koma betur í ljós við rannsókn slyssins. 

Ómar Ragnarsson, 5.2.2015 kl. 14:04

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nánar tiltekið eru vængir ATR vélarinnar um 10% minni að flatarmáli og vélin um fjórum tonnum þyngri fullhlaðin en Fokkerinn. 

Ómar Ragnarsson, 5.2.2015 kl. 14:12

12 identicon

En af hverju settu þeir skrúfuna ekki á "feather" ASAP?? 2 flugmenn! Og þetta er turboprop, sem þýðir að ef mótorinn missir það, þá er það búið!

Jón Logi (IP-tala skráð) 5.2.2015 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband