Stórlega vanmetin staða á vellinum.

Það er orðin næstum því hefð fyrir því að þegar bestu knattspyrnumenn liða, þjóða, heimsálfa og heimsins eru valdir, séu það sóknarleikmenn sem verða fyrir valinu og oftast þeir sem flest mörkin skora. 

Þetta helgast af því að knattspyrnuleikir vinnast á því að skora mörk, - og þess er ævinlega getið í frásögnum hverjir skoruðu þau. 

Hitt gleymist að leikir vinnast líka á því að hindra að mótherjarnir skori mörk. Á því og spretthörku sinni byggði til dæmis Guðni Bergsson feril sinn.

Einstaka sinnum komast markverðir ofarlega á lista yfir vinsælustu og dáðustu leikmenn og veldur því sú sérstaða þeirra að standa nær allann leikinn einir sem áberandi aftasti maður liðsins. Þeir "loka markinu" á góðum dögum. 

En ekki man ég eftir því að bakverðir eða varnarmenn hafi hlotið helstu titla í knattspyrnunni. Gullskór eru aðeins veittir fyrir skoruð mörk en ekki fyrir það, hve mörg mörk leikmaður hefur komið í veg fyrir að mótherjar skori, enda erfiðara um slíkt að dæma, - skoruð mörk telja eins og sagt er.

Faðir minn heitinn var þó útvalinn efnilegasti leikmaðurinn hjá Fram árið 1939 og lék sem bakvörður, af því að Lindemann þjálfari færði hann þangað úr framherjastöðu vegna þeirra kosta hans að vera fljótur, leikinn og útsjónarsamur.  

Þótt það kunni að líta út sem eins konar stöðulækkun í liði að vera færður í öftustu varnarlínu, er það yfirleitt þveröfugt.

Við sjáum, að framherji á borð við Messi kemst upp með það að gera fjölmörg mistök í sókninni í sumum leikjum, en honum er fyrirgefið það  og mistökin gleymast og falla í skuggann fyrir snilldinni á bak við skoruð mörk, sem hann á þátt í, af því að "mörkin telja" eins og sagt er og það stendur upp úr.

Mistök varnarmanna eru hins vegar oftast dýrkeypt og skæðir sóknarmenn mótherjanna refsa miskunnarlaust fyrir þau. 

Þess vegna getur til dæmis góður pottþéttur og traustur bakvörður sem  gerir nánast engin mistök, verið virði þyngdar sinnar í gulli og það ber vitni um mikið traust til viðkomandi leikmanns að færa hann í öftustu stöðu, þar sem hraði, taugastyrkur, yfirvegun og það að kunna að "lesa leikinn" eru nauðsynlegir kostir. 

Í skemmtilegum sjónvarpsþætti í gærkvöldi um hina rómuðu vörn Valsmanna, "Mulningsvélina" á níunda áratug síðustu aldar var mikið rætt um það hve líkamlegur styrkur og næstum því ruddalegur leikur Valsaranna hefði haft mikið að segja.

Mér fannst of mikið gert úr því að væla yfir því að þeir hefðu alltaf leikið alveg upp að mörkum þess sem dómararnir leyfðu, nánast einir allra um það.

Að sönnu var það aðall Mulningsvélarinnar að allir voru líkamlega sterkir og sterkir "maður á mann".

Hitt gleymdist að þeir kostir nýtast ekki nema að vörnin sé samhent og vel spiluð með góðum færslum og útfærslum á leikkerfum.

Þessi atriði voru ekki síst galdurinn á bak við Valsvörnina og gerðu það að verkum, að enginn varnarleikur í íslenskum handbolta hefur hlotið jafn mikla frægð að verðleikum og Mulningsvélin.  

 

 


mbl.is Gera Baldur að bakverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband