29.3.2007 | 23:47
ENN EITT "EITTHVAÐ ANNAÐ"
Í grein minni í Morgunblaðinu í morgun sem Stöð tvö fylgdi eftir í kvöld kemur fram að kapphlaup er hafið milli tölvufyrirtækja um að setja upp starfsemi hér á landi sem dreifist um landið, skapar hundruð starfa hátæknifólks og þarf hundruð megavatta af orku. Hinn stóri munur á þessu og álverunum er hve miklu umhverfisvænni þessi starfsemi er, tilbúin að borga hærra orkuverð og að ekki er um eins stórkarlalegar einingar að ræða og 500 þúsund tonna álver eru.
Af þeim sökum er hægt að stíga mun varlegar til jarðar varðandi nýtingu orkunnar fyrir þessi fyrirtæki, fara sér hægar, - og hærra orkuverð þýðir að meiri möguleikar eru til að setja gufuleiðslur, línur og jafnvel fleiri mannvirki í jörð og gera jarðvarmavirkjanirnar þannig umhverfisvænni.
Þetta er eitt af mörgum dæmum um það sem hent hefur verið á lofti í háðungarskyni sem "eitthvað annað" en er raun og sann leið til þess að breyta um stefnu í hagstjórn og atvinnumálum hér á landi.
Með því að hverfa frá þenslustefnu sveiflna og okurvaxta í átt að hagkerfi í meira jafnvægi má laða fram starfsemi í fjármála- hátækni- og þekkingariðnaði sem dregur úr fráhvarfseinkennum þess að hægja á hraðlest virkjanfíkninnar.
Í Morgunblaðsgreininni bendi ég á skilningsleysi stjórnvalda á því að leggja nýja sæstrengi til útlanda til þess að gera tölvufyrirtækjunum mögulegt að hasla sér hér völl. Núverandi ástand er ólíðandi og getur orðið til þess að fyrirtækin treysti sér ekki til að koma hingað.
Sæstrengirnir eru nokkurs konar samgönguæðar og það að hafa þær ekki í lagi er hliðstætt því að bjóða millilandaflugfélögum upp á ótryggan og ónothæfan Keflavíkurflugvöll.
Hjá tölvufyrirtækjunum segja menn að ef þessu verði ekki kippt í liðinn með hraði sé hætt á því að fyrirtækin fari eitthvað annað í viðleitni sinni til að ná forskoti á keppinautana.
Forskotið felst meðal annars í því að tryggja sér aðgang að endurnýjanlegri og hreinni orku því að það skapar fyrirtækjunum viðskiptavild sem þau meta til mikils fjár.
Á hinn bóginn eru þessi fyrirtæki mjög á varðbergi gagnvart því að keppinautarnir eigi möguleika til að kasta rýrð á orkuöflunina. Það þýðir einfaldlega það að ekki er boðlegt að kreista 600 megavött út úr Hengils- Hellisheiðarsvæðinu sem verður síðan kalt eftir 40 ár.
Svona hugsunarháttur gengur ekki. "Endurnýjanleg orka" verður sannanlega að vera endurnýjanleg þótt það kosti að orkuverðið hækki. Ef tölvufyrirtækin geta treyst því að þetta sé pottþétt borga þau það verð sem slíkt kostar.
Þetta mál sýnir að Hafnfirðingar þurfa ekkert að fara á taugum þótt Alcan hóti að leggja álverið niður. Aðrir geta komið í staðinn og þess vegna verið með húsakynnin neðanjarðar fyrir mengunarlausa starfsemi sína.
Athugasemdir
Var að horfa á fréttina og sannarlega ánægjulegt af hafið er mikið kapphlaup milli tölvufyrirtækja að setja um miðstöðvar hér þó þær þurfi ekki mikla orku (nema ef stöðvarnar verða margar). Staðan í nettengingum til Íslands er þannig akkúrat í dag að engu tölvufyriræki dettur í hug að setja neitt upp hérna. Rottur gæða sér á Farice strengnum og hann hefur bilað margoft á ári. Cantat strengurinn fór alveg út fyrir nokkrum mánuðum og tók nokkra daga að koma honum í sæmileg not en lokaviðgerð á enn eftir að fara fram. Það skapaðist því það ástand í vetur að töluverðar líkur voru á því að landið yrði algjörlega sambandslaust við netheima.
Góðu fréttirnar eru að nýr strengur á vegum ríksins verður lagður fyrir lok árs 2008 (minnir mig- má vera að ég hafi rangt fyrir mér). Gagnaflutningar um þessa strengi eru hinsvegar dýrir.
Ég er ekki viss um að þetta breyti neinu fyrir Þingeyinga. Ef og þegar fyrstu stöðvarnar verða að veruleika þá verða þær á SV-horninu og þar að auki hefur fólk fyrir norðan heyrt svo margar töfrahugmyndir áður að það kippir sér ekki upp við svona.
Ítreka samt að ég vona að þetta verði að veruleika (ef einhver skildi efast) og er ánægður með að þú skulir ekki vera á móti öllum virkjunum eins og margir halda.
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 00:28
Það tekur fleiri ár að byggja upp eitt álver en að láta sæstrengin verða að veruleika.. bara fyrirhuguð stækkun á álverinu í Straumsvík er áætluð að verði lokið 2012.
Hvað þá með framkvæmdir sem varla eru hafnar á teikniborðinu..
Frábært ef þeir ákveða að koma með gagnabankan hingað. Um það ætti að ríkja nokkurs konar þjóðarsátt.. svo lengi sem stjórnvöld séu ekki búin að lofa allri raunsærri nýtanlega orku í landinu og bara Gullfoss og Dettifoss eru eftir
Ég vona virkilega að Hafnfirðingar segja Nei á Laugardaginn..
Það er svo mikið í húfi fyrir landið okkar
Björg F (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 00:59
Það er náttúrulega mjög gott mál að fá erlend fyrirtæki til að fjárfesta í atvinnu á Íslandi almennt. Það hefur gengið brösulega í gegnum tíðina og helstu fjármagnseigendur á Íslandi fjárfesta aðallega í tækifærum erlendis, því Íslandi er orðið of lítið fyrir þá.
Fólk ætti að halda sér á jörðinni hvað þessa frétt varðar á Stöð 2 í kvöld, af nokkrum ástæðum; þær helstu:
Sem sagt ef spurning er að koma "olíunni" okkar í verð, þá eru tölvuver ekki svarið við því. Og í því samhengi finnst mér ekki málefnalegt að stilla þessu upp sem einhverjum valkosti gegn öðrum kostum sem við höfum. Það væri kjánalegt.
Bjarni M. (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 03:11
Gleymdi einu sem ég vildi að fram kæmi; Mér finnst orðalagið þitt "að kapphlaup er hafið milli tölvufyrirtækja um að setja upp starfsemi hér á landi", ekki sæmandi stjórnmálamanni sem vill láta taka sig trúanlega. Þetta er æsifréttastíll, á ekki við þó að smá eftirspurn sé hugsanlega farin að myndast.
Bjarni M. (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 03:18
Biðst forláts, en hlekkurinn sem ég setti inn hér að ofan var rangur. Hinn rétti er:
http://www.lbl.gov/Science-Articles/Archive/data-center-energy-myth.html
Bjarni M. (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 03:22
Sæll Ómar.
Þetta er frábær hugmynd ef hún gæti orðið að veruleika. Svona batterí þarf mjög litla orku eða jafnmikla eins og að reka 32 ker af 480 kerjum í álverinu í Straumsvík.
Nú er bara að gera sem stjórnmálamaður að vera trúverðugur og láta þjóðina trúa að þetta sé meira en eitthvað annað,
Það er vissulega þörf á fjölbreytileika. Allt er betra en eitthvað annað.
Vinnsemd og virðing
Árelíus Örn Þórðarson, 30.3.2007 kl. 04:56
AÐALATRIÐIÐ í þessu sem öðru er ekki að selja sem mest af orku, heldur að nýta hana sem allra best og fá sem mest fyrir hana. Fleiri álver hér eru engin lausn fyrir einn eða neinn, hvað þá að æða áfram í þenslunni, sem verið hefur hér undanfarin ár með tilheyrandi verðbólgu og heimsmeti í háum vöxtum. Það gerir fjölda fólks gjaldþrota á næstunni. Við gerum ekkert annað en að vinna fyrir vöxtunum og missum á endanum íbúðirnar okkar. Við verðum því að fara mun hægar í sakirnar á næstunni í þessum orkumálum okkar, huga að skýrri framtíðarsýn og því hver ímynd Íslands eigi að vera.
Ímynd Íslands er okkur mörg þúsund milljarða króna virði og á öllum sviðum er hreinleikinn okkar vörumerki alls staðar í heiminum. Fiskurinn, hugvitið, menntunin, menningin, náttúran og tækniþekkingin, hreinn sjór, hreint land og hreint loft. Írar hafa orðið forríkir á örfáum árum og þar vinna fjölmargir útlendingar. Eru fallvötn og álver á Írlandi?
Á milli Íslands og útlanda liggja tveir sæstrengir, hinn þrettán ára gamli CANTAT-3, 7,5 Gb/s, á milli Kanada, Íslands og Evrópu, og hinn þriggja ára gamli FARICE-1, 33x2,5 Gb/s ljósleiðari á milli Íslands, Færeyja og Skotlands, sem Ísland á 80% í, en CANTAT-3 á að vera varaskeifa fyrir hann. SHEFA-2, sjö hundruð kílómetra langur ljósleiðari, 20x10 Gb/s, mun hins vegar tengja Færeyjar og Skotland núna í október. Íslenska ríkisstjórnin er að spá í að leggja nýjan streng, FARICE-2, seint á næsta ári en hvorki er búið að ákveða hvar strengurinn á að liggja, né hvar hann á að koma í land. Það má því segja að íslensk stjórnvöld séu steinsofandi í þessum málum öllum, ekkert kemst að nema álver, samgönguráðherrann úti á túni og vegir hans órannsakanlegir með öllu.
Póst- og fjarskiptastofnun segir að þjóðhagslega hagkvæmt sé að ráðast strax í að leggja nýjan sæstreng. Landspítalinn, allir háskólar landsins nema Hólaskóli, og fjöldi rannsóknastofnana varð sambandslaus í desember síðastliðnum þegar CANTAT-3 bilaði en mörg fyrirtæki og stofnanir hér notuðu eingöngu þann streng fyrir netumferð sína, enda þótt hann sé byggður á gamalli tækni og dýr í rekstri. Þegar strengurinn var tekinn í notkun árið 1994 gerðu verkfræðingar ráð fyrir að hann yrði fullnýttur árið 2011. Þá var strengurinn 5 gigabit (2x2,5 Gb) en hann var fullnýttur á innan við 3 árum. Síminn á 6% í CANTAT-3, sem er um 7.800 kílómetra langur.
Ef framleiða ætti vetni eða metanól, sem kæmi í stað alls bensíns og olíu sem bíla- og fiskiskipaflotinn okkar notar nú, þyrfti til þess 3,7 terawattstundir (TWh) á ári, samkvæmt Braga Árnasyni fyrrverandi prófessor. Þá myndi útstreymi gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum hérlendis minnka um 57% frá því sem það er nú en talið er að úr vatnsorku og jarðhita á Íslandi væri hægt að framleiða um 50 TWh af raforku á ári. Ein terawattstund er 1.000 gígawattstundir. Enn er ekki hagkvæmt að selja héðan raforku um sæstreng til Evrópu, enda myndi það skapa meiri atvinnu fyrir okkur að nýta hana hér.
En það er ekki nóg að líta eingöngu til þeirrar tækni og möguleika sem voru fyrir hendi í gær. Það verður einnig að velta fyrir sér möguleikum framtíðarinnar, hvað muni verða hægt að gera á næstu árum og hvað sé verið að þróa og smíða erlendis. Nú er til dæmis búið að smíða rafbíl sem kemst upp í 100 kílómetra hraða á örfáum sekúndum og við munum að öllum líkindum hlaða rafbíla okkar með tiltölulega ódýru næturrafmagni. Fiskiskipin okkar munu hins vegar verða knúin áfram af til dæmis kanadískri jurtaolíu (biodísel) frá Krossanesverksmiðjunni á Akureyri. Stefnt er að því að framleiða þar allt að 60 þúsund tonnum af jurtaolíu á ári, sem mun duga fiskiskipum okkar sem nú nota hráolíu, en verð á henni hefur sjaldan verið hærra en nú.
Bensín og olía verða örugglega ekki notuð á bíla og fiskiskip hér í framtíðinni. Hversu margar borðtölvur voru til hér árið 1980, fartölvur árið 1990 og gemsar árið 1995? Þekktuð þið öll Netið og möguleika þess árið 1990 og hefði ykkur öllum dottið í hug þá að bráðnauðsynlegt yrði að auka verulega möguleika á gagnaflutningi um sæstrengi til útlanda til að skapa hér skemmtilega atvinnu sem gæfi góðan arð, milljarða króna árlega? Og fólk um allan heim myndi greiða stórfé fyrir að taka þátt í íslenskum tölvuleik á Netinu sem héti Eve Online og snerist um geimskip og ímyndað líf í geimnum? Bill Gates varð ekki ríkur af því að spekúlera mikið í álverum.
En það var til álver hér fyrir 30 árum, meira að segja álkrónur sem flutu á vatni, fljótandi gengi og verðbólgan um 60%, en þá eins og nú þurftum við fleira en álið (nú 35% af útflutningi okkar) og fiskinn (nú 60%), enda óskynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfunni og jafnvel þótt körfurnar séu tvær.
Steini Briem (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 07:37
Það sem mér finnst skrítið er að aðeins Hafnfirðingar fá að kjósa, enn þetta snertir samt þjóðfélagið allt.... Hmm það finnst mér skrítið auðvitað eiga allir landsmenn að kjósa um stækkun álvers ekki bara Hafnfirðingar.
Kærar Kveðjur. Árni Geir Geirsson
aggzinn (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 08:04
Það sem mér finnst skrítið er að aðeins Hafnfirðingar fá að kjósa, enn þetta snertir samt þjóðfélagið allt.... Hmm það finnst mér skrítið auðvitað eiga allir landsmenn að kjósa um stækkun álvers ekki bara Hafnfirðingar.
Kærar Kveðjur. Árni Geir Geirsson
aggzinn (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 08:04
Held að menn ættu að fara varlega í að missa sig yfir þessum fregnum. Gott er ef satt er en ég er eins og Bjarni skeptískur á hátæknistörfin sem þessu ætti að fylgja. Ætli það verði meira en einn til tveir tæknimenn staðsettir hérlendis fyrir hvern gagnabanka? Forritun og annað yrði eflaust unnið frá Indlandi eða einhversstaðar frá þar sem hugbúnaðarfólk er ódýrt vinnuafl. Ísland gæti ss. orðið harði diskurinn í indverskri tölvu ef að við orðum það þannig.
Samt ánægjulegt Ómar að þú hafir staðið þig betur en VG á sínum ferli. Þú ert allavega kominn lengra í að finna eitthvað annað en þeir.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 30.3.2007 kl. 09:03
Ég held að Ómar sé ekki að finna eitt né neitt hérna. Data Islandia hafa verið að undirbúa þetta mál í tæp 2 ár, ásamt fleiri aðilum.
Ég er hins vegar ekki eins bjartsýnn á þetta og margir aðrir. Fyrst vegna hvernig tengingum okkar við umheiminn er háttað. Ríkið á t.d. ekki Farice, heldur einkaaðilar sem eru að stýra því hversu mikið og hversu dýrt samband okkar er við umheiminn. Þetta hefði aldrei átt að vera svona, ríkið hefði átt að eiga Farice og stýra þessu.
Eggert Hjelm Herbertsson, 30.3.2007 kl. 09:23
Hver man eftir fyrirtækinu OZ. átti það ekki að bjarga öllu og gera Ísland
að stórveldi, að minnsta kosti á sviði tölvuvinnslu.
Hvað eru menn að fara, að bulla enn einu sinni um að tölvuþjónusta sé það
sem bjargi landinu. Ætli ekki að eithvað heyrðist í öllu tölvuliðinu ef það ætti
að vinna á sömu launum og greid eru á Indlandi fyrir slíka vinnu.
Ég held að gúrúinn sé búinn að missa öll hjól undan bílnum, og lendimgin veri
dálíti harðari en sú á Esjunni,
Leifur Þorsteinsson, 30.3.2007 kl. 09:27
Þetta er bara hið besta mál og sannar að "eitthvað annað" getur komið líka. Það er sama hvaðan gott kemur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.3.2007 kl. 09:41
Má ég benda á eitt sem lýsir vel hve barnalegt er að kalla Íslandshreyfinguna umhverfisverndarflokk. Ómar þú segir hér að ofan eftirfarandi: "og hærra orkuverð þýðir að meiri möguleikar eru til að setja gufuleiðslur, línur og jafnvel fleiri mannvirki í jörð og gera jarðvarmavirkjanirnar þannig umhverfisvænni."
Þarna er mjög skýrt að þú villt bara litla breytingu á útsýni. Ef þú hefur kynnt þér umhverfisfræðina þá veistu vel að jarðstrengir í jörð eru miklu óumhverfisvænni en loftlínur. Þeir eru ekki eins afturkræfir, þeir krefjast miklu meiri auðlinda (meira magn af málmum) Það er erfiðara að aendurvinna þá, Þeir krefjast miklu meira rasks(þetta eru nefnilega HÁSPENNULíNUR og þær leggur þú ekki snyrtilega í jörð eins og ljósleiðara. Loftlínur eru betur afturkræfar. Ég er ekki áðdáandi loftlína en ég þoli illa rangfærslur sértaklega í umhverfimálum.
En margir líta á þig Ómar sem holdgerving umhverfisstefnu og þá skaltu líka standa þig í staðreyndum. Kann ágætlega við þínar pælingar og stefnu og rangfærslur eru óþolandi sérstaklega í umhverfimálum þar sem Íslendingar eru enn blautir á bak við eyrun.
SIF (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 10:25
Jájá.....við norðanmenn höldum bara áfram að bíða.......og bíða. Og þegar umhverifsverndinni þóknast að gera eitthvað. Þá verða allir fluttir burt. Það er kannski það sem þið viljið.
klakinn (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 11:34
Sem svar við 9 þá er það alveg hárrétt að einkaaðilar hafa veg og vanda að því að fá þessa fjárfestingu inn og er það náttúrulega hið besta mál.
Það er nefnilega mikill og útbreiddur misskilningur hér á Íslandi að það sé hlutverk pólitíkusa að skapa störf. Markaðurinn á að skapa störfin en ríki og sveitarfélög eiga að skapa stoðkerfin sem verða til þess að hagstætt sé hér að stofna og reka fyrirtæki.
Ruðningsáhrif af hinni miklu þenslu sem verið hefur síðustu ár hafa bitnað mest á hátæknifyrirtækjum sem bera nánast allan kostnað í krónum en skapa sér allar tekjur í erlendum gjaldmiðlum. Þess að auki hafa hátæknifyrirtæki um margra ára skeið bent á að léleg tenging Íslands við umheiminn sé mikill flöskuháls og hamli starfssemi þeirra.
Úr tengingunni verður loksins bætt með lagningu nýs eða vonandi nýrra sæstrengja sem veldur því að forsendur fyrir þessum áformum Data Islandia munu verða til staðar.
Varðandi athugasemd hjá Leifi í 10 þá þýðir það að OZ hafi horfið af sjónarsviðinu að sjálfsögðu ekki að öll önnur fyrirtæki á sama sviði muni gera það. CCP var t.d. nýlega að útskrifast úr félagi sprotafyrirtækja þar sem það náði veltu upp á yfir milljarð og skilaði að mig minnir um 370 milljónum í hagnað.
Það eru allar forsendur fyrir því að hægt sé að skapa blómlegan hátækniiðnað hér á Íslandi. Vægi útflutnings í hátækni hér á landi er nú um 7% á móti t.d. 40% á Írlandi og 15-20% í flestum öðrum norðurlöndum (heimild "Samkeppnishæfni Íslands 2006", skýrsla Iðntæknistofnunar). Engar sértækar aðgerðir þarf til að fjölga og styrkja hátæknifyrirtækin á landinu.
Það sem þarf hinsvegar að gera er að hætta með sértækar aðgerðir eins og niðurgreiðslu á rafmagni til styrktar álframleiðslu. Það að styrkja einn Iðnað umfram annan bjagar samkeppnisstöðu og veldur því að "sá hæfasti" lifir ekki endilega af.
Ég held líka að þeir sem alltaf séu að spyrja: "Hvað ætlið þið þá að koma með í staðinn" séu á villigötum.
Það að pólitíkusar eigi að finna út hvað fólk eigi að vinna við er ávísun á uppbyggingu atvinnuvega sem eru langt frá því að skapa mestu verðmætin.
Eðlilegri spurning fyrir þá sem búa á landsbyggðinni væri frekar: Af hverju eru störfin að verða til á höfuðborgarsvæðinu frekar en hér og hvað getum við gert til að breyta þeirri þróun?
Ómar Hilmarsson (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 12:44
Svar til Ómars Himarssonar: Rafmagn til stóriðju er EKKI niðurgreitt. Það er selt á heildsöluverði með hagnaði. Menn deila hinsvegar um hvort verðið mætti ekki vera hærra.
Og varðandi þetta:
"Eðlilegri spurning fyrir þá sem búa á landsbyggðinni væri frekar: Af hverju eru störfin að verða til á höfuðborgarsvæðinu frekar en hér og hvað getum við gert til að breyta þeirri þróun?"
Svona innlegg er góðra gjalda vert, en fólk verður að átta sig á því að aðstöðumunur landsbyggðarinnar/vs höfuðborgarsvæðisins er afar ólíkur hvað tækifæri varðar. Hugmynd sem er alveg briljant á 150 þús manna markaði er kannski ekki alveg raunhæf í 500 manna þorpi.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.3.2007 kl. 13:07
Ég vitna í Kristínu Pétursdóttir hagfræðing og fyrrverandi aðstoðarforstjóra Singer og Friedlander bankans í London:
"Það er alveg ljóst að Landsvirkjun er rekin með óviðunandi arðsemi og það þýðir, þegar öllu er á botninn hvolft, að íslenskir skattborgarar eru að niðurgreiða rafmagn til þessarar stóriðju."
Bendi líka á að t.d. ríkisábyrgð á lán til byggingar Kárahnjúka voru ekki tekin með þegar Landsvirkjun reiknaði arðsemi af þeirri virkjun.
Þú segir:
"Hugmynd sem er alveg briljant á 150 þús manna markaði er kannski ekki alveg raunhæf í 500 manna þorpi. "
Ansi hljóta menn að hugsa smátt ef það eina sem þeim dettur í hug er eitthvað sem eingöngu er hægt að selja nágrannanum.
Sá sem býr í 500 manna þorpi hefur möguleika á að koma með vöru sem nýtist öllum landsmönnum. Sá hinn sami hefur meira að segja möguleika á að koma með vöru sem nýtist öllum heiminum.
En ef "fjarlægð frá markaði" er vandamál þá hlýtur það að benda til þess að með bættum samgöngum mega bæta samkeppnishæfni landsbyggðarinnar vs. höfuðborgarsvæðis og því sé það eitt mögulegt skref af mörgum í þá átt að "leysa vanda landsbyggðarinnar".Ómar Hilmarsson (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 14:30
Púkinn rekur hugbúnaðarfyrirtæki og myndi virkilega óska þess að málið væri svona einfalt.
Staðan er hins vegar sú að Púkinn er sjálfur búinn að flytja megnið af sínum netþjónum úr landi og stefnir að því að flytja sölukerfið og vefþjónana burt líka.
Ef staðan er þannig að íslensk fyirtæki sjá sér ekki fært að hafa svona starfsemi á Íslandi, hvernig dettur þá nokkrum manni í hug að raunhæft sé að fá erlend fyrirtæki til þess?
Ástæðurnar eru að sjálfsögðu hversu dýrt og ótryggt sambandið er.
Púkinn, 30.3.2007 kl. 15:04
Ómar Hilmarsson; hvað veit Kristín um þetta? Greinilega ekki neitt, því arðsemin af þessu er mjög góð í því samhengi sem um ræðir, 11,9% af eigin fé. Svona málflutningur, að taka einhverjar fyrirsagnir á lofti, sem sannleika gerir málflutning þinn ótrúverðugan. Heildaraðsemi þjóðfélagsins er svo miklu meiri, svo ekki sé talað um nærsamfélagið, t.d. á Austurlandi. Þetta sjá allir heilbrigðir menn.
María J. (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 15:25
Ari
Þú ættir kanski að lesa kommentið áður en þú kommentar. Hvort heldur þú að Google borgi íslenskum tölvunarfræðingi 500 þús á mánuði fyrir ða þjónusta hugbúnaðinn þegar hægt er að gera það frá Indlandi þar sem tölvunarfræðingar vinna fyrir 50 þús á mánuði (eða minna). Hættan er sú að einu störfin séu rafvirki til að setja í samband og húsvörður til að passa staðinn. Annars væri gaman að heyra eitthvað nánar af þessu því mér fannst umfjöllun Stöðvar 2 frekar yfirborðskennd.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 30.3.2007 kl. 17:29
Já María J. 11.9% arðsemi er það sem Landsvirkjun reiknar sjálfum sér.
Ef ég væri með fyrirtæki sem fengi niðurgreidd lán + skattaafslátt af framkvæmdum þá myndi ég líka reikna mér fulla arðsemi af því sem út úr því kæmi.
Það er hinsvegar ekki hægt að bera það saman við arðsemina sem yrði ef ég þyrfti að borga raunvexti af lánunum og fengi ekki þessa skattaafslætti og ég geri ráð fyrir að það sé það sem Kristín hafi tekið inn í myndina.
Til að svara Ara þá veit ég ekki betur en að það hafi verið forstjóri Data Islandia sem kom með tölur um 200 ný störf á Íslandi, veit ekki hvað Indland kemur þeim störfum við.
Ómar Hilmarsson (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 17:45
Heyrðu þetta síðasta átti að vera svar til Guðmundar Ragnars í 21 (kominn föstudagur í mann greinilega).
Varðandi það að Google vilji bara fólk á Indlandi þá googlaði ég þetta bara og fann t.d. þennan tengil um "job openings". Maður getur vafrað þarna um og séð t.d. auglýsingu um 224 stöður sem vantar að ráða í á Írlandi (sá ekki að neitt af því væru rafvirkjar).
Ómar Hilmarsson (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 18:06
Bara rétt til að árétta, þá er 11,9% arðsemi eigin fjár alveg gríðarlega léleg ávöxtun á sama tíma og fjárfestar eru að ná um 28% á almennum markaði. 28% ávöxtun með lítilli áhættu, án ríkistrygginga og niðurgreiðslna.
Þeir ættu eiginlega bara að skammast sín með 11,9% ávöxtun með alla aðstoðina sem þeir fá frá því opinbera.
Ríkisskuldabréf, sem er ein öruggasta fáanleg fjárfesting á markaði eru í dag að skila um 16% ávöxtun. 11,9% arðsemi er afar slakt miðað við markaðinn núna. Afar slakt.
Baldvin Jónsson, 30.3.2007 kl. 18:59
Ég er hafnfirðingur. Ég segi nei.
Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 19:35
Þetta er nú skrítin umræða. Við erum að tala um arðsemi, ekki tap. Á meðan það er arðsemi af þessu þá er þetta ekki niðurgreitt.
Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur og rekstrarráðgjafi hjá VG varð sér til skammar þegar hann reiknaði út arðsemi Kárahnjúkavirkjunar árið 2001. Forsendurnar sem hann gaf sér voru svona Draumalands staðreyndir í anda Andra Snæs, öllu snúið á hvolf til að fá út niðurstöður sem hentuðu. Andstæðingar virkjunarinnar veifuðu þessari skýrslu óspart þar til hún var hrakin frá upphafi til enda. Þá hvarf hún. Nýlega sá ég á bloggsíðu frambjóðanda Vg halda þessari skýrslu á lofti og vísaði hún í hana á heimasíðu Náttúruverndarsamtaka Íslands (hvar annarsstaðar?) sem einhvern nýjan sannleika. Skýrslan var í fyrsta lagi samin um allt annað verkefni, þó það héti þá Kárahnjúkavirkjun eins og nú og í öðru lagi þá er hún jafnvel enn vitlausari í dag , en hún var þegar hún var samin.
Kárahnjúkavirkjun kemur hvergi nálægt útgjöldum Ríkissjóðs en vissulega eru lánin sem Landsvirkjun tók vegna framkvæmdana ríkistryggð og á mjög hagstæðum vöxtum. Og er það ekki bara gott mál? Þau rök heyrast að einkafyrirtæki hefði aldrei ráðist í framkvæmdina af því lánin voru svo hagstæð Landsvirkjun. Þetta þarf ekki að vera rétt því til eru einkafyrirtæki með það góða eiginfjárstöðu og gott lánshæfismat að framkvæmdin getur verið fyllilega raunhæfur fjárfestingakostur miðað við orkuverðið sem býðst. Af þessari upptalningu hlýtur hver maður að sjá að tal um niðurgreiðslu er einfaldlega rangt.
28% ávöxtun! Ávöxtunarkrafa er ekki svona há, þó vissulega sjáist ´slík ávöxtun og jafnvel mun hærri. En þegar gerðar eru ávöxtunarkröfur á almennum markaði þá gleyma menn mjög oft áhættuþættinum. Raunveruleikin er ekki svona því þá gætu allir verið moldríkir. Áhætta Landsvirkjunar er mjög lítil. Gerðir eru langtímasamningur um raforkusölu og sérfræðingar eru fengnir til að spá um álverð, eftirspurn og framboð mörg ár fram í tíman. En svo koma auðvitað kaffibollahagfræðingar eins og Þorsteinn Siglaugsson og kollvarpa áralöngum rannsóknum. Hann settist yfir verkefnið við eldhúsborðið heima hjá sér og VG og aðrir öfgamenn í umhverfisvernd tóku boðskapnum fagnandi.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.3.2007 kl. 20:36
Þetta er náttúrulega algjör steypa, fyrirgefið orðalagið.
Í fyrsta lagi þarf ekkert að koma í staðin fyrir álver. Fínt ef tölvuver kæmu hingað en það tekur fleiri fleiri ár.
Misskilningur að þau myndu skapa hátæknistörf. Ef þau gerðu það þá er það ekki sama vinnuaflið sem vinnur í álverum. Það er talsverður skortur í dag á velmenntuðu tæknifólki, bankarnir kaupa það í vinnu sem veldur erfiðleikum hjá núverandi hugbúnaðar og hátæknifyrirtækjum.
Við þurfum mörg ár af hvetjandi umhverfi til að mennta fleira fólk á tæknisviði og ættum að gera það. Svo gleymist nú alveg sú staðreynd að fleiri og fleiri hugbúnaðar og tæknifyrirtæki í dag, já líka á Íslandi, eru að útvíkka starfsemi sína með því að fjölga sínu starfsfólki í Indlandi í og með vegna þess að við erum ekki samkeppnisfær með allt okkar tæknifólk á þeim launum sem þykja réttlát fyrir slíka vinnu í dag á vesturlöndum.
Við eigum að ýta undir aukna menntun í landinu, hjálpa hátækniiðnaði og nýsköpun en það kemur ekki í staðin fyrir álver. Stækkað álver í Straumsvík verður minna sýnilegt en núverandi álver og flutningslínur verða að mestu í jörðu nálægt þéttbýli.
Græningjar á Íslandi eru á miklum villigötum og hugsa bara um eigin hag og græna tískuna á meðan þeir búa í vellystingum praktuglega í mikilli hagsæld og hagvexti sem að hluta hefur skapast með orkunýtingu og stóriðju sem byggð hefur verið upp á Íslandi síðustu áratugi.
Kveðja,
Jón Árni
Jón Árni Bragason, 30.3.2007 kl. 22:10
FIMM MILLJARÐAR KRÓNA er heildaraðgangseyrir að eldfjallagarðinum á Hawaii, eða 1.500 krónur á mann, en þangað koma 3,3 milljónir manna á ári. Aðgangseyrir í Bláa lónið er 1.400 krónur, þangað komu um 380 þúsund gestir í fyrra og þeim fjölgar ár frá ári. Langstærsti hluti þeirra voru erlendir ferðamenn og þar vinna vel á annað hundrað manns en lágmark 200 manns munu vinna þar eftir 4 ár, að sögn Önnu Sverrisdóttur, framkvæmdastjóra Bláa lónsins. Hún segir að stækkun álversins í Hafnarfirði myndi ganga þvert gegn hagsmunum Bláa lónsins og Reykjanesfólkvangs en að honum standa Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Grindavík.
Bláa lónið hefur fengið verðlaun fyrir að vera besta náttúrulega heilsulind heims, einn af tíu ótrúlegustu baðstöðum heims og ein af 25 bestu heilsulindum í heimi. Ef Reykjanesgarðurinn fengi sömu aðsókn og innheimti sama aðgangseyri og Bláa lónið yrði aðgangseyrir hans samtals um 532 milljónir króna á ári en heildartekjur Bláa lónsins eru 1,26 milljarðar króna á ári. Í Reykjanesgarðinum getur að sjálfsögðu verið til dæmis fræðslusetur, sala á minjagripum, leiðsaga, gisti- og veitingaaðstaða, svo eitthvað sé nefnt.
Tillaga um aðgang að hinum gríðarstóra Þríhnúkagíg, sem er í Reykjanesfólkvangi í lögsögu Kópavogs, birtist í grein í Morgunblaðinu 4. janúar 2004. Þar er lagt til að aðgengi að gígnum verði um 200 metra löng göng inn á svalir í gígnum. Svalirnar stæðu út í rýmið í miðjum gígnum á 64 metra dýpi og í 56 metra hæð frá gígbotninum. Útsýni niður í gígpottinn yrði æði mikilfenglegt og tvö 20 hæða hús myndu til dæmis komast fyrir neðan svalanna.
Um 420 þúsund ferðamenn komu hingað í fyrra og þeir eyddu hér um 100 þúsund krónum á mann, samkvæmt Ferðamálastofu, samtals um 42 milljörðum króna. Þar að auki komu hingað tugir þúsunda ferðamanna með mörgum og stórum skemmtiferðaskipum, sem ryksuguðu hér upp rándýrar lopapeysur og fóru í lystireisur til Þingvalla, Gullfoss, Geysis og Mývatnssveitar, þar sem jarðböð hafa dregið að sér um 50 þúsund gesti. Ísland er nú fjórða samkeppnishæfasta land í heimi í ferðaþjónustu og hlutfall hennar í vergri landsframleiðslu er 6,3%. Landsframleiðslan mun hins vegar aukast um allt að 1,2% þegar álframleiðsla Alcoa Fjarðaáls verður komin í fullan gang. Ferðaþjónustan er því á við fimm slík álver og laun í ferðaþjónustu eru hér hærri en í öðrum greinum, samkvæmt Hagfræðistofnun.
Steini Briem (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 05:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.