23.2.2015 | 00:58
Útspil Davíðs kann að verða tvíbent.
Þótt Reykjavíkurbréf sé ekki ritað undir nafni er líklegast að Davíð Oddson sé höfundur síðasta Reykjavíkurbréfs, ef miðað er við efni þess, sem er lán Seðlabankans til Kaupþings rétt fyrir Hrunið í október 2008.
Í bréfinu er leitast við að fría Davíð af allri ábyrgð á þessu láni og koma ábyrgðinni alfarið yfir á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.
Einnig er sagt að krafan um afsögn Davíðs hafi verið fáheyrt rugl.
Tvennt kanna að trufla þessa röksemdafærslu Davíðs og beina umræðunni í aðra átt en hann vonast til.
Í fyrsta lagi ber bæði Má Guðmundssyni núverandi Seðlabankastjóra og Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi Seðlabankastjóra, saman um það, að lögum samkvæmt beri stjórn Seðlabankans ævinlega endanlega ábyrgð á lánveitingum bankans.
Í öðru lagi var það krafan alla tíð í Búsáhaldabyltingunni frá október 2008 til janúar 2009 að bæði ríkisstjórnin og Seðlabankastjórnin færu frá.
Og bæði ríkisstjórnin, með ráðherrum Sjalla og Samfó, og Seðlabankastjórinn fóru frá.
Skrifin í Reykjavíkurbréfinu og aðrar umræður um málið hljóta að gefa þeirri kröfu aukið vægi að birta símtalið fræga milli Geirs Haarde og Davíðs Oddssonar.
Og þá verður fróðlegt að fylgjast með framvindu málsins.
Hyggst gera skýrslu um Kaupþingslán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, var sjálfur flutningsmaður frumvarps um Seðlabanka Íslands, sem varð að lögum árið 2001, og Geir H. Haarde var þá fjármálaráðherra:
"1. gr. Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. ..."
Lög um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001
"Sjálfstæð ríkisstofnun - Stofnun á vegum ríkisins sem býr við sjálfstæði hvað varðar rekstur, ákvarðanatöku o.fl. en heyrir stjórnarfarslega undir tiltekinn ráðherra. ..."
Lögfræðiorðabók með skýringum - Lagastofnun Háskóla Íslands, útg. 2008.
"Í september árið 2005 tilkynnti Davíð [Oddsson] að hann hygðist hætta í stjórnmálum og taka við stöðu seðlabankastjóra sem Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði hann í.
Davíð sagði af sér embætti ráðherra 27. september og tók við stöðu seðlabankastjóra 25. október sama ár."
Þorsteinn Briem, 23.2.2015 kl. 07:23
Dabbi vildi í Seðlabankann án þess að hafa nokkra menntun í starfið og Dóri barasta reddaði því. Hafa fengið sér í glas og málið var útkljáð.
Þvílíkur hálfvitagangur og fer versnandi.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 23.2.2015 kl. 07:59
Það er áhugavert af hverju Davíð fer að skrifa um þetta nú.
Trúlega er farið að styttast í að símtalið verði opinberað og þetta sé einhverskonar skaðastjórnun af hálfu Davíðs.
Hvort hún virki og almenningur gleypi réttu fluguna verður tíminn að leiða í ljós.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 23.2.2015 kl. 09:48
Davíð vildi leyfa bankamönnunum að spreyta sig. Já já, sagði Dabbinn, spreytið ykkur bara strákar. Hérna fáið þið gjaldeyrissjóð almennings. Takið þetta bara og spreytið ykkur.
Þessi maður er hafður í guðatölu nánast hjá sumum innbyggjanum.
Segir ákveðna sögu um ástandið á Íslandi.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.2.2015 kl. 10:44
Fyndið að sjá Má vísa í Seðlabankalög máli sínu til stuðnings. Það stendur líka í lögunum að skipa skuli nefnd sem leggja skuli mat á hæfni umsækjenda en hann sjálfur var ráðinn með SMS sendingu Ingibjargar Sólrúnar. Hvergi er minnst á neina nefnd í skilaboðunum Gerðu Má að Seðlabankastjóra.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 23.2.2015 kl. 12:10
15.8.2014:
"Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur ... skipað Má Guðmundsson í embætti seðlabankastjóra til fimm ára frá og með 20. ágúst 2014.
Már var fyrst skipaður seðlabankastjóri 20. ágúst 2009."
Þorsteinn Briem, 23.2.2015 kl. 13:07
Seðlabankinn heyrði undir forsætisráðuneytið en ekki utanríkisráðuneytið.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var utanríkisráðherra en Geir H. Haarde forsætisráðherra og þar að auki hagfræðingur.
Seðlabankinn heyrði því undir Geir en ekki Ingibjörgu, þannig að hún gat engan veginn ráðið því ein hver eða hverjir væru hér seðlabankastjórar.
Þorsteinn Briem, 23.2.2015 kl. 13:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.