ÁBYRGÐ HAFNFIRÐINGA

Ábyrgð Hafnfirðinga er mikil þegar þeir ganga að kjörborðinu í dag og kjósa um stækkun álversins. Þeir kjósa um það hvort langstærsta álver Evrópu heilsi erlendum gestum Íslendinga í anddyri landsins við borgarhlið höfuðborgarsvæðisins. Ég þekki enga aðra innkomuleið að höfuðborg í okkar heimshluta þar sem jafn afgerandi tákn um mengun og hráa iðnvæðingu blasir við og ber ægishjálm yfir allt umhverfi sitt.

80 prósent erlendra ferðamanna segjast vera komnir til landsins til að skoða einstæða og ósnortna náttúru þess og þetta risaálver mun vekja hjá þeim margar spurningar um hugsunarhátt þjóðarinnar sem hefur verið falið að varðveita þessa náttúru fyrir óbornar kynslóðir og mannkyn allt.

Stækkun álversins í Straumsvík er aðeins hluti af stóriðju- og virkjanahraðlest sem nú brunar stjórnlaust áfram og mun fyrr en varir leiða til þess að fyrsta mannvirkið, sem blasir við erlendum gestum okkar þegar þeir koma til landsins, verði álver í Helguvík og að síðan muni þeir aka allt austur undir Landmannalaugar um landslag með samfelldri röð verksmiðja, virkjana, uppistöðulóna og háspennulína.

Nú vona ég og bið að Hafnfirðingar hugsi til fólksins við Þjórsá, íbúa átta sveitarfélaga sem málið snertir og annarra landsmanna sem ítrekað hafa sýnt í skoðanakönnunum að meirihluti þjóðarinnar vill ekki stækkun álversins í Straumsvík.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Sammála .
Vonandi að þeir kjósi rétt ---
Og gefi ekki heimild til stækkunar.

Halldór Sigurðsson, 31.3.2007 kl. 14:26

2 identicon

Ómar, þarna ert þú að upplýsa alþýðu manna um vanþekkingu þína eina ferðina enn.   Flestar stórborgir í hinum iðnvædda heimi taka á móti þér með verksmiðjum og öðru atvinnufyrirtækjum, sem ekki eru beint til skrauts.   Hefur þú komið til Parísar?   Eða til Vínar?    Þegar þú keyrir frá Vínarflugvelli ferð þú m.a. framhjá einni af stærstu olíuhreinsistöð í Evrópu.   

María J. (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 15:23

3 Smámynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson

Æji... Ég er nú einn af þessu fólki við Þjórsá og er orðinn frekar leiður á að okkur er öllum skellt undir sama hatt. Ég er t.d. óákveðinn í þessu máli. Það eru góð og gild rök með og á móti virkjununum í Þjórsá. Hjá okkur hefur ekki verið gerð nein skoðunarkönnun en ég held að málið í mínu sveitarfélagi standi þannig að 25 - 30% séu fylgjandi og álíka margir á móti. Það eru svona 40-50% óákveðin og það er stórt hlutfall. Ég mætti á fund Sólar á Suðurlandi og var þá sjálfkrafa álitinn andstæðingur virkjana. Ég vildi hins vegar aðeins fá að sjá hina hliðina.

Blessuð hættið að draga okkur öll í sama dilk.

Jónas Yngvi Ásgrímsson, 31.3.2007 kl. 15:27

4 identicon

Við Hafnfirðingar fengum valdið í okkar hendur til að kjósa um þetta mál með okkar hagsmuni að leiðarljósi.  Ég skal bara viðurkenna það hreint út að ég er eingöngu að hugsa um hag Hafnarfjarðar þegar ég kýs að hafna því að láta sveigja mig og beygja af þessu alþjóðlega risafyrirtæki sem er eingöngu að hugsa um að búa til meiri peninga fyrir eigendur sína.  Mér finnst ósanngjarnt hvernig staðið hefur verið að þessum kosningum, þar sem engin takmörk hafa verið fyrir því hversu miklu fé þetta sórfyrirtæki má nota í áróður sinn. Á meðan eru einhver lítil hagsmunasamtök (Sól í Straumi) að reyna að verja hag okkar Hafnfirðinga.  Auðvitað kýs ég nei, enda eru nánast engin rök fyrir þessari stækkun nema þá kanski að hjálpa þessum aðilum að græða meiri pening um leið og þennslan heldur vöxtunum okkar uppi og við borgum brúsan.  NEI, TAKK.

Þorvaldur (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 15:35

5 identicon

ÁLVERIÐ VERÐUR EKKI STÆKKAÐ, hvernig sem þessar kosningar fara í Hafnarfirði, samþykkt eða fellt með eins atkvæðis mun breytir engu, því hér verður mynduð "græn stjórn" eftir mánuð, "vinstri græn stjórn" með Vinstri grænum, Samfó og annað hvort Frjálsblindum eða Ómari, "hægri græn stjórn" með Ómari, Sjöllum og Framsókn, eða "vinstri-hægri græn stjórn" með Vinstri grænum og Sjöllum, sem mér þykir reyndar mjög ólíklegt. Líklegastur þykir mér fyrsti kosturinn, enda krefjast 70% þjóðarinnar að kvótakerfinu verði umbylt sem allra fyrst. En það arfavitlausa kerfi verja Framsókn og Sjallar með kjafti og klóm, eins og augljóst var á Alþingi á dögunum, enda þótt það sé að leggja landsbyggðina í rúst.  

Steini Briem (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 17:05

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég get ekki séð að það sé neinn eðlismunur á því hvort útlendingar sem koma hingað til að skoða náttúruna sjá álverið í núverandi mynd eða stækkað álver. Það breytir engu. Þegar það keyrir í gegnum höfuðborgarsvæðið þá sér það einfaldlega borgarmynd sem það sér allstaðar annarsstaðar. Svo fer það bara þangað í náttúruna sem því hugnast.

Raflínur eru bara tákn um að fólk búi á svæðinu. Á landið okkar að líta út eins og hér búi ekki sála? Þú talar gjarnan Ómar um komandi kynslóðir eins og þær séu allar skráðar í Íslandshreyfinguna. Í dag eru Íslendingar um 300 þús. Ummerki búsetu manna munu bara aukast hér. Raflínur í byggð mun engu máli skipta. Einhver hluti þeirra verður í jörð, kannski allt í frammtíðinni ef tæknin leyfir.

Raddir ykkar þurfa auðvitað að heyrast. Það er nauðsynlegt að veita ákveðið aðhald í auðlindanýtingunni en fyrir mína parta þá hef ég ekki enn verið sammála ykkur í neinu. Það gæti auðvitað breyst einhverntíma.

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2007 kl. 17:11

7 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Ég held að álverið í strumsvík veki nú ekki miklar spurningar hjá erlendum gestum, þeir sjá einungis iðnað sem þeir þekkja mæta vel heiman frá sér og vita sem er að þetta er einungis einn af atvinnuvegum landans.

Ég held að þeir horfi miklu frekar í hina áttina (til austurs) og furði sig á því hvað landi sé í raun ósnortið þrátt fyrir iðnaðinn, og díst að því að það skuli vera hægt að sjá ósnortið hraun og stóriðju út um gluggan á sama bíl á sama vegi á sömu stundu, enda er það eitthvað sem erfitt er að finna víðast hvar í heiminum.

Eiður Ragnarsson, 31.3.2007 kl. 17:53

8 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Þú ættir að sjá brúnkolanámurnar í Þýskalandi þar er eithvað það mesta jarðrask sem ég hef séð þó var verið að fara með ferðamannin til þess að sýna þær.

Ragnar G. 

Ragnar Gunnlaugsson, 31.3.2007 kl. 18:10

9 identicon

ÁRSVERK í ferðaþjónustunni hérlendis voru orðin um sjö þúsund talsins árið 2004, samkvæmt Hagfræðistofnun. Sumir eru í fullu starfi í ferðaþjónustunni hér en aðrir í hlutastarfi, eins og mörgum öðrum greinum, til dæmis áliðnaði, þar sem margir hafa verið í hlutastarfi yfir sumartímann, eins og í ferðaþjónustunni.

Steini Briem (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 18:19

10 identicon

Það er svo gaman að sjá athugasemdir sumra hérna!  Af því að það eru námur í Þýskalandi og olíuhreinsistöð í Vín....þurfum við þá að hafa hið sama?  Óttalegur viðsnúningur!  Hugsið nú örlítið lengra en í budduna ykkar....þetta skilar sér hvort eð er ekki í ykkar buddu.  Leyfið landinu að njóta vafans.  Ómar...ég kýs þig.  Verð vissari um það eftir hverja furðulega athugasemd sem þú færð hér :)

Stefán (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 22:17

11 identicon

Umhugsunarvert: 

"Þjóðarhreyfingin – með lýðræði

Yfirlýsing vegna íbúakosningar í Hafnarfirði:

Þjóðarhreyfingin fagnar því skrefi í átt til íbúalýðræðis sem stigið er með því
að fela Hafnfirðingum að kjósa um deiliskipulag, sem ráðið getur úrslitum um
stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Hreyfingin bendir þó á að málið varðar
fleiri en íbúa Hafnarfjarðar. Lýðræðislegra hefði verið að stækkun álbræðslunnar ásamt annarri mannvirkjagerð henni viðkomandi hefði verið borin undir alla sem málið varðar.

Þá hlýtur Þjóðarhreyfingin að benda á hversu ójöfn vígstaðan er fyrir þá sem takast á í þessari íbúakosningu. Annars vegar er alþjóðlegt risafyrirtæki með ótakmarkað fjármagn til að reka áróður sinn; hins vegar sjálfsprottin grasrótarsamtök sem litlu hafa úr að spila  nema frjálsum framlögum áhugafólks. Hér blasir við geigvænlegur lýðræðishalli. Brýnt er í framtíðinni að kosningum af þessu tagi verði sett lagaleg umgjörð sem setji auðmagninu takmörk og tryggi jafnræði þeirra sjónarmiða sem tekist er á um hverju sinni.

Þjóðarhreyfingin - með lýðræði hvetur Hafnfirðinga til að láta í ljósi vilja sinn og taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Reykjavík, 29. mars 2007

Þjóðarhreyfingin - með lýðræði
www.thjodarhreyfingin.is
info@thjodarhreyfingin.is"

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 22:40

12 identicon

ÆÆÆ

ÓMAR minn nú liggur þú í því. Álverið verður fellt og greinum aðeins ástandið þá.  Hver er þá þörfin fyrir að kjósa ykkur eða VG í vor.  Þarna er stærsta álskrýmslið þegar fallið og ekki nóg með það því það þýðir að annað 180 tonna er á leiðinni út.  Nú þá fellur líka Þjórsá niður í bili hahahaha og engin vatnaflsvirkjun til að berjast hetjulega gegn.

Hvað er þá eftir jú Álver á Helguvík þar sem möguleg orku (ef til er) mun koma frá svæðum sem þegar eru röskuð og gleymum ekki að þegar Alcan fer eftir 7 ár þá smellpassar það við seinni áfanga Helguvíkur. Engin ný virkjun sem sagt.

OK ætlar þá umhverfisöfgamenn að þyrpast norður?  Með HVAÐA rök? Náttúruspjöll Hver? Eitthvað annað Hvað? Ruðningsáhrif hver? kemur inn í dal eftir fall Alcans og siglir því á sléttu. 

Glætan að venjulegt fólk þori að kjósa frekar gegn einhverri meintri stóriðjustefnu sem nú þegar virðist vera að fjöruð út.

Aumingja Anti-álistarnir svo virðist sem sigur grænna Hafnfirðinga geri út af við græna tækifærissinna í vor. Til Hamingju Húsavík

Athugið þetta er skrifað fyrir allra síðustu tölur úr Friðinum þannig að mögulega verður þessi pistill að algeru rugli.

SIF (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 22:41

13 identicon

Til hamingju, nú liggja úrslit fyrir, Hafnfirðingar sögðu nei!

Vonandi verður nú hægt að taka upp vitræna umræðu um hvernig við getum selt orkuna til þeirra sem vilja nýta hana á eins mengunarlausan hátt sem unnt er.

Þetta var sigur þeirra sem hugsa um framtíð barna okkar og barnabarna, ekki bara um boruna á sjálfum sér!

Ævar (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 22:58

14 identicon

Ég er glaður Hafnfirðingur í dag

Bára (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 23:16

15 identicon

Tókst! 

Burt með álverin og inn með hátækni iðnaðinn. 

Svo bara að kjósa aftur rétt :)

Bjarki Már (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 00:51

16 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Sáuð þið Kompássþáttinn þann 1. apríl ? Sáuð þið neyðina í Mongalíu? Haldið þið að Mongolíubúar vildu stóryðju í burt og vildu áfram búa í holræsum borgarinnar?

Guðrún Magnea Helgadóttir, 6.4.2007 kl. 16:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband