25.2.2015 | 07:23
Kjallarinn undir kjallaranum og týndi flugvöllurinn.
Það er margt og merkilegt sem fáir eða engir vita um, jafnvel þeir sem næst standa.
Það var ekki fyrr en 20 árum eftir að ég hafði verið í samráðsnefnd um byggingu Útvarpshússins sem ég uppgötvaði að húsið, sem sýnist vera þrjár hæðir þegar komið er að því úr Efstaleitinu, er í raun sex hæðir! Undir kjallaranum er aukakjallari, sem hýsir hið tröllaukna loftræstikerfi hússins og utan frá, sér enginn aðkomumaður þriðju hæðina, en hún hýsir nær enga starfsemi!
Ég var búinn að vera á ferð bæði á landi og í lofti yfir Brúaröræfum árum saman í mörgum tugum ferða þegar ég frétti af því að á Efri-Jökuldal hefðu bændur áratugum saman þekkt örnefnið "Flugvöllur" eða allt frá árinu 1938 þegar Agnar-Koefoed Hansen lenti þar þýskri flugvél og skrifaði Halldóri bónda á Brú bréf, þar sem falast var eftir leyfi landeiganda til að leggja flugvöll á þessum stað, sem er með hnitin 1602-6450.
Ég fann "Flugvöll" ekki fyrr en eftir talsverða leit og frétti ekki fyrr en nokkrum árum eftir það að smalamenn á Jökuldal hefðu haustið 1940 rifið niður vörður, sem annað hvort Agnar eða þýska vísindakonan Emmy Todtmann hefðu hlaðið á Flugvelli.
Og það var ekki fyrr en þremur árum eftir að ég fann Flugvöll og hafði verið þar oft og mörgum sinnum við að valta og merkja brautir að ég fann vörðubotnana fyrir aðra fyrirhuguðu flugbrautina og fjórum árum eftir það sem ég fann vörðubotna fyrir hina brautina, sjá mynd.
Og núna um daginn sendi Jónas Ragnarsson mér frétt í Alþýðublaðinu frá júlí 1940 þar sem sagt var frá dularfullum merkingum "svonefndra þýskra vísindamanna" á hálendinu eins og það er orðað í fréttinni, en þess ekki getið hvar þær merkingar væru. En Þór Whitehead fann um síðustu aldamót kort í safni í Þýskalandi kort af Íslandi, þar sem Luftwaffe hafði merkt inn með krossum hugsanleg flugvallastæði á Íslandi.
Flugvöllurinn umræddi heitir nú Sauðárflugvöllur með alþjóðlega heitinu BISA og er hægt að fletta upp upplýsingum um hann undir heitinu Icelandic Aerodromes. Þar sést að hann er nú næst stærsti flugvöllur landsins og jafn mikið leitað upplýsinga um hann og Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll, enda er hann næsti flugvöllur við gosið í Holuhrauni.
Myndina í miðjunni hér að ofan tók Jón Karl Snorrason í heimsókn þangað í haust, en morguninn eftir fannst í flugi frá vellinum, nýtt en mjög smátt eldgos á nýjum stað, sem lognaðist fljótt út af.
Dularfullt neðanjarðarbyrgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Af fjárglæfrum dæmist fátt,
fyrnast ef ekki fer hátt,
en kvað vera munur,
kvikni smá grunur,
um kaupleigu og kjallarasátt!
http://www.dv.is/frettir/2015/2/25/setningin-sem-felldi-vaendiskaupandann-and-can-i-touch-you-also-it-okey/
Þjóðólfur í Neðri-Byggð (IP-tala skráð) 25.2.2015 kl. 13:42
Dr. Emmy Todtman vann hér á landi við jöklarannsóknir á Brúarjökli. Hún var rannsóknarvísindamaður við Háskólann í Hamborg og birti nokkrar greinar um niðurstöður sínar í vísindatímaritum sem íslenskir jarðfræðingar þekkja líklega.
Ég kynntist Dr. Todtman á sjötta áratug síðustu aldar því hún gisti oftast hjá foreldrum mínum á leiðinni til og frá Reykjavík. Hún lenti í miklum ævintýrum við að komast að jökulröndinni, fékk bændar fyrir norðan til að flytja sig að jökulröndinni, var stundum með fylgdarmann með sér en oftast ein og það í marga dag. Eitt sinn veiktist fylgdarmaður hennar og gekk hún þá til byggða til að ná í hjálp, var tvo sólarhringa á leiðinni. Hörkukona sem lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Var í samskiptum við dr. Jón Eyþórsson veðurfræðing og fleiri íslenska vísindamenn, að ég man.
Varla hefur hún staðið í að rífa niður vörður. Það kemur mér ókunnuglega fyrir sjónar, hafandi þekkt hana.
Björn Matthíasson (IP-tala skráð) 25.2.2015 kl. 21:02
Ekki heldur Ómar því fram að Todtmann þessi hefði rifið vörðurnar. Þvert á móti, líklegt væri að hún hefði hlaðið þær. Smalamenn jökuldælskir voru hins vegar grunaðir um niðurifið.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 25.2.2015 kl. 21:26
Emmy þekkti íslenska jarðvísindamenn vel, til dæmis Þorleif heitinn Einarsson.
Svo segir mér Ásta Þorleifsdóttir, dóttir hans, að sem telpa hafi hún hrifist af Emmy og látið sig dreyma um að verða sem líkustu henni þegar hún yrði stór.
Ómar Ragnarsson, 10.3.2015 kl. 15:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.